Nýliðar á fyrsta ári héldu á Esjuna síðustu helgi og fóru meðal annars um Laufskörð og upp á Hátind.
Meðfylgjandi er myndband frá ferðinni og leiðarlýsing frá Hauki Eggertssyni.
Við byrjuðum ferðina við Fossá í Hvalfirði og gengum upp eftir henni, inn Seljadal til móts við samnefnt eyðibýli hvar við tjölduðum um nóttina. Daginn eftir héldum við suður yfir hálsinn og ofan í Kjós við Vindáshlíð. Héldum stutta leitaræfingu í sumarbústaðarhverfinu í minni Svínadals áður en haldið var upp á Möðruvallaháls, og hann síðan genginn til suður um Höggin og upp á Trönu, þaðan upp á austasta (og hæsta) Móskarðshnúkinn og síðan niður hjá hjá Bláhnúki og tjaldað undir honum. Á sunnudag fórum við aftur upp hjá Bláhnúki og upp á hrygginn á milli 2. og 3. Móskarðshnúks (talið frá austri), vestur eftir hryggnum, yfir Laufaskörð og sem leið liggur upp á Hátind og þaðan niður í Grafardal, yfir Þverárkotsháls hvar FBSR 7 beið okkar við vaðið yfir Skarðsá.