no images were found
Stuttu eftir vel heppnaða útsendingu um bakvarðasveit Landsbjargar í Ríkissjónvarpinu, þar sem starf björgunarsveitanna var kynnt frá fjölmörgum sjónarhornum, barst heildarútkall um leit að konu í Heydal við Mjóafjörð á Vestfjörðum. Héldu þá fjórir meðlimir sjúkra- og leitarsviðs FBSR vestur. Sviðstjóri leitarsviðs var staddur á Þingeyri þegar útkallið barst og gekk til liðs við hóp frá Björgunarsveitinni Dýra, sem starfar á Þingeyri. Þegar komið var vestur gengu þrír erlendir sumarstarfsmenn hjá ferðaþjónustunni í Heydal í lið með teyminu frá FBSR og stóðu sig með eindæmum vel. Fyrstu verkefni voru svæðisleit í rjóðurvöxnu fjallendi, sem gerði leitina afar seinfæra.
Fis sveit FBSR, mönnuð þeim Stefáni Má og Gylfa, fór í loftið frá Reykjavík kl. 14. Vegna skýjahulu þurfti að sæta sjónflugi og þræða eftir landslagi og skýjafari. Eftir komuna vestur um kl. 16 gjörleitaði fissveitin svæðin suður og vestur af Heydal úr lofti og við það var hægt að útiloka stóran hluta leitarsvæða. Eftir kvöldmat skipti fis hópur leitarsvæðum með Landhelgisgæslunni og björgunarmönnum var úthlutað nýjum leitarsvæðum. Liðsauki úr Reykjavík var á leiðinni, þar á meðal 4 leitarmenn frá FBSR.
no images were found
Seinna verkefni leitarteymis FBSR var að leita 1 km² svæði á hálendinu fyrir ofan Heydal. Mjög snemma fundust spor í snjóskafli sem gátu verið eftir þá týndu. Stuttu síðar flaug fis sveit FBSR yfir og í kjölfarið fundust önnur spor hærra á sama leitarsvæði. Teymið var sent á staðinn til frekari rannsókna. Gengið var í þéttri línu og við slíka yfirferð fundust mjög afgerandi drulluspor í svipaðri skóstærð og áður. Þar á eftir fann þyrla Landhelgisgæslunnar spor enn hærra í sömu sjónlínu. Seinna leitarteymi FBSR kom um tíuleitið og var lagt af stað á sitt leitarsvæði þegar tilkynning barst rétt fyrir miðnætti um að hin týnda hefði fundist heil á húfi. Konan fannst á hálendinu milli Mjóafjarðar og Skötufjarðar, í sömu sjónlínu og fótsporin sem teymi FBSR og fisið höfðu rannsakað. Mikil fagnaðarlæti brutust út meðal leitarmanna í kjölfar þessara ánægjulega frétta.
no images were found
Almennt séð gékk útkallið vel fyrir sig. Leitarsvæði voru afhent hratt og örugglega. Vel gekk að greiða úr verkefnum innbyrðis og þjálfa sjálfboðaliða til að auka yfirferð. Fis teymið náði miklum árangri vegna snjóþekju, sem gerði það að verkum að auðvelt var að sjá spor úr lofti. Hugsað var einstaklega vel um björgunarsveitarfólk í Heydal, heitur matur í boði margsinnis á dag og nýbakað brauð með áleggi. Kunnum við staðarhöldurum bestu þakkir fyrir. Alls tóku 14 félagar í Flugbjörgunarsveitinni þátt í útkallinu, 9 leitarmenn, 2 fisleitarmenn og einn hver í heimastjórn, landsstjórn og í rannsóknarvinnu.
Í svona leitarútköllum í dreifbýli langt frá heimastöðvum skiptir miklu máli að vera með góð kort og lipurð í notkun GPS tækja. Því ætlar leitarsvið FBSR að bjóða félagsmönnum upp á æfingu kl. 18 miðvikudagskvöldið 5. júní þar sem æfð verður tækni í svæðisleitarútköllum. Sérstök áhersla verður lögð á að þjálfa að setja hnit inn í GPS tæki og ganga eftir GPS hnitum. Allir eru velkomnir og fer skráning fram á D4H.org.
no images were found