Ég bý í sveit, á sauðfé á beit
og sællegar kýr út á túni.
Sumarsól heit senn vermir nú reit
en samt má ég bíða eftir frúnni.
(Einbúinn – Magnús Eiríksson)
Loksins kom góð spá fyrir helgi í rauninni allt of góð vegna þess að það átti að vera HELLWEEKEND en sem "betur fer" var stjórnstöðvarbíllinn ekki kominn af verkstæðinu. Stefán hershöfðingi yfir B2 kom með þá hugmynd að fara uppí Tindfjöll og reyna við Tindinn. Að venju var lagt af stað klukkan"19:00" og stefnt á KFC á Selfossi (eitthvað finnst manni að pylsan sé orðin útundan)
Eftir að hópurinn hafði hesthúsað nokkrum skíthoppurum var brunað upp að efsta skála í Tindfjöllum. Kapteinn Sigurgeir fór með sína harðkjarna nagla í Tindfjallasel og þegar honum var boðið far eftir að hann kom upp Sneiðinginn afþakkaði hann það og sagði "Það skal ekki spyrjast út að mínir nillar geta ekki gengið" Færið var mjög gott fyrir utan smá klaka kafla neðst í Sneiðingnum. Svo var slegið upp tjöldum og bívökum.
Spottaséníin vöknuðu kl 04:00 en þau sem ætluðu að nýta sér góðmennsku þeirra og fara á Tindinn á eftir þeim vöknuðu kl 05:15. Veðrið var frááábæært og sóttist ferðin að Tindinum nokkuð vel, að vísu töfðust spottaséníin aðeins þar sem þau ákváðu að kanna snjóþekjuna og fyrir vikið þurftu þau aðeins að breyta leiðinni. Þetta kom ekki að sök og eins og alltaf þá er allur varinn góður. Þegar kom að því að hotta liðinu upp á Tindinn þá kom í ljós að ekki voru allir tilbúir til að leggja í hann. Þá tók undirritaður sig til og bauðst til að leiða ferð á Hornklofa, Ýmir, Ýmu, Saxa og Haka. Undir kvöld var orðið það hvasst að ekki var stætt í hlíðum Saxa og eftir að hafa klárað tröllin tvö var þetta látið gott heita og stefnan tekin á tjöldin.
Þegar við komum að tjöldunum sáum við að Kári hafði tekið sinn toll, eitt tjald orðið flatt og brotin súla í því. Um nóttina bætti heldur í vind og á tímabili bjóst undirritaður alllt eins við því að fjúka af stað, þvílíkt var rokið. Á sunnudeginum æfðu B2 ísaxarbremsu og leitartækni á meðan Sigurgeir og naglarnir hans toppuðu að ég held flest sem var hægt að topp þarna. Svo var farið í pizzu á Hvolsvelli og síðan í bæinn. Allir mjög ánægðir með þessa ferð og mætingin var með ólíkindum. 20 manns og þar af 10 inngengnir.
Texti: Matti Zig
Myndir: Ragna Ráðagóða