Leit að vélsleðamönnum á Langjökli

Aðfararnótt
föstudags 14. apríl var gerð víðtæk leit að tveimur vélsleðamönnum sem
höfðu ekki skilað sér úr ferð á Langjökul. Færið á jöklinum var slæmt
og voru því beltatæki kölluð til ásamt fleirum.

Rétt fyrir klukkan eitt að morgni föstudagsins 14. apríl barst
útkall frá Svæðisstjórn. Beðið var um að undanfarar gerðu sig klárir
til að fara í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Tveggja vélsleðamanna sem fóru
á Langjökul daginn áður var saknað. Þeir ætluðu að skila sér til baka á
milli kl. 18 og 19 en ekkert hafði til þeirra spurst.

Það fór svo að beiðnin um undanfara var afturkölluð en þess í stað
var beðið um beltatæki, enda færið á jöklinum erfitt. Þrír sleðar FBSR
voru þá staddir fyrir norðan og bjuggu áhafnir þeirra sig af stað á
þeim á meðan tveir sleðar sem voru í húsi í Reykjavík voru settir á
kerru. Tveggja manna bílaáhöfn ók með þá á FBSR-2 ásamt tveggja
manna sleðaáhöfn. Á sama tíma var snjóbíllinn okkar settur á pall
FBSR-7 og fór af stað ásamt fjögurra manna áhöfn. Öll þessi tæki og
áhafnir voru við leit um nóttina.

Auk þessa viðbúnaðar sem að framan er talið fóru tveir bílstjórar
FBSR á tankbíl Landhelgisgæslunnar með þyrlueldsneyti á svæðið.

Seinna um nóttina þótti ljóst að mennirnir væru ekki uppi á jöklinum
og voru þá gönguhópar sendir af stað. Þegar gönguhópur var að gera
sig kláran í húsi barst boð um að mennirnir hefðu fundist heilir á húfi
og leit því afturkölluð.

Skildu eftir svar