Greinasafn fyrir flokkinn: Útköll

Viðbragðsvaktir FBSR í sumar

Í sumar stóð FBSR tvær viðbragðsvaktir. Þá fyrri í Dreka, norðan Vatnajökuls og þá síðari í Skaftafelli. Um er að ræða samvinnuverkefni björgunarsveita á landinu, sem skipta með sér sumrinu. Vakt FBSR sinnti ýmisskonar aðstoð við ferðalanga en tíminn var einnig nýttur til æfinga og landkönnunar.

Meðal verkefna var aðhlynning eftir lítils háttar meiðsli, aðstoð vegna bilaðra bíla á afskekktum stöðum og vegalokun vegna óveðurs. Að auki var unnið að því með landvörðum að kanna og merkja leiðir og leiðbeina ferðalöngum.

Frítíminn var einnig vel nýttur til bæði æfinga og styttri skemmtiferða. Frá Dreka var gengið á Herðubreið og keyrt í Kverkfjöll, auk þess sem straumvatnsbúnaðurinn var prófaður og -tæknin æfð við fossinn Skínandi í Svartá.

Í Skaftafelli var svo gengið á Kristínartinda og farið inn í Núpsstaðaskóga, auk þess sem ísklifur og jöklaganga var æfð á nærliggjandi jöklum.

Þakkir til styrktaraðila

Sveitin leitar árlega til fyrirtækja í matvælaiðnaði til að fá matarstyrki fyrir vaktirnar. Þó ýmsir sjái sér ekki fært að styðja starfið með þessum hætti eru fjölmörg fyrirtæki sem betur fer aflögufær og sum hver hjálpa jafnvel til ár eftir ár. Fyrir það erum við afskaplega þakklát!

Við viljum því formlega þakka eftirtöldum aðilum kærlega fyrir veittan stuðning við að fæða þátttakendur í viðbragðsvöktum FBSR árið 2020:

  • Bæjarins Beztu Pylsur
  • Mjólkursamsalan
  • Ölgerðin
  • Myllan
  • Ó. Johnson og Kaaber
  • Kaupfélag Skagfirðinga (Vogabær)
  • Innnes
  • Grímur kokkur
  • Þykkvabæjar
  • Ásbjörn Ólafsson ehf.
  • Nesbú
  • Flúðasveppir
  • Vilko
  • Olifa
  • Kjarnafæði

Við viljum einnig nota tækifærið til að þakka Björgunarsveitinni Súlum og Björgunarsveitinni Kára fyrir afnot af aðstöðu þeirra á Akureyri og í Skaftafelli.

Hálendisvakt 2017 lokið

Í ágúst kláraði 14 manna hópur frá FBSR hálendisvakt þetta árið, en alls voru 13 einstaklingar og 1 erlendur gestur, Andrew James Peacock, frá fjallabjörgunarsveit Patterdale í norður Englandi og tveir bílar frá sveitinni á vaktinni í Nýjadal frá sunnudegi 13. ágúst og fram á aðfaranótt mánudags 21. ágúst þar sem þau fengu útkall eftir hádegi á sunnudegi fyrir heimferð sem dróst fram eftir degi. Nóg var við að vera, sjúkraverkefni, aðstoð við tilkynningar um utanvegaakstur, aðstoð við ferðamenn og allskonar bílaaðstoð. Í heildina voru skráð atvik 78 talsins og það er vel. Samstarf við landverði, skálaverði bæði í Nýjadal og Laugafelli, aðrar björgunarsveitir og lögreglu var til fyrirmyndar og þökkum við þeim vel fyrir.

Eftirtöldum fyrirtækjum er sérstaklega þakkaður stuðningurinn í sumar: Mjólkursamsalan, Grímur Kokkur, Kjarnafæði, Myllan, Ölgerðin, Nesbú og Íslensk Ameríska. Ykkar góði stuðningur gerir okkur kleift að starfa sem sterkur hópur á hálendisvaktinni.

 

Leit um helgina

Undanfarna daga hefur fjöldi félaga í Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu leitað Harðar Björnssonar sem hefur verið saknað síðan aðfararnætur 14. októbers. Því miður hefur sú leit ekki enn skilað árangri.

Á vegum FBSR hefur fjöldi manns leitað, en á laugardag voru vel á fjórða tug félaga FBSR að störfum og í dag voru þeir um 20. Auk leitarhópa á landi undanfarna daga hefur FBSR notið aðstoðar félaga í Fisfélagi Reykjavíkur við leit úr lofti.

Verði fólk vart við Hörð eða telji sig hafa einhverjar upplýsingar sem kunna að leiða til þess að hann finnist er það beðið um að tilkynna það strax til 112.

Hjálpumst að við að leita að Herði

Leit að Herði Björnssyni, 25 ára, heldur áfram í dag en hans hefur verið leitað undanfarna eina og hálfa viku. Í dag mun mikill fjöldi björgunarsveitamanna Slysavarnarfélagsins Landsbjargar leita Harðar á höfuðborgarsvæðinu og óskum við eftir því að íbúar á svæðinu leggi okkur lið við leitina. Sérstaklega óskum við þess að fólk leiti í görðum sínum og nær umhverfi, en einnig þeim svæðum sem þeim finnst koma til greina. Ef fólk verður Harðar vart er það beðið um að tilkynna það strax í 112.

Hörður er 188 cm á hæð, grannur, ljóshærður og með rautt skegg. Síðast er vitað um ferðir hans á Laugarásvegi í Reykjavík um kl. 04:00 þann 14. október sl. Hörður er ekki talinn hættulegur.

 

Hörður

Snjóflóð í Vífilsfelli

Alls 26 félagar í FBSR mættu í útkall vegna snjóflóðs í hlíðum Vífilsfells í gærkvöldi. Fyrsti bíll fór úr húsi 6 mínútum eftir að útkall barst og voru 14 manns lagðir af stað í útkallið áður en afturköllun var send út stuttu seinna. Sem betur fer reyndist snjóflóðið gamalt og var því aðstoð afturkölluð um 30 mínútum síðar.

Óveðursútkall

Tuttugu og fimm manns á fimm bílum Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík tóku þátt í aðgerðum vegna óveðurs sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið í dag, þar af þrír í húsi og einn í landsstjórn. Fjölbreytt verkefni voru leyst þar sem ýmislegt gekk á og voru tveir bílar sveitarinnar laskaðir í lok dags, brotin rúða og skökk hurð.

mynd2

Óveðursútköll

Í gær fóru tveir hópar frá FBSR að sinna óveðursútköllum í borginni. Voru það þeir Maggi Ægir, Maggi Viðar, Björn Víkingur, Tómas, Þráinn og Ottó. Sinntu hóparnir sex útköllum, en meðal annars þurfi að festa niður klæðningu, þakkant og aðstoða þegar vinnupallur hafði fokið.

Mynd0931

Útkall vegna óveðurs í Reykjavík

Hópur frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík tók þátt í að aðstoða íbúa höfuðborgarsvæðisins í gær vegna veður, en sent var út heildarútkall. Þeir Viktor, Sveinn Hákon, Arnar S, David K og Stefán Már mættu og fengu meðal annars það verkefni að koma lausum plötum af vinnupalli við hátt hús í skjól. Þá var Þráinn í heimastjórn.

Útkallið var svo afturkallað fljótlega eftir sjö, en veðurofsinn var nokkru minni en búist hafði verið við.

 

Leit í Heydal á Vestfjörðum

no images were found

Stuttu eftir vel heppnaða útsendingu um bakvarðasveit Landsbjargar í Ríkissjónvarpinu, þar sem starf björgunarsveitanna var kynnt frá fjölmörgum sjónarhornum, barst heildarútkall um leit að konu í Heydal við Mjóafjörð á Vestfjörðum. Héldu þá fjórir meðlimir sjúkra- og leitarsviðs FBSR vestur. Sviðstjóri leitarsviðs var staddur á Þingeyri þegar útkallið barst og gekk til liðs við hóp frá Björgunarsveitinni Dýra, sem starfar á Þingeyri. Þegar komið var vestur gengu þrír erlendir sumarstarfsmenn hjá ferðaþjónustunni í Heydal í lið með teyminu frá FBSR og stóðu sig með eindæmum vel. Fyrstu verkefni voru svæðisleit í rjóðurvöxnu fjallendi, sem gerði leitina afar seinfæra.

Fis sveit FBSR, mönnuð þeim Stefáni Má og Gylfa, fór í loftið frá Reykjavík kl. 14. Vegna skýjahulu þurfti að sæta sjónflugi og þræða eftir landslagi og skýjafari. Eftir komuna vestur um kl. 16 gjörleitaði fissveitin svæðin suður og vestur af Heydal úr lofti og við það var hægt að útiloka stóran hluta leitarsvæða. Eftir kvöldmat skipti fis hópur leitarsvæðum með Landhelgisgæslunni og björgunarmönnum var úthlutað nýjum leitarsvæðum. Liðsauki úr Reykjavík var á leiðinni, þar á meðal 4 leitarmenn frá FBSR. Halda áfram að lesa

Útkall vegna ófærðar á höfuðborgarsvæðinu

aFlugbjörgunarsveitin tók þátt í að aðstoða íbúa höfuðborgarsvæðisins í óveðrinu sem gekk yfir í gær. Björgunarmenn sveitarinnar sinntu hinum ýmsu verkefnum þar á meðal að losa fasta bíla og festa niður lausar þakplötur. Aðstæður voru á köflum mjög erfiðar. Á Kjalarnesi fóru hviðurnar á tímabili í 35 m/s og varla sást fram fyrir húddið á bílnum. Brugðið var á það ráð að láta björgunarmann ganga í kantinum með bílnum svo bílstjórinn áttaði sig á því hvar hann var staddur miðað við veginn. Dagurinn gekk að flestu leyti nokkuð vel, vegfarendur voru skilningsríkir og samstarf við Lögreglu, Vegagerðina og aðrar björgunarsveitir mjög gott.