Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Páskaferð í boði B2

Eins og venja er sér B2 um að skipuleggja Páskaferð FBSR. Að þessu sinni er stefnan tekin á Skaftafell. Lagt verður af stað
að morgni fimmtudagsins 21. apríl  (Skírdag).  Líklega verður gist í
tjöldum í Skaftafelli en fólk getur auðvitað líka haft sína hentisemi með það.  

 

Dagskráin
verður samsett af styttri ferðum (oftast dagsferðum) út frá Skaftafelli
sem gerir fólki kleift að koma og fara eftir hentisemi og áhuga.  Athugið að staðsetning var sérstaklega valin svo að flubbar gætu komið með fjölskylduna með og allir fundið sér eitthvað við sitt hæfi.

Gróf dagskrá hefur verið sett saman til viðmiðunar en hún gæti breyst eftir áhuga, aðstæðum, veðri og fleiru.

Fimmtudagur (Skírdagur / Sumardagurinn fyrsti):
 – Þumall
 – Kristínartindar / Svartifoss

Föstudagur (Föstudagurinn langi):
 – Þumall (seinni dagur)
 – Hnappavellir
 – Gönguferð á Blátind

Laugardagur:
 – Ísklifur
 – Hnappavellir
 – Grill um kvöldið

Sunnudagur (Páskadagur):
 – Þverártindsegg (krefst smá aksturs)
 – Hnappavellir

Aðrir dagskrárliðir sem á eftir að finna tíma á (ræðst m.a. af áhuga):
 – (Fjalla-)skíðaferð a la Stefán gjaldkeri

Smá skýringar:

Þumall: Gengið inn í Morsárdal eftir að komið er í
Skaftafell á fimmtudegi.  Gist þar og farið daginn eftir á fjallið.
Þumall sjálfur er dálítið klettaklifur sem er samt ekki erfitt.  Ef
aðstæður eru erfiðar fyrir Þumal mætti fara á Miðfellstind í nágrenninu.  Gæti orðið mögnuð ferð ef vel tekst til.

Kristínartindar / Svartifoss: Ætti að henta flestum sem vilja taka því "rólega".

Hnappavellir: Klifur og kósýheit.

Ísklifur: Að öllum líkindum klifur í skriðjökli.

Þverártindsegg: Með flottari toppum / eggjum Íslands.  Myndir má sjá á: http://www.fjallafelagid.
is/
myndir/113

Blátindur: Ekki tæknilega erfitt en langur labbitúr ef
farið er fram og til baka á einum degi. Útsýnið er ótrúlegt á góðum
degi. Mynd segir meira en mörg orð:
https://picasaweb.google.com/
david.karna/
20100617NupstaAskogarSkaftafel
l#5505799955871843554

(Fjalla-)skíðaferð: Stefán gjaldkeri hefur hug á að
fara á skíðum upp á jökul (Hnappavallaleið á Rótarfellshnjúk). Það á
víst að vera hægt á gönguskíðum – niðurleiðin verður bara spennandi.
Óljóst hvaða dag þetta yrði en allavega ekki á fimmtudegi.

Þetta er alls ekki endanlegur listi yfir hvað verður gert svo ef þið lumið á góðum  hugmyndum endilega komið þeim á framfæri.

Til að geta gengið almennilega í skipulagningu þyrftum við að fá að vita
sirka hversu mörgum við megum eiga von á, bæði varðandi gistingu, pláss
í bílum og skipulagningu einstakra liða, við biðjum ykkur því að svara
eftirfarandi spurningum og koma svörum til okkar á [email protected].  Vinsamlegast svarið já, nei eða kannski:

– Hefur þú áhuga á að koma í páskaferð (ef einhverjir koma með ykkur vinsamlegast tilgreinið það)?
– Mundir þú koma á einkabíl?
– Mundir vera allan tímann (ef nei, vinsamlegast tilgreinið tíma)?
– Hefur þú áhuga á ferð á Þumal?
– Hefur þú áhuga á ísklifri?
– Hefur þú áhuga á ferð á Þverártindsegg?
– Hefur þú áhuga á skíðaferð?

Styrktarsamningur við Reykjavíkurborg

 

Föstudaginn 15. apríl síðastliðinn var undirritaður styrktarsamningur til 3ja ára milli
björgunarsveita í Reykjavík og Reykjavíkurborgar. Samningurinn hljóðar uppá 8 milljónir árlega til sveitanna og heildarupphæðin er 24 miljónir.  Aðilar að samningnum eru FBSR, HSSR, Ársæll og Kjölur. Myndin er tekið við undirritun samningsins. Á myndinni eru Stefán Þór gjaldkeri FBSR, Haukur formaður HSSR, Jón Gnarr borgarstjóra í Reykjavík, Borgþór formaður Ársæls og Birgir formaður Kjalar.

Nýafstaðin helgi í Hlíðarfjalli

Hlíðarfjall

Helgina 25. – 27. mars fóru nýliðahópar FBSR ásamt nokkrum inngengnum í hina árlegu skíðaskemmtiferð í Hlíðarfjall ofan Akureyrar. Í þetta sinn vorum við svo heppinn að fá einka rútubílstjóra, en Beggi keyrði okkur ásamt því að renna sér í brekkunum.
En það voru ánægðir nillar sem fengu að skemmta sér í frábæru færi í undurfögru brekkunum. Ekki var þetta þó allt leikur því nillarnir tóku smá snjóflóðaleitaræfingar. Heiða fór aðeins yfir hvernig ýlirinn virkar og hvernig leitað er með stönginni. Í kjölfarið var þeim skipt upp í 4 hópa þar sem þau skunduðu upp í brekkurnar á milli gönguskíðabrautarinnar og bjuggu til snjóflóð til að fela ýla og bakpoka í og leita með ýli og stöng. Þess má einnig geta að á laugardagsmorguninn lét vindurinn á sér kræla og fengu nillarnir því æfingu í að gera snjóveggi og huga að tjöldum svona rétt áður en haldið var í brekkurnar.
Líkt og fyrri ár þá var tjaldað við gönguskíðaskálann og fáum við gönguskíðaskálafólki seint þakkað fyrir gestristnina.
Takk fyrir okkur

 

Vel heppnuð vika

Í síðustu viku var mjög þétt og skemmtileg fyrirlestraröð þar sem félögum FBSR og annarra sveita gafst kostur á að hlusta á þrjá flotta fyrirlesara fjalla um spennandi efni.

Mætingin var mjög góð af inngengnum, nýliðum og félögum annarra sveita og þökkum við öllum áheyrendum svo og fyrirlesurum kærlega fyrir vel heppnaða viku.

 

Útkall í Hrafntinnusker

Laugardaginn 5. mars var FBSR kölluð út vegna vélsleðamanna sem týnst höfðu við Hrafntinnusker.

Á staðnum höfðum við fyrir tvo jeppa og tvo vélsleða sem voru þar á sleðaæfingnu Kyndils í Hvanngili en báðum hópum var snúið að útkallinu. Að auki voru tveir vélsleðar sendir úr bænum og skíðamenn gerðir klárir. Ekki kom þó til þess að skíðamenn yrðu sendir af stað þar sem veðrið bauð ekki uppá það.

Því miður brotnaði öxull á FBSR5 svo það teymi datt snemma úr skaftinu. Gert verður við það í vikunni svo bíllinn verði klár í að fylgja gönguhóp inní Landmannalaugar um næstu helgi.

Hvetjum við olíumaura sveitarinnar til þess að mæta á þriðjudag og hjálpast að við að koma öxlinum undir FBSR5.

Fyrirlestraröð

Í viðbót við fyrirlestra Jóns og Dagbjarts sem þegar hafa verið auglýstir fáum við Arnar Bergmann til okkar á fimmtdaginn. Höfum við því þrjá mjög skemmtilega fyrirlestra í næstu viku, nokkuð sem lýsa má sem mini-Björgun. Vikunni verður svo lokað með góðri ferð í Landmannalaugar.

Þriðjudaginn 8.mars kl 20:00

Jón Gauti Jónsson Flubbi og Fjallaleiðsögumaður segir frá slysi í Skessuhorni, aðdraganada þess, viðbrögðum hópsins, aðgerðum björgunarsveitamanna og fleira tengt þessum viðburði. Fróðlegur fyrirlestur fyrir alla Flubba.

Miðvikudaginn 9.mars kl 20:00

Dagbjartur KR Brynjarsson heldur fyrirlesturinn Samantekt á gögnum um hegðun týndra á Íslandi. Þetta verður í kjarnanum sami fyrirlestur og hann fór með á Björgun 22.- 24. október 2010.

Fimmtudagurinn 10.mars kl 20:00

Arnar Bergmann segir okkur frá notkun vélsleða í útköllum. Hvaða verkefni þeir leysa og hvernig tækin nýtast okkur í flutningi á fólki og búnaði. Hvernig umgöngumst við tækin og hvað þurfum við að hafa í huga sem farþegar á þeim.

Gönguskíðaferð í Landmannalaugar helgina 11-13 mars

Eftir góða viku í fyrirlestrum ætlum við að skella okkur saman á gönguskíði uppí Landmannalaugar. Skemmtileg ferð á svæði sem við þekkjum öll af góðu. Ef aðstæður leyfa munu vélsleðarnir mæta og við kynnumst því verklega hvernig er að vera farþegi hjá þeim.

 

Jeppaferð

FBSR – Jeppaferð 4.-6. Mars 2011 Bílahópur er að skipuleggja jeppaferð helgina 4.-6. mars. Það eru allir meðlimir sveitarinnar velkomnir í ferðina, B2 nýliðar mega koma með en inngengnir hafa forgang í sæti, og þeir sem eiga upphækkaða bíla á 38“ dekkjum eða stærra hvattir til að mæta á sínum bílum ef mögulegt er. Patrol jeppar sveitarinnar rúma 4-5 manns hvor og í svona jeppaferð væri best að hafa ekki fleirri en 4 í bíl, því er takmarkað sætapláss. Vonumst við því til að sjá einhverja einkabíla að auki til að fleirri geti komið með í ferðina. Ferð hefst á flugvallarvegi föstudaginn 4. mars. Það er ekki komið endanlegt ferðaplan eins og er. Davíð starfsmaður tekur við skráningum í ferðina, sendið skráningu á netfangið [email protected], takið fram nafn og einnig hvort viðkomandi óski eftir sæti eða ætli að koma á eigin bíl. Endilega skrá sig sem fyrst svo við vitum hve margir bílar færu, til að hægt sé að raða fólki í bíla og sjá hve margir komist með. Kveðja, Guðni Páll f.h. Bílasviðs

Leit að manni í Reykjavík

Þann 22.febrúar var Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík kölluð út vegna leitar að Alzheimersjúklingi frá hjúkrunarheimilinu Grund. Alls tóku hátt í 20 flubbar þátt í útkallinu. Maðurinn fannst heill á húfi u.þ.b. klukkutíma eftir að kallað var út.

Rýnifundur 2. febrúar

Næsta miðvikudag þann 2. Febrúar kl. 20.30  verður haldinn rýnifundur.  Fundurinn verður haldinn í húsnæði Bjsv. Kyndils.

Listi yfir aðgerðir sem verða teknar fyrir:

16.10.2010    Leit að stúlku í Breiðholti

9.11.2010      Leit í Reykjavík Leirvogur / Mosfellsbær

13.11.201      Leit að manni í Reykjavík

5.12.2010      Leit að eldri konu í Reykjavík

10.12.2010    Hættustig stórt Keflavík

17.12.2010    Rok í Mosó

7.1.2011        Óveðursaðstoð á höfuðborgarsvæðinu

14.1.2011      Leit að manni á Kjalarnesi ( nýja grunni)

16.1.2011      Fótbrotinn maður í Heiðarhorni

17.1.2011      Air France þota með veikan flugmann

22.1.2011      4 villtir á Sveifluhálsi v. Kleifarvatn

23.1.2011      Leit að konu í Helgafelli

27.1.2011      Þjóðverji týndur síðan í gær á Eyjafjallajökli

Sérhæfðu sprungubjörgunarbúnaður

Slysavarnafélagið Landsbjörg afhenti björgunarsveitum á svæði 1 sem reka undanfara sérhæfðan sprungubjörgunarbúnað.

Búnaðurinn var fjármagnaður með þeim styrkjum sem félagið fékk í tengslum við björgunina á Langjökli á síðasta ári. Búnaðurinn verður til taks til að senda með þyrlum LHG í útköll þegar óskað er eftir sérhæfðum fjalla- og sprungubjörgunarbúnaði. Búnaðurinn er ætlaður undanförum á svæði 1 til varðvörslu og notkunar.

Undanfararnir munu síðan sjá um að viðhalda honum og endurnýja eftir
þörfum. Búnaðurinn er einnig hugsaður fyrir aðrar einingar til notkunar á
slysstað og yrði hann þá sendur með þyrlu á staðinn.

Á myndinni má sjá Halldór Magnússon taka við búnaðnum fyrir hönd FBSR ásamt fulltrúum annarra sveita á höfuðborgarsvæðinu.