23. til 25. september
Þau voru öll á sama máli um að þetta hafi verið frábærlega vel heppnuð ferð. Gengið í sól og undir björtum himni leið sem í upphafi átti að vera öðruvísi, en svo reyndist kortið ekki gefa rétta mynd af landslaginu.
Að þessu sinni voru það Renni- Jón Þorgríms og Guðjón Örn sem skipulögðu haustferðina. Eftir nokkrar kortaflettingar var ákveðið var að ganga frá Landmannalaugum í Strútslaug á laugardegi, um 20 Km. leið, og á sunnudeginum niður í Strútsskála.
Komið var síðla kvölds í Landmannalaugar, tjaldað og slappað af í lauginni. Það kom á óvart hversu mikill snjór var kominn á hálendið þetta snemma að hausti, en það var þæfingsferð á Fjallabaksleið. Eftir morgunmat var lagt af stað kl. 9 á laugardagsmorguninn og Jökulgilið skoðað. Áin reyndist vera nokkuð vatnsmikil ennþá og því ekki kostur að ganga upp gilið. Því var farið upp á ásinn meðfram gilinu og inn á stíginn sem liggur þar yfir að Strút. Meiningin var að fara norður fyrir Torfajökul, en landslagið þar bauð ekki upp á mikla útúrdúra, eins og göngumenn komust að!
Eftir talsvert mikið brölt upp og niður lá leiðin upp á Torfajökul og gengið var með sporðinum yfir á Laugarháls og þaðan niður að Strútslaug. Þar á tjaldsvæðinu voru fyrir nokkur tjöld og reyndust þar vera fjölskyldufólk sem að mestu voru HSSR skátar á ferð á eigin vegum. Við tjölduðum hjá þeim og hvíldumst vel fram á morgun enda ekki löng leið framundan á sunnudeginum. Þá var rölt yfir að Strútsskála þar sem bílstjórarnir sóttu okkur um hádegisbil.
Eins og áður sagði þurfti talsvert að víkja út frá upphaflegri áætlun enda reyndist landslagið vera nokkuð öðruvísi en kortið gaf í fyrstu til kynna. Rauða strikið sýnir áætlunina eins og búið var að setja hana niður á korti en rauðu punktarnir eru GPS punktar sem Gaui tók á leiðinni. Eins og sjá má er það ekki alveg sama leiðin. Reyndar var ákveðið í upphafi ferðar að fara niður í Strútsskála í lok leiðar í stað þess að fara niður með Hólmsárlóni og að Brytalækjum.