Símon og Steinar á FBSR-5 í Nýliðaferð 4×4
Símon og ég skelltum okkur í nýliðaferð Ferðaklúbbsins 4×4 á splúnkunýja patrólnum, FBSR-5. Við vorum smá smeykir að fara í svona ferð á algjörlega óreyndum bíl, en þær áhyggjur voru óþarfar því bíllinn reyndist frábær. Það var ekkert út á hann að setja eftir þessa ferð.
Hópurinn hittist á ónefndri bensínstöð hér við bæjarmörkin, alls 11 bílar, allir sæmilega búnir, nokkrir 44" og nokkrir 38". Þaðan var keyrt inn í Hrauneyjar, þar sem þeir sem höfðu ekki jafn marga aukatanka og við þurftu að tanka, s.s. allir aðrir. Eftir ágætis hamborgara á línuna var haldið inn í Jökulheima. Færið var grjóthart, enda var bara grjót og einstaka klakaskafl í veginum alla leið inn í Jökulheima. Í Jökulheimum var gist í þeim tveimur ágætu skálum sem þar eru. Á laugardagsmorgni var ræs um átta og brottför á slaginu níu í gaddafrosti, tæpar tuttugu gráður ef ég man rétt og fóru bílar misauðveldlega í gang við þær aðstæður. Allir komust þó af stað og upp á jökul í leit að snjó. Færið var hart uppi á jökli og brunuðum við því áfram, þar til einn bíllinn varð eitthvað móður í kuldanum og missti allt afl. Bíllinn var því skilinn eftir en mannskapnum hent í annan bíl og brunað upp á Grímsfjall. Stoppið var ekki langt á Grímsfjalli, enda -29°C, allir röltu þó um og dáðust að útsýninu. Eftir Grímsfjall renndum við jeppunum niður austurhlíðina og í sveig niður á Grímsvötn að virða fyrir sér gíginn og 30 stiga frostið sem þar var. Ég held ég geti fullyrt það að enginn í hópnum hafi áður upplifað jafn mikinn kulda. Það merkilega var samt að vegna þess hve mikið blankalogn var þarna, var í góðu lagi að vera á peysunni einni (eða tveim, þrem). Frá Grímsfjalli var ekið beinustu leið upp á Þórðarhyrnu og brölt upp á hana á broddum eða í sporunum sem Símon hjó með brunamannaöxinni. Ég ætla nú ekki að reyna að lýsa útsýninu þaðan. Þaðan var ekið, með stuttri viðkomu hjá Pálsfjalli, heim í skála og dýrindis grill. Fólk lá svo á meltunni fram eftir kvöldi og spjallaði um dekk, smurolíur og drif.
Þetta var s.s. alveg ljómandi ferð í frábæru veðri, en engum snjó. Þ.e.a.s. ekki fyrr en við komum í bæinn. Í bænum var eins og margir kannast við ófært um allt og ófærðarútkall í gangi.
Takk fyrir ferðina,
Steinar Sig.
Hér eru svo nokkrar myndir