Minningardagur um fórnarlömb umferðaslysa

Fjöldi viðbragðsaðila kom saman til að heiðra minningu fórnarlamba umferðaslysa.

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík tók á sunnudaginn þátt í minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa, ásamt öðrum björgunarsveitum og viðbragðsaðilum. Í Reykjavík fór athöfnin fram við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi og þar kom fjöldi viðbragðsaðila og annara gesta saman til að heiðra minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni. Í ár var sjónum þó beint sérstaklega að aðstandendum.

Sambærilegar athafnir voru haldnar víða um landið á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Á Facebook síðu félagsins kemur fram að  „Þakklæti til viðbragðsaðila, fyrir fórnfýsi og óeigingjarnt starf sitt við björgun og aðhlynningu á vettvangi, [hafi verið] ofarlega í huga þeirra sem fluttu ávörp.“

Guðjón, Ívar og Bergþór, nýliðar í FBSR, sóttu athöfnina ásamt fleiri nýliðum og inngengnum félögum sveitarinnar.

Nýliðafréttir

Um liðna helgi var mikið um að vera hjá FBSR, eins og yfirleitt er um nýliðahelgar. Nýliðar á fyrsta ári, B1, sóttu námskeið í fyrstu hjálp en nýliðar á öðru ári, B2, fóru í vetrarfjallamennskuferð á Botnssúlur.

Fyrsta hjálp hjá B1

Það reyndi örlítið á taugarnar hjá B1 um helgina þegar hópurinn sótti maraþonnámskeið í fyrstu hjálp. Sjúkrasvið FBSR hélt utan um námskeiðið en á því er farið yfir ýmsa misalvarlega kvilla og aðstæður sem komið geta upp og rétt viðbrögð kennd og prófuð í öruggum aðstæðum. Þríhyrningakerfið var þar mikið æft, sem og endurlífgun, líkamsskoðun, meðferð sára og fleira.

B1-liðar stóðu sig með mikilli prýði og ljóst að um krafmikinn og áhugasaman hóp er að ræða.

Vetrarfjallamennska hjá B2

Nýliðahópur B2 ásamt fylgiliði hélt á laugardaginn á Botnssúlur. Hópurinn taldi rúmlega 30 manns sem öll byrjuðu gönguna við Svartagil á Þingvöllum. Um helmingur stefndi á Syðstusúlu en hinn helmingurinn á Miðsúlu og náðu báðir hópar að toppa, þó skyggni væri lítið sem ekkert og færið erfitt á köflum.

Á toppnum var ekkert útsýni en stemningin var engu að síður afar góð. Það birti svo til á niðurleiðinni og blöstu Þingvellir þá við hópnum í allri sinni dýrð. Í myndbandinu hér fyrir neðan má upplifa stemninguna hjá Miðsúluhópnum og þar á eftir koma myndir úfrá báðum hópum.

Nýtt fólk!

Á aðalfundi FBSR síðastliðinn laugardag gengu 18 manns í sveitina eftir tveggja „skólaára“ þjálfun. Hér má sjá hluta hópsins ásamt þjálfurum þeirra. Þetta öfluga fólk er þegar farið að láta mikið til sín taka í starfi sveitarinnar og útköllum.

Aðalfundur FBSR 25. maí

Aðalfundur FBSR verður haldinn 25. maí nk. og hefst hann kl. 12:00.

Dagskrá aðalfundar:
1. Formaður setur fundinn, en fundurinn kýs sér fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar
3. Ársreikningur lagður fram til samþykktar
4. Inntaka nýrra félaga.
5. Lagabreytingar ef þeirra er getið í fundarboði
6. Tillögur sem borist hafa kynntar og bornar undir atkvæði.
7. Kosning stjórnar
8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
9. Kosning tveggja í uppstillingarnefnd
10. Önnur má

Í hléi býður Kvennadeild FBSR upp á kaffiveitingar og kosta þær 2.000kr. Greiða þarf fyrir með seðlum.

Heimsókn frá Ísaksskóla

Á miðvikudaginn fengum við í FBSR skemmtilega heimsókn þegar stór hópur frá Ísaksskóla kíkti við. Heimsóknin var hluti af þemadögum hjá krökkum í 3. og 4. bekk og fengu þau stutta fræðslu um FBSR og björgunarsveitir almennt. Þá fengu þau að skoða tæki og búnað sveitarinnar, fræðast um fallhlífahópinn og hitta hundinn Rökkva.

Í það heila komu um 100 í heimsókn og var einstaklega gaman að sjá svona marga fróðleiksfúsa og áhugasama um starfið og hvað það er sem björgunarsveitarfólk gerir.

Við þökkum kærlega fyrir innlitið og vonumst til að sjá sem flesta eftir tæplega áratug eða svo í nýliðastarfinu.

 

Flugeldasölustaðir Flugbjörgunarsveitarinnar

Flugeldasala björgunarsveitanna er stærsta fjáröflun sjálfboðaliðastarfsins og skiptir því öllu máli. 

Í ár eru sölustaðir okkar á fjórum stöðum. Í félagsheimilinu við Flugvallarveg, fyrir framan World Class í Kringlunni, við Frumherja í Mjódd og við Norðlingabraut í Norðlingaholti. 

Vöruúrvalið gríðarlega gott og sérstaklega má minna á Skjótum Rótum fyrir alla en sérstaklega þá sem ekki kaupa flugelda en vilja styðja við starfa björgunarsveita. Þá mætir þú til ykkar, kaupir pappírstré og næsta sumar verður gróðursett tré í Áramótaskógi Slysavarnafélagsins Landsbjargar við Þorlákshöfn. 

Nýliðakynningar 28. og 30. ágúst

Kynning á nýliðaþjálfun FBSR verður haldin kl. 20 þann 28. ágúst og endurtekin kl. 20 þann 30. ágúst. Kynningin verður í höfuðstöðvum FBSR að Flugvallarvegi 7.

Þjálfunin tekur tvo vetur, sept.-maí 2018-2020. Nýliðar læra á þeim tíma að bjarga sjálfum sér og öðrum við ýmsar aðstæður. Meðal námsgreina eru ferðamennska, rötun, GPS, fyrsta hjálp, fjarskipti, fjallamennska, fjallabjörgun, snjóflóð, straumvatnsbjörgun, leitartækni og jeppamennska. Að auki taka nýliðar virkan þátt í ýmsu öðru starfi sveitarinnar, svo sem fjáröflunum.

Kíkið í heimsókn ef þið hafið áhuga á fjölbreyttu og gefandi starfi með björgunarsveit!

Facebook viðburður fyrri kynningar.

Facebook viðburður seinni kynningar.

13 nýir flubbar

Nýir félagar, teknir inn á aðalfundir í maí 2018, ásamt öðrum nýliðaþjálfaranum þeirra, honum Matta.

Aðalfundur flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík var haldinn á miðvikudaginn síðastliðinn. Meðal reglulegra aðalfundastarfa var inntaka nýrra félaga. Þetta árið voru teknir inn 13 nýir félagar:

  • Arnar Haukur Rúnarsson
  • Birgir Hrafn Sigurðsson
  • Corinna Hoffmann
  • Elísabet Ósk Maríusdóttir
  • Höskuldur Tryggvason
  • Ingibjörg K. Halldórsdóttir
  • Ingvar Júlíus Guðmundsson
  • Magnea Óskarsdóttir
  • Magnús Kári
  • Róbert Már Þorvaldsson
  • Sunna Björg Aðalsteinsdóttir
  • Ásta Þorleifsdóttir
  • Íris Gunnarsdóttir

Óskum við þeim til hamingju og hlökkum til að starfa með þeim í framtíðinni.

Aðalfundur 2018

Kæru félagar.

 

Aðalfundur FBSR verður haldinn miðvikudaginn 23. maí 2018 klukkan 20:00 í húsakynnum FBSR að Flugvallarvegi.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Formaður setur fundinn og ber fram tillögu um fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Ársreikningur lagður fram til samþykktar
  4. Inntaka nýrra félaga.
  5. Hlé
  6. Lagabreytingatillögur ræddar og bornar undir atkvæði
  7. Kosning stjórnar
  8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  9. Kosning tveggja í uppstillingarnefnd
  10. Önnur mál

Í hléi býður Kvennadeild FBSR upp á kaffiveitingar og kosta þær 2.000 kr. Greiða þarf fyrir með peningum.

 

Breytingartillögur á lögum Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík

Frá Eysteini Hjálmarssyni barst eftirfarandi breytingartillaga:

Lagt er til að eftirfarandi texti í 10. grein verði felldur úr lögum sveitarinnar:

Sjái félagi sér ekki fært að mæta á aðalfund getur hann gefið öðrum félaga umboð til að fara með atkvæði sitt á fundinum, þó getur einn maður aldrei farið með fleiri en tvö atkvæði þ.e. sitt eigið og eitt samkvæmt umboði. Umboðið skal vera skriflegt og undirritað af tveimur vottum.

 

Frá Birni Jóhanni Gunnarssyni barst eftirfarandi breytingartillaga:

Lagt er til að eftirfarandi texti verði bætt við 12. grein:

Til að geta boðið sig fram í stjórn FBSR þarf viðkomandi að hafa verið fullgildur meðlimur FBSR í hið minnsta 1 ár og á þeim tíma tekið þátt í starfi sveitarinnar til að öðlast þekkingu á starfi FBSR

 

Við hvetjum félaga til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.

Stjórnin.