Flugbjörgunarsveitin tók þátt í að aðstoða íbúa höfuðborgarsvæðisins í óveðrinu sem gekk yfir í gær. Björgunarmenn sveitarinnar sinntu hinum ýmsu verkefnum þar á meðal að losa fasta bíla og festa niður lausar þakplötur. Aðstæður voru á köflum mjög erfiðar. Á Kjalarnesi fóru hviðurnar á tímabili í 35 m/s og varla sást fram fyrir húddið á bílnum. Brugðið var á það ráð að láta björgunarmann ganga í kantinum með bílnum svo bílstjórinn áttaði sig á því hvar hann var staddur miðað við veginn. Dagurinn gekk að flestu leyti nokkuð vel, vegfarendur voru skilningsríkir og samstarf við Lögreglu, Vegagerðina og aðrar björgunarsveitir mjög gott.