Fyrsta hjálp hjá B1 á Laugarvatni

12191695_10153797493738939_7011999308505258139_n

Síðustu helgina í október skunduðu fjórtán nýliðar á Laugarvatn til að taka þátt í Fyrstu hjálp I. Helgin samanstóð af fyrirlestrum, verklegri kennslu og æfingum í og við húsnæði Menntaskólans. Kennslan gekk vonum framar og óhætt að segja að allir hafi staðið sig vel í þáttöku og námi. Að vanda var haldin stór sjúkraæfing á laugardagskvöld og sönnuðu nýliðarnir ágæti sitt við björgunarstörfin meðan aðrir áttu leiksigur í hlutverki sjúklinga. Mötuneytið framreiddi ágætis kræsingar fyrir okkur í flest mál og gist var í kennslustofum.  Veðrið lék við okkur alla helgina og því voru margar æfingar haldnar undir berum himni.

Það er ánægjulegt að segja frá því að alls komu tólf inngengnir að helginni og færum við þeim bestu þakkir fyrir þáttökuna. Allt gekk að óskum þrátt fyrir „umferðaróhapp“ þristsins sem „keyrði út af“ á heimleið með tilheyrandi „stórtjóni“ á þremur leiðbeinendum, svo „kalla þurfti þyrlu“ til. En snör handtök nýliðanna sýndu að margt höfðu þau lært þessa helgi; með þríhyrningana á kristaltæru sem og að meta lífsmörk, hlúa að áverkum, koma sjúklingi fyrir á börum og veita andlegan stuðning. Svo leiðbeinendurnir hresstust furðu fljótt og haldið var áfram heim á leið eftir vel heppnaða helgi og góða stemningu í hópnum.
12189990_10153797493148939_7318204497702479929_n