FLUGMAÐUR Á GEYSI KEYPTI FYRSTA NEYÐARKALLINN

Dagfinnur Stefánsson, sem var flugmaður á Geysi er fórst á Bárðarbungu árið 1950, keypti fyrsta Neyðarkall björgunarsveita í dag og með því hófst formlega þessi árlega fjáröflun björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Dagfinnur sagði við þetta tækifæri að björgunarmenn þeir eru fyrstir komu að flugvélinni á Bárðarbungu hafi skilað sínu hlutverki vel en ljóst sé að björgunarsveitir í dag séu mun betur í stakk búnar til að takast á við stór verkefni, eins og fluglys eða náttúruhamfarir.

Magnús Hallgrímsson og Guttormur Þórarinsson sáu um sölu Neyðarkallsins til Dagfinns en Magnús er einn af stofnendum Flugbjörgunarsveitarinnar á Akureyri sem var ein af fjölmörgum sveitum er stofnaðar voru í kjölfar Geysisslyssins og faðir Guttorms var í fyrsta björgunarhópnum sem kom að flakinu.

Sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar munu selja Neyðarkall um land allt um helgina. Verða þeir við verslanir, verslanamiðstöðvar, útsölustaði ÁTVR og víðar. Einnig verður á sumum stöðum gengið í hús.

Sala Neyðarkalls er með stærstu fjáröflunum björgunarsveita og afar mikilvæg fyrir starfsemi þeirra, ekki síst í ár en sjaldan hafa björgunarsveitir landsins tekist á við jafn stór og viðamikil verkefni. Er þar skemmst að minnast ferðar Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar til Haiti í janúar og umfangsmiklar aðgerðir í kringum eldgos á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli.