Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Annasöm helgi

Um helgina voru tvenn námskeið auk vinnustofu og útkalls svo segja má að helgin hafi sannanlega verið annasöm fyrir félaga sveitarinnar. 

B1 fór uppí Tindfjöll að taka verklega þáttinn í rötun undir leiðsögn Arnaldar og þjálfaragengisins hans Matta.  Þá var B2 var á Þingvöllum og í Stardal við æfingar í fjallabjörgun með Kristjáni, Stefáni og fleiri góðum.  Voru báðir hóparnir gegnblautir eftir helgina en flestir ef ekki allir sammála um að mikið hefði safnast í reynslu og þekkingarbankann.

Þá voru fjallahópur ásamt vélsleðamönnum á vinnustofu í sprungubjörgun á Langjökli sem skipulögð var af björgunarskólanum.

Leit í Reykjavík

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út til leitar að stúlku í Reykjavík sem saknað hefur verið síðan um miðjan dag.

9 félagar úr FBSR tóku þátt í leitinni, þar af tveir í svæðisstjórn.

Mikið annað er í gangi hjá sveitinni um helgina. Nýliðar úr B1 eru í rötun í Tindfjöllum, B2 stúdera fjallabjörgun og Rigging for Rescue tækni á Þingvöllum og nokkrir félagar af fjallasviði og beltasviði voru við æfingar við sprungubjörgun á Langjökli í dag.

Björgun 2010

Þann 22. – 24. október n.k. verður ráðstefnan Björgun 2010 haldin á Grand Hóteli í Reykjavík.

Björgun er nú haldin í 11. skiptið og að þessu sinni verða tæplega 60 fyrirlestrar í boði, fluttir af innlendum sem erlendum sérfræðingum og þegar hefur fjöldi erlendra gesta boðað komu sína. Allir fyrirlestrar sem fluttir verða á ensku verða túlkaðir á íslensku.

Dagana fyrir ráðstefnuna verða einnig tvær sérhæfðar ráðstefnur; Verkfræði, jarðskjálftar, rústabjörgun og Almannavarnir sveitarfélaga. Einnig verða námskeið í notkun jeppa og beltatækja í leit og björgun.

Eftir opnunarfyrirlesturinn, sem fjallar um ferð Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar til Haiti, verður nýr stjórnstöðvarbíll svæðisstjórnar á svæði 1 vígður og munu gestir ráðstefnunnar geta skoðað hann alla helgina.

Eftir að formlegum fyrirlestrum lýkur á föstudag verður sýnd ný sjónvarpsmynd, sem SagaFilm hefur gert fyrir alþjóðlegan markað, um ferð ÍA til Haiti.

Á laugardeginum verður sýning á björgunartækjum og búnaði sem nýst getur viðbragðsaðlilum við störf þeirra. Sýnendur eru fjölmargir, íslenskir sem erlendir.

Á laugardagskvöldið verður hátíðarkvöldverður í Lava, veitingastað Bláa lónsins.

Allir sem fylgjast með björgunarmálum á Íslandi ættu að mæta á ráðstefnuna því af henni má hafa bæði gagn og gaman.

Verðið á ráðstefnuna er 10.000 kr. fyrir félagsmenn.

Verðið í hátíðarkvöldverðinn á Lava veitingastað í Bláa Lóninu er 8.500 kr. sem félagar þurfa að borga sjálfir.

Nánari upplýsingar um dagskránna, skráning og önnur atriði má finna á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar, www.landsbjorg.is

Afmælisæfingu lokið

Afmælisæfing FBSR Rauður Október fór fram í gær, laugardag, og tókst æfingin í alla staði alveg frábærlega. Það voru um 250 björgunarmenn, um 70 sjúklingar og um 100 æfingarstjórar, verkefnastjórar, póstastjórar og aðrir stjórar sem tóku þátt í æfingunni að ógleymdum konum úr Kvennadeild FBSR og Slysavarnadeild Kvenna í Reykjavík; þannig að hátt í 500 manns í heildina.

Undirbúningur fyrir æfinguna hefur staðið í um mánuð en síðastu tvær vikur hafa nær verið undirlagðar fyrir undirbúning þessarar æfingar. Aðalfjörið hófst síðan á föstudag þegar lagðar voru lokahendur á undirbúning allra verkefnanna, upp úr miðnætti mætti förðunarlið og hjúkrunarfólk í hús og hófst undirbúningur á sjúklingum en farða þurfti hátt í 70 sjúklinga. Kl. 6.00 byrjuðu björgunarhópar að tilkynna sig inn til æfingastjórnar tilbúnir í fjörið og hófst þá allt gamanið. Óhætt er að segja að allir hafi verið á fullu fram til um kl. 19.30 þegar síðustu menn voru að fara úr húsi FBSR. Verkefni sem hóparnir tókust á við vorum af öllum toga sem búast má við í björgunarstarfi, s.s. köfun, leit á sjó, leit á landi, hundar leituðu, hestar leituðu og báru börur með sjúkling í, fjallabjörgun, þyrlan tók þátt í æfingunni, fjórhjól, bílar og rústabjörgun. Kl. 16.00 var hætt að deila verkefnum á hópana og héldu þá allir í hús FBSR við Flugvallaveg þar sem tekið var hraustlega til matar, en boðið var uppá grillaða hamborgarar og viðeigandi meðlæti. Einnig bauðst öllum að skella sér í sund í boði ÍTR og FBSR.

Stjórn FBSR þakkar öllum þeim sem tóku þátt í æfingunni á einn eða annan hátt alveg kærlega fyrir alveg frábæran dag. Við megum öll vera alveg hrikalega stolt yfir því hversu vel tókst til!!!

kafarar1

kafarar2

Myndir: Guðjón B.

 

Rauður Október II

Þegar þetta er skrifað eru 66 klukkustundir þar til afmælisæfing Flugbjörgunarsveitarinnar, Rauði Október II hefst og undirbúningur á lokastigi. Alls hafa á fjórða hundrað þáttakendur boðað sig til leiks svo að ljóst er að yfir 500 björgunarmenn verða samankomnir á æfingunni næsta laugardag.
Upplýsingamöppum um æfinguna verður dreift til sveita á höfuðarborgarsvæðinu næstkomandi föstudag en aðrar sveitir fá þær afhentar við komu á laugardagsmorgun.
 

Annars er dagskráin 2.október sem hér segir;

  •  06:00 Æfing hefst, hópar með möppur tilkynna sig inn og fá verkefni. Hópar utan af landi mæta í hús FBSR, fá verkefni og möppur.17:00-20:00 Grillveisla í boði FBSR við hús sveitarinnar
  • 17:00-20.00 Sundlaugarferð í Laugardalslaugina í boði FBSR og ÍTR
  • 20:00 Dagskrá og æfingu lýkur formlega

Allar nánari upplýsingar fást hjá æfingastjóra, Jónasi Guðmundssyni í síma 897-1757.

Sjáumst kát og hress á Rauða Október II

Æfingastjórn

Rauður október II

Nú eru aðeins fjórir dag í eitt stærsta verkefni sem FBSR hefur staðið
fyrir í fjölda ára, afmælisæfinguna Rauði Október II en hún fer fram
næstkomandi laugardag. Alls hafa rúmlega 300 björgunarmenn tilkynnt um
þáttöku en auk þeirra eru um 100 sjúklingar og annað eins af flubbum við
umsjón æfingarinnar. Þeir flubbar sem ennþá eru verkefnalausir hafði samband við [email protected]!

Ferðasaga – Afmælisferð á Bárðarbungu 10.-12.september 2010

Eins og hvert mannsbarn veit, var Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík stofnuð stuttu eftir að Loftleiðavélin Geysir brotlenti á Bárðarbungu haustið 1950. Í tilefni af komandi stórafmæli sveitarinnar var ákveðið að halda í hópferð á söguslóðir. Hluti hópsins gekk á Bunguna og fer hér á eftir sagan af þeim leiðangri.

Göngufólki var skutlað inn að Svarthöfða í Vonarskarði með hjálp bílstjóra úr Kyndli og Kili á föstudagskvöldi, 10. september. Kjötsúpa og franskbrauð með hollum skammti af smjöri runnu ljúflega niður í eldhústjaldinu áður en haldið var í háttinn.

Við birtingu, um klukkan hálf sex á laugardagsmorgni spruttu göngumenn út úr tjöldum sínum – allir útsofnir og eldhressir. Tveimur klukkutímum síðar lögðu 23 Flubbar og 4 nýliðar, af stað upp Köldukvíslarjökul, í humátt á eftir fararstjóra sínum, Jóni Þorgrímssyni, og aðstoðarmönnum hans. Leiðin var greið, svolítill ís sem þó var stamur og því auðveldur til uppgöngu.
Göngumenn þurftu brátt að stikla og stökkva yfir minni sprungur og settu því á sig ísbrodda til að tryggja öryggi sitt. Eftir örfáa kílómetra fór að bera á hælsærum hjá mörgum í hópnum og var því stoppað og hælar plástraðir.

Haldið var áfram í yndislegu veðri, útsýni og góðu færi. Þegar komið var í um 1600 m hæð fór mannskapurinn í línur, enda jökullinn farinn að sýna sínar „dýpstu hliðar“. Þegar upp á sléttuna kom varð gangan heldur tilbreytingarlítil en áfram var haldið í leit að punkti sem sýndi
metrana yfir 2000. Þegar á hæsta punkt kom var lítið skyggni og nett snjókoma! Eftir stutt köku- og myndastopp
 var haldið niður og gekk það snurðulaust.

Á niðurleiðinni gengu menn fram á hræ af dýri en voru ósammála um hvers kyns dýr væri að ræða. Líklega var þetta hreindýrskálfur! Eftir um þrettán klukkustunda og 34 km göngu komu göngumenn sælir af jökli að bílunum sem biðu þeirra. Á meðan göngumennirnir tíndust inn í bílana, einn af öðrum, skyggði og í myrkrinu var haldið inn í Nýjadal þar sem beið lamb á diski og dash af súkkulaðiköku í eftirmat. Seint og síðar meir sofnuðu allir þreyttir og sælir og dreymdi klaka, sprungur og hljóðið í broddum. Göngumenn bíða nú spenntir eftir sjötugsafmælinu.

Takk fyrir okkur

Krunka og hjálpsömu nýliðarnir Sveinn og Védís

Starfsmaður óskast

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík leitar eftir áhugasömum einstakling sem gæti tekið að sér stöðu starfsmanns FBSR í tímabundið starf.

Starfið er í samstarfi við Vinnumálastofnun og því er nauðsynlegt að viðkomandi sé á atvinnuleysisskrá. Starfið er tímabundið til 6 mánaða og æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Nánari upplýsingar um skilmála Vinnumálastofnunar má finna á slóðinn www.vinnumalastofnun.is/vinnumarkadsurraedi/ataksverkefni-9gr/. Nánari upplýsingar um starfið veitir formaður – formadur(hja)fbsr.is

Umsóknarfrestur rennur út 30.september 2010.

Starfið felst meðal annars í:
Aðkomu að jólatrjáa- og flugeldasölu
Aðstoð við þjálfunarmál
Viðhald á húsnæði og bílum eftir þörfum og getu starfsmanns
Fjáraflanir
Ýmis skrifstofuvinna, s.s. útsending fréttabréfs, umsjón með heimasíðu.
Annað tilfallandi

Ekki er gerð sérstök krafa um menntun eða reynslu. Öllum umsóknum verður svarað.
Umsóknir ásamt ferilsskrá skal senda á formadur(hja)fbsr.is.