Greinasafn fyrir flokkinn: Útköll

Leit að pilti í Reykjavík

Leit hefur staðið yfir síðan kl. 21.00 á nýársdag að 19 ára gömlum pilti sem skilaði sér ekki heim af dansleik á Broadway.

Um 100 björgunarsveitarmenn hafa leitað piltsins í nótt, þar af þrír bílar og um 15 leitarmenn frá Flugbjörgunarsveitinni. Leitin er nú komin í aðra lotu og kom nýr mannskapur í birtingu í dag.

Seinast er vitað um ferðir Jakobs Hrafns Höskuldssonar um kl. 5:30 að morgni nýársdags við Broadway í Ármúla. Jakob er 188 cm á hæð, stuttklipptur, grannvaxinn og var klæddur í dökkar buxur, svarta hettupeysu og með svarta derhúfu. Þeir sem telja sig hafa orðið varir við ferðir Jakobs eru hvattir til að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000.

Óveðursútkall

Um klukkan 2 í nótt var pípt út F3-Grænn á Höfuðborgarsvæðinu vegna lægðar sem var að ganga yfir.  Verkefni höfðu verið að berast síðan um miðnætti en viðbúið var að veðrið færi versnandi og því allar sveitir settar í viðbragðsstöðu.  Rúmum hálftíma síðar var svo heildarútkall á höfuðborgarsvæðinu og sendur allar sveitir út menn.  Rétt eftir fimm var svo síðustu verkefnum lokið. 

Óveðursútkall

Að kvöldi mánudagsins 10. desember var sveitin kölluð út vegna óveðurs í Reykjavík.  Tveir bílar fóru úr húsi ásamt áhöfn og voru að frammá nótt.  Mikill fjöldi útkalla var í borginni og í nógu að snúast fyrir sveitirnar á svæðinu en yfir 50 manns voru í verkefnum á hverjum tíma.

Leit að spænskum ferðamanni að Fjallabaki

Víðtæk leit var gerð að spænskum manni sem hugðist ganga frá Hrafntinnuskerjum suður að Álftavatni en hafði ekki skilað sér þangað. Hann reyndist hafa gist á Kirkjubæjarklaustri.

Klukkan þrjú að morgni miðvikudagsins 3. ágúst barst útkall frá svæðisstjórn á svæði 1 vegna hjálparbeiðnar frá svæðisstjórn á svæði 17. Þar höfðu björgunarsveitir frá Hellu, Hvolsvelli og nágrenni, auk leitarhunda, verið við leit frá því kvöldinu áður að spænskum ferðamanni sem saknað var. Hann hafði gist í Hrafntinnuskerjum og var búinn að bóka pláss í skálanum við Álftavatn næstu nótt og í Emstrum þar næstu nótt. Þegar hann hafði ekki skilað sér í tíma að Álftavatni var farið að óttast um hann enda veðrið allt annað en ákjósanlegt til göngu, þoka, rigning og 4 stiga hiti. Frá Flugbjörgunarsveitinni fóru tveir bílar með 10 menn til leitar á svæðinu og tveir fulltrúar í svæðisstjórn.

Um 100 björgunarmenn auk þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-SIF voru að kemba svæðið frá Landmannalaugum að Álftavatni og á líklegum stöðum í grennd þegar maðurinn komst í leitirnar austur á Kirkjubæjarklaustri, en þar hafði hann gist þá um nóttina. Í ljós kom að í stað þess að halda áfram að Álftavatni hafði hann ákveðið að breyta ferðaáætlun en upplýsingar um það lágu ekki fyrir.

Leit var því afturkölluð laust upp úr hádegi en Flugbjörgunarsveitin fékk svo það verkefni á heimleiðinni að flytja eldsneytisbíl Landhelgisgæslunnar frá Hvolsvelli til Reykjavíkur.

Leit að skútu sem fékk á sig brotsjó

Bresk skúta sendi frá sér neyðarkall í gær þar sem hún hafði fengið á sig brotsjó og óttaðist áhöfnin að leki væri kominn að skútunni.

Vegna þessa var flugvél Landhelgisgæslunnar, TF SYN, kölluð út og fóru þrír aðilar Flugbjörgunarsveitarinnar með í útkíkk. Vel gekk að finna skútuna þar sem hún var stödd innan íslensku efnahagslögsögunnar djúpt suðaustur af landinu. Þrátt fyrir að bæði stýri og seglbúnaður hafi brotnað taldi þriggja manna áhöfn skútunnar að hún gæti gert við skemmdirnar til bráðabirgða og siglt henni áfram til Skotlands. Var því flugvél Landhelgisgæslunnar snúið við.