Nýliðastarfið hefst nú í vikunni og verður fyrsti göngutúr 31. ágúst / 1. sept. (val um dag). Fyrsta eiginlega námskeið hefst mánudagskvöldið 5. sept. Ef þú vilt vera með eða hefur spurningar um nýliðastarfið, hafðu þá samband við nýliðaþjálfarana með því að senda póst á nylidar2022<hjá>fbsr.is
Kynningar á nýliðastarfi FBSR
Kynning á nýliðastarfi FBSR verður haldin 29. ágúst kl. 20 og endurtekin 30. ágúst kl. 20. Kynningin verður í höfuðstöðvum FBSR að Flugvallarvegi 7. Nánari upplýsingar eru á facebook síðu sveitarinnar.
Upplýsingar um nýliðastarfið má einnig finna hér
Aðalfundur FBSR
Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verður haldinn mánudaginn 30. maí á Flugvallarveginum og hefst hann kl. 20:00.
Kvennadeildin sér um bakkelsið.
Að loknum aðalfundi verður til sýnis Ford F150, sem er langt kominn í breytingum fyrir FBSR.
Dagskrá aðalfundar sbr. lög FBSR.
- Formaður setur fundinn, en fundurinn kýs sér fundarstjóra og fundarritara.
- Skýrsla stjórnar.
- Ársreikningur lagður fram til samþykktar.
- Inntaka nýrra félaga.
- Lagabreytingar.
- Tillögur sem borist hafa kynntar og bornar undir atkvæði.
- Kosning stjórnar.
- Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
- Kosning tveggja í uppstillingarnefnd.
- Önnur mál.
Spurt og svarað um nýliðaþjáflun 2022-24
Flugeldasölu Flugbjörgunarsveitarinnar 2020 lokið
Flugbjörgunarsveitin þakkar kærlega fyrir stuðninginn!
Vefverslun með flugelda var opin frá 20. desember og var hægt að sækja á sölustaði í Mjódd og á Flugvallarvegi frá og með 28. desember.
Flugeldasala Flugbjörgunarsveitarinnar 2020 fór fram 28. desember – 31. desember.
Sölustaðir voru á Flugvallarvegi 7, við Kringlu, í Mjódd og í Norðlingaholti.
Jólatrjáasölu Flugbjörgunarsveitarinnar 2020 lokið
Jólatrjáasala Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík (FBSR) lauk 21. desember eftir að jólatré seldust upp. Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn!
Ágrip úr sögu FBSR
Í tilefni af 70 ára afmæli Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík hafa nú verið birt nokkur söguágrip hér á vefsíðunni. Auk þess að fara í gegnum söguna eru ágrip um frumkvöðlastarf í fjarskiptum og sagt frá fyrsta leitarhundi landsins, sem var í eigu FBSR. Þá er þar yfirlit yfir húsnæðissögu sveitarinnar, starf Kvennadeildar FBS og tekin staðan á árinu 2020.
Hægt er nálgast söguyfirlitin í valmyndinni undir „FBSR í 70 ár“.
Flugbjörgunarsveitin Reykjavík 70 ára
Í dag fagnar Flugbjörgunarsveitin Reykjavík 70 ára afmæli sínu, en á þessum degi árið 1950 kom hópur manna saman í kjölfar Geysis slyssins og ákvað að stofna félag sem hefði það að markmið „fyrst og fremst að aðstoða við björgun manna úr flugslysum og leita að flugvélum sem týnst hafa. Í öðru lagi að hjálpa þegar aðstoðar er beðið og talið er að sérþekking og tæki félagsins geti komið að gagni.“
Í dag koma á bilinu 200-300 manns að starfi sveitarinnar á ári hverju, bæði við æfingar, útköll og fjáraflanir. Í tilefni þess verðum við með afmælisstreymi á Facebook síðu sveitarinnar þar sem við lítum aðeins um öxl og förum yfir söguna og heyrum í félögum.
Neyðarkall 2020
Neyðarkall björgunarsveitana er að öllu jöfnu seldur í upphafi nóvember ár hvert. Vegna sóttvarna var sölu litla neyðarkallsins 2020 (lyklakippan) frestað fram. Mun salan fara fram 4.-6. febrúar 2021.
Stóri kallinn var seldur fyrirtækjum í nóvember 2020.
Upphitunarprógram FBSR
Eins og fram kom í fjarkynningu um nýliðastarf FBSR fyrir nokkrum vikum var ákveðið að bíða með að hefja nýliðaþjálfunina formlega á meðan COVID-19 er kraumandi í samfélaginu og sóttvarnaraðgerðir síbreytilegar.
Þess í stað bjóðum við áhugasömum að fræðast, kynnast sveitinni og hita upp fyrir alvöru þjálfun á röð fjarfunda. Netprógramið er þannig fyrst og fremst hugsað sem upphitun fyrir verðandi nýliða en það nýtist þó einnig inngegnum félögum í FBSR, t.d. þeim sem hafa dottið út úr starfi og vilja koma aftur.
Þau Ragna Lára Ellertsdóttir, Hjalti Björnsson og Kristjana Ósk Birgisdóttir hafa umsjón með prógraminu en ýmsir gestir munu koma að fundunum sjálfum. Áætlað er að þeir verði á dagskrá annan hvern þriðjudag næstu vikur og mánuði.
Heildarskipulag prógramsins er ekki fullbúið en verið er að vinna með ýmsar hugmyndir, t.d kynningu á störfum flokka innan FBSR, grunnatriði rötunar (GPS og áttaviti) og jeppafræði, auk þess sem vel valdar hetjusögur félaga munu áreiðanlega fá sitt pláss.
Næsti fundur á þriðjudag 6. október
Á fyrsta fundi, þann 22. september sl., var farið í upprifjun og grunnatriði fyrir ferðamennsku. Sveinn Hákon Harðarson verður svo með næsta fund, þann 6. október nk., og ætlar hann þar að fara yfir hlutverk björgunarsveita og störf þeirra. Sjá Facebook viðburð.
Þegar hafa 30 manns skráð sig í prógramið og ennþá hægt að skrá sig hér. Þó flestum fundum verði deilt á opinni Facebook síðu sveitarinnar gætu einhverjir viðburðir orðið lokaðir og því er vissara að skrá sig á listann.