Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Ný stjórn

Aðaflundur FBSR var haldinn í gærkvöldi og urðu þar nokkrar breytingar á stjórn félagsins.

Ottó Eðvarð Guðjónsson tekur við af Elsu Gunnarsdóttur sem formaður sveitarinnar.
Þráinn Fannar Gunnarsson, Gunnar Atli Hafsteinsson og Arnar Már Bergmann koma nýjir inn í stjórn en út fara Stefán Þór Þórsson, Elsa S. Helgadóttir og Magnús Þór Karlsson.
Af fráfarandi stjórn sitja áfram þau Agnes Svansdóttir, Marteinn Sigurðsson og Jón Svavarsson.

Fráfarandi stjórnarmönnum og konum eru þökkuð störfin og nýrri stjórn óskað velfarnaðar í starfi.

Aðstoð á Kirkjubæjarklaustri

Í dag, 24. maí, er sveitin að störfum á Kirkjubæjarklaustri. Tveir hópar lögðu af stað í nótt til þess að aðstoða heimamenn eftir þörfum.

Uppfært:

Hópar frá Ársæli og Flugbjörgunarsveitinni eru að störfum á svæðinu við Kirkjubæjarklaustur, samtals þrír hópar af svæði 1 sem verða að störfum frammá kvöld en einnig eru þar hópar af fleiri svæðum. Einnig fer fjarskiptahópur úr Hafnarfjarðarsveitinni austur til að aðstoða við fjarskiptamál.

Varðandi framhaldið þá er mikil óvissa um verkefni næstu daga en við gerum ráð fyrir að fara aftur í lok vikunnar.

Útkall í Suðursveit

Í gærkvöld var hópur frá FBSR sem staddur var á Hnappavöllum um helgina kallaður út til að aðstoða sveitir í Suðursveit við að athuga ástand á bæjum í sveitinni. Luku þau verkefnum um fjögurleitið og lögðu þá af stað norður fyrir í átt til Reykjavíkur.

Nú um klukkan þrjú voru þau stödd á Egilsstöðum svo búast má við að þau verði komin til borgarinnar seinni hluta kvölds.

 

Eldgos í Grímsvötnum

Vélsleðamenn FBSR voru í gær fengnir til þess að aðstoða jarðvísindamenn til að komast nærri gosinu í Grímsvötnum. Lögðu þeir af stað í nótt og er búist við að þeir verði komnir að gosinu um hádegisbil 22.maí.

Uppfært: Ekki var fært á jökulinn á vélsleðum þar sem að færið er of hart og því ekki lagt af stað. Stefnt er að því að notast við snjóbíla þess í stað.

 

Klettaklifur á Hnappavöllum

B1 ætla að stefna á Hnappavelli um helgina(spáin er þurr) og dvelja
þar við klifur og spottaleikfimi. Farið verður á einkabílum(og
hugsanlega þristinum).
Lagt af stað klukkan 20:00 og komið í bæinn seinnipart sunnudags
Uppl. hjá Matta Skratta í síma 8932266.

 

Björgunarleikar á Hellu

Um síðustu helgi fóru fram Björgunarleikar Landsbjargar samhliða Landsþinginu á Hellu. Það er skemmst frá því að segja að FBSR var með lið á leikunum og lentum við í 5.sæti. Liðið skipuðu: Viktor, Hrafnhildur, Bjössi, Hlynur og Kári. Glæsilegt hjá þeim!

Landsþing á Hellu

Nú um helgina fór fram á Hellu 7. landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Nýr formaður er Hörður Már Harðarson sem er okkur að góðu kunnur af starfi sínu hjá HSG. Aðrir stjórnarmenn eru Smári Sigurðsson, Margrét Laxdal, Guðjón Guðmundsson, Eiður Ragnarsson, Gunnar Þorgeirsson, Hannes Frímann Sigurðsson, Jón Svanberg Hjartarson og Páll Ágúst Ásgeirsson. Jón Svavarsson, FBSR, hlaut ekki brautargengi að þessu sinni.

Sérstök ánægja var að sjá Fríði Birnu Stefánsdóttur kjörna sem félagslegan endurskoðanda en hún hefur ásamt sínum félögum í Slysavarnadeild Kvenna í Reykjavík unnið mikið og gott starf en þær aðstoðuðu okkur m.a. í afmælisæfingunni í fyrra.

Tveir félagar FBSR voru heiðraðir fyrir störf sín. Þeir eru Jón Gunnarsson, sem sat í stjórn sveitarinnar á árunum 1987 til 1991 og í stjórn SL og forvera þess frá 1991 til 2005, þar af formaður frá 2000, og Sigurður Harðarson sem manna helst má þakka fyrir fjarskiptagetuna í stjórnstöðvarbílnum FBSR1 auk þess sem hann hefur frá upphafi hannað og smíðað VHF endurvarpakerfi björgunarsveitanna. 

Myndir frá afhendingunnu eru fyrir neðan brotið.

Kristbjörn Óli Guðmundsson og Jón Gunnarsson ásamt fráfarandi formanni Sigurgeir Guðmundssyni


Jón Hermannson, Valur Haraldsson, Sigurður Harðarson og Sigurgeir Gunnarsson

Peysudagar

Peysudagur Slysavarnafélagsins Landsbjargar verður miðvikudaginn 11. maí.
Þetta er hugmynd sem kom upphaflega frá Hilmari skipstjóra Sæbjargarinnar. Allir sem eru í Slysavarnafélaginu Landsbjörg mæta í peysu merktri félaginu til vinnu þennan dag.

 

Vinnubúðir

Kæru félagar,

Fjallakofinn og Bill Crouse, sexfaldur Everest-fari og sölustjóri Black Diamond, bjóða í vinnubúðir í verslun
Fjallakofans að Laugavegi 11 föstudagskvöldið 29. Apríl kl. 20

Við hvetjum ykkur til að koma þessu á framfæri við alla þá sem að hafa áhuga á fjallabjörgun og fjallabúnaði.
Þetta er einstakt tækifæri til að hitta í eigin persónu einn mesta reynsluboltann á markaðnum