Flugbjörgunarsveitin hefur undanfarin ár tekið þátt í hálendisvakt Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og í ár er engin undanteking þar á. Ákveðið var að taka að sér eina viku að Fjallabaki, eins og hefð er orðin fyrir, en auk þess var bætt við viku í Dreka, norðan Vatnajökuls.
Aðalatriðið á hálendisvaktinni er að vekja athygli á öruggri ferðahegðun og þeim sérstöku aðstæðum sem eru á hálendi Íslands. Þá eru hóparnir oft fyrsta viðbragð bæði í minni sem stærri atvikum sem geta komið upp á svæðunum.
Fyrri hópurinn fór 26. júlí inn í Landmannalaugar og stóð vaktina þar í eina viku. Nóg var að gera hjá hópnum, allt frá björgunaraðgerðum í ám yfir í allskonar sjúkraverkefni, tilkynningar um utanvegaakstur, aðstoð við ferðamenn og allskonar bílaaðstoð. Í heildina voru skráð atvik rúmlega 30 talsins og smærri mál yfir hundrað.
Í gær lagði svo seinni hópurinn af stað norður yfir heiðar áleiðis í Dreka. Farið var á þremur bílum og verða um 10 manns frá sveitinni á svæðinu næstu vikuna.