Frá því að Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík var stofnuð árið 1950 hafa miklar breytingar bæði orðið á björgunarstarfi almennt og starfsemi sveitarinnar. Sveitin var stofnuð vegna þess að þörf var á sérhæfðri fjallabjörgunarsveit sem gat brugðist við flugslysum á hálendinu. Þó það sé enn eitt af grunnmarkmiðum sveitarinnar hefur umfang starfseminnar aukist mikið síðan þá og þá er sérhæfingin einnig orðin miklu meiri á fjölmörgum sviðum, líkt og almennt má sjá í björgunarstarfi hér á landi. Félögum hefur einnig fjölgað jafnt og þétt yfir áratugina, ekki síst á þessari öld.
Upphaflega voru flokkar í sveitinni kenndir við mismunandi bókstafi. Þannig voru starfandi A-flokkur, B-flokkur, C-flokkur o.s.frv. Þarna var ekki horft til þess að hver hópur væri sérstaklega sérhæfður í ákveðnum verkefnum, heldur voru þetta vinir og kunningjar sem mynduðu útkallskjarna í hverjum hóp og átti hver hópur að vera með góða almenna útkallsþekkingu. Þegar nýliðaþjálfun var sett af stað í fyrsta skiptið árið 1963 af Magnúsi Þórarinssyni hafði B-flokkurinn verið lagður niður og félagar þar dreifst á aðra flokka. Var þá ákveðið að notast við B-flokkaheitið fyrir nýliðana sem lögðu upp í tveggja ára þjálfun og kláruðu hana og gengu inn árið 1965.
Síðar meir urðu flokkarnir að sérhæfðum útkallsflokkum og er það skipulag í gildi í dag, enda í takt við starfsvenjur hjá Landsbjörg. Í dag starfa innan sveitarinnar 9 útkallsflokkar, en til viðbótar eru stuðningsflokkar, nýliðaflokkar, heimastjórn og hópar sem koma að stjórnun sveitarinnar og daglegum rekstri. Enn er þó notast við B-flokkaheitið yfir nýliðaflokkana, B1 og B2 eftir árum í þjálfun.
Nýjasti flokkurinn er endurvakinn snjóbílaflokkur, auk þess sem straumvatnsflokkur er frekar nýlega tilkominn. Undir leitarflokki hafa svo myndast sérhæfðari hópar nýlega; hundahópur og drónahópur.
Útkallsflokkar
- Bílaflokkur
- Björgunarflokkur
- Fallhlífaflokkur
- Fjallaflokkur (undanfarar)
- Leitarflokkur
- Hundahópur
- Drónahópur
- Sleðaflokkur
- Straumvatnsflokkur
- Snjóbílaflokkur
- RNSA hópur
Aðrir flokkar
- Nýliðar B1 og B2
- Sjúkraflokkur
- Heimastjórn
- Lávarðar
- Kvennadeild
- Hús og birgðasvið
Stjórnun
- Stjórn
- Framkvæmdaráð
Frá upphafi hafa gengið inn í sveitina á áttunda hundrað félagar. Af þeim eru virkir félagar, sem mæta í allavega eitt útkall á ári, á bilinu 110-150. Þegar horft er til fjölda þeirra sem koma eitthvað að starfi FBSR á hverju ári er sá fjöldi á milli 200 og 300. Af virkum og óvirkum félögum er meðalaldurinn rúmlega 48 ár. Þegar aðeins er horft til virkra félaga á starfsárinu 2019-2020 var meðalaldurinn 40,9 ár.
Nýliðaþjálfun FBSR er strangt tveggja ára prógramm þar sem nýliðar læra allt frá grundvallaratriðum ferðamennsku og rötunar yfir í sérhæfðari atriði eins og fjalla- og félagabjörgun, snjóflóðaleit og leitartækni. Í gegnum tíðina hefur mikil áhersla verið á að kenna fólki að bjarga sér í óbyggðum og þegar fólk gengur inn í sveitina er það jafnan komið með mikla reynslu af allskonar ferðamennsku, ekki síst að vetri til. Fyrir inngöngu þreyta nýliðar einskonar inngöngupróf í formi „Heljarhelgarinnar“ og er það flestum mikil lífsreynsla. Á aðalfundi á öðru ári eru nýir félagar svo teknir formlega inn í sveitina og hefja starf með útkallsflokkum.
Sveitin er að mestu rekin með sjálfsaflarfé og skipta þar þrjár fjáraflanir mestu máli. Það eru flugeldasala, neyðarkallasala og jólatrjáasala. Að auki leigir sveitin út hluta húsnæðisins og hefur Rannsóknarnefnd samgönguslysa verið þar í meira en áratug. Þá fær sveitin einnig styrki frá Landsbjörg, Reykjavíkurborg og ýmsum góðvinum sveitarinnar.