Hrútsfjallstindar – 7 maí 2005

Þeir Halli Kristins (Hallgrímur Kristinsson) og Doddi dúfa (Þórður Bergsson) félagar í FBSR skelltu sér á Hrútsfjallstinda þann 7 maí 2005.  Hér er stutt myndasaga úr ferðinni.

Það eru örugglega engar ýkjur að segja að Hrútsfjallstindar í Öræfum skipa sér í röð mest krefjandi viðureigna sem fjallamenn geta fundið hér á Fróni. Ari Trausti og Pétur Þorleifsson lýsa þessu svæði ágætlega í bókinni Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind, en í þeirri ágætu bók segir m.a. "Allt um kring eru 1000-2000 m há kletta og jökulfjöll, mörg með vígalega falljökla í hlíðum og ísbrýnda hátinda. Hæðarmunur er eins og hæst gerist í Ölpunum og sums staðar í enn hærri fjöllum. En auðvitað er hæð yfir sjó vart í ökklahæð risanna í Andesfjöllum eða Himalaya."*

Myndir

Eftir þetta fór að kyngja niður snjó og aðstæður urðu mun erfiðari.  Eftir dágóða tilraun til að finna leiðina upp á hæstu nípu ákváðum við að snúa við um 100 – 150 metra frá toppnum.  Ekkert skyggni var á staðnum og eftir að ein “fjölbýlishúsasprungan” enn hafði gert tilraun til að gleypa okkur í einum bita ákváðum við að snúa við.  Höfðum við ætlað að fara niður Hafrafellsleiðina en sökum skorts á skyggni (semsagt skyggni “0”) töldum við útilokað að hitta á þá leið.  Því var ákveðið að fara sömu leið niður og við komum upp. Hér sjást myndir sem teknar voru af Halla að búa sig undir að síga niður einn af brattari hluta leiðarinnar og leggja tryggingar fyrir Dodda sem síðan klifraði á eftir. Skyggnið hafði batnað tímabundið þegar þarna niður var komið. Niðurleiðin gekk vonum framar þrátt fyrir að um 30 cm nýfallinn “sykursnjór” lá ofan á snjónum sem gerði allar tryggingar og klifur erfiðara.  Notuð var tryggingaaðferðin “niður-20-metra-og-snjóakkeri-og-niður-20-metra-og-snjóakkeri o.s.frv.” til að koma okkur niður.  Komið var að bílnum aftur kl. 23:00 um kvöldið, eftir 19 tíma ferð.

 

Ferðasaga: Hallgrímur Kristinsson
Myndir: Þórður Bergsson – afritun óheimil án leyfis!

* Heimild: Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson. "Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind" Mál og Menning, Reykjavík 2004

Skildu eftir svar