Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Fréttir af aðalfundi 2013

Miðvikudaginn 8. maí 2013 var aðalfundur FBSR haldinn í húsakynnum sveitarinnar að Flugvallarvegi. Á fundinum var tekinn inn fríður hópur 16 nýrra félaga, sem lokið hafa tveggja ára nýliðaþjálfun hjá sveitinni. Við óskum þeim innilega til hamingju og hlökkum til að starfa með þeim í framtíðinni.

no images were found

Á fundinum var kosið í 6 embætti stjórnar:

Jóhannes Ingi Kolbeinsson, formaður

Kristbjörg Pálsdóttir, meðstjórnandi til eins árs

Björn J. Gunnarsson, meðstjórnandi til tveggja ára

Þorsteinn Ásgrímsson Melén, meðstjórnandi til tveggja ára

Magnús Andrésson, varamaður 1

Þráinn Fannar Gunnarsson, varamaður 2

Auk ofangreindra situr Jón Svavarsson áfram sem meðstjórnandi til eins árs. Á fundinum voru endurskoðendur sveitarinnar einnig kosnir, þeir Sigurjón Hjartarson, Guðmundur Magnússon og Grétar Felixson (til vara).

Samþykkt var lagabreytingartillaga sem hækkar lágmarksaldur nýliða úr 17 í 18 ár þegar þjálfun hefst, en veita má undanþágu fylli viðkomandi 18 ár á árinu.

Fjölskyldujeppaferð FBSR 2013

Á kosningardaginn 27. apríl var farið í jeppaferð, með í för voru 6 einkabílar og patrolinn FBSR 5 frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Alls fylltu 24 manns og einn hundur þessi farartæki. Til stóð að keyra frá Reykjavík um kl. 09.00 og vera komin í Skálpanes um eða eftir hádegi, grilla kjöt og pulsur þar í grennd, leyfa börnunum að renna sér aðeins og leika í snjónum, keyra síðan í bæinn. Þetta var áætlunin í grófum dráttum en að sjálfsögðu stóðst hún engan vegin enda teldist þetta vart alvöru jeppaferð FBSR ef við hefðum haldið áætlun. 

Við keyrðum á Þingvelli og inn Kaldadal, þegar við vorum komin að snjólínu hleyptum við hóp af Ísak bílum framhjá okkur. Þar sem sumir voru byrjaðir að spóla var hleypt aðeins úr dekkjunum líka. Eftir skamma stund voru Ísak-jepparnir fyrir framan okkur fastir og við þurftum því að bíða. Þá settum við FBSR 5 í 8 pund en ekki leið á löngu áður en þurfti að spila nokkra bíla. Fórum svo niður í 4 pund og gekk ágætlega þó nokkurn spöl nema hvað ákveðin L200 var alltaf að grafa sig eitthvað niður.

Þegar við náðum loks í litla kofann við línuveginn á Kaldadal um þrjú leytið, var orðið heldur hvasst svo það var bara huggulegt að troðast þarna inn og allir mjög sáttir að fá eitthvað ofan í tómann magann. Þar voru valkostirnir um heimleið ræddir og ákveðið að fara á Geysi þar sem Sverrir og krakkarnir gætu fengið sér ís. Eftir síðasta brattann var pumpað í dekkin og Kjalvegurinn keyrður niður að Gullfossi en þegar komið var á Geysi var búið að loka sjoppunni. Þá skelltum við bara í hópmynd og héldum svo heim á leið. Það verður ekki sagt að veður og útsýni hafi leikið við okkur en sólin lét nú alveg sjá sig inná milli og við fengum heldur betur að spila bíla og sumir Candy Crush. Flott ferð og mannskapurinn kom ánægður heim!!!

no images were found

 

Texti og myndir: Salbjörg Guðjónsdóttir

no images were found

Aðalfundur FBSR 2013

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verður haldinn þann 8. maí 2013 kl. 20:00 í húsi sveitarinnar að Flugvallarvegi.

Dagskrá fundarins:
1.    Formaður setur fund.
2.    Kosning fundarstjóra og fundarritara
3.    Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
4.    Endurskoðaður rekstrar og efnahagsreikningur 2012, samþykktur af félagslega kjörnum endurskoðendum og umræður um hann.
5.    Inntaka nýrra félaga.
6.    Hlé – Kaffiveitingar á vegum kvennadeildarinnar, kr. 1.500 (í reiðufé)
7.    Kosning formanns (til eins árs).
8.    Kosning tveggja meðstjórnenda (árlega til tveggja ára).
8.a  Kosning meðstjórnanda til eins árs í stað fráfarandi stjórnarmanns
9.    Kosning tveggja varastjórnenda (til eins árs).
10.  Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.
11.  Tillaga að lagabreytingu, umræða og kosning
12.  Önnur mál

Lagabreytingatillaga hefur löglega borist stjórn og er svo hljóðandi:
„Við undirritaðir Marteinn Sigurðsson og Stefán Þórarinsson gerum það að tillögu okkar að 1. Lið í 3. Grein laga FBSR sem hljóðar svo „Að verða minnsta kosti 17 ára á því ári sem þjálfun byrjar“ verði breytt og mun hljóða svo „Að vera 19 ára þegar þjálfun hefst en undanþágu má gera hafi viðkomandi orðið 18 ára á árinu sem þjálfun hefst“.

Við hvetjum alla félaga til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.

FBSR á Sumarhátíð í Bústaðahverfi 2013

Sumardagurinn fyrsti var haldinn hátíðlegur í Víkinni eins og venja hefur verið. Byrjað var á grilli við Grímsbæ og síðan var haldið í skrúðgöngu að Bústaðakirkju. Eftir kirkju hófst svo dagskráin í Víkinni þar sem krakkarnir gátu skemmt sér í hoppukastala, farið í ratleik, fengið andlitsmálun og margt fleira skemmtilegt á meðan hljómsveitin Yellow Void og fleiri skemmtu með söngatriðum.

Gestir hátíðarinnar gátu einnig látið reyna á krafta sína með því að draga Patrol frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Nokkrir meðlimir FBSR höfðu útbúið doubblunina 9:1 og 5:1 þannig að lítil kríli gátu dregið jeppann fram og tilbaka. Krakkarnir fengu líka að kíkja inn í bílinn, skoða tæki og tól og svo var heilmikil ýlaleit í gangi á sama tíma. Sumardagurinn fyrsti bauð uppá snjókomu og sól þess á milli en ungir sem aldnir skemmtu sér og sáum við jafnvel efni í tilvonandi flubba.

no images were found

Texti og myndir: Salbjörg Guðjónsdóttir

Tröllaskaginn heimsóttur

Um páskahelgina héldu B2-liðar ásamt þremur inngengnum í ferð á Tröllaskaga. Skipulagið var á könnu nýliðahópsins, en slíkt hefur tíðkast með páskaferðir sveitarinnar. Á miðvikudagskvöldið var haldið í Skagafjörð og inn í Hjaltadal. Gist var í tjöldum nálægt bænum Reykjum í fínu veðri. Snjóskortur á láglendinu var þó örlítið áhyggjuefni en skipuleggjendur höfðu gert ráð fyrir aðeins meira snjómagni.

Fyrsta dagleið: Frá Reykjum í Hjaltadal að Tungahrygg

16,7 km, 9,5 kst með stoppum

Á skírdagsmorgni var svo haldið af stað eftir að ábúendur að Reykjum höfðu varað skíðagarpana við hestum sem hefðu tilhneigingu til að borða bíla og því væri fín hugmynd að koma þeim í öruggt skjól. Haldið var af stað inn Hjaltadalinn og fljótlega eftir að sólin knúði fram fatastopp, var haldið inn Héðinsdal til austurs. Þar byrjaði klifrið upp á við, en áður en dagurinn var á enda hafði hópurinn hækkað sig um rúmlega tólf hundruð metra. Þegar komið var í Héðinsskarð (1261 m) kom að erfiðasta hluta leiðarinnar, en það var að koma sér niður austanmegin niður á Barkárdalsjökul. Einhverjar fjallaskíðahetjur hefðu vafalaust kallað þetta æðislega brekku, en fyrir gönguskíðafólk sem ekki er með fastan hæl var um erfiða niðurferð að ræða. Frá Barkárdalsjökli var svo haldið upp að Hólamannaskarði (1210 m) og yfir á Tungnahryggsjökull vestari. Þar beið hópsins skálinn á Tungnahrygg þar sem gist var. Þó ákváðu þrjár öflugar stelpur úr hópnum að tjalda fyrir utan og gista þar. Gangan upp tók nokkuð vel í og var færi þungt á köflum.

Lagt var af stað frá bænum Reykjum í Hjaltadal

Halda áfram að lesa

Skíðaferð á Eyjafjallajökul

Þann 20. apríl (21. apríl til vara) fer FBSR í dagsferð á Eyjafjallajökul og stefnt er að því að toppa jökulinn úr norðvestri og suðri.

Skúli Magg mun fara fyrir hóp sem gengur  á skíðum upp Skerin, á Hámund, niður á Fimmvörðuháls og þaðan í Skóga. Fólki er frjálst að vera á gönguskíðum eða fjallaskíðum en skíðin þurfa helst að vera með skinn. Ef ekki þarf fólk að vera undir það búið að labba upp jökulinn með skíðin á bakinu.

Matti mun leiða gönguhóp upp klassísku leiðina eða frá Seljavöllum og niður aftur.

Skráning og frekar upplýsingar má finna á innra svæði D4H.

Framboð til stjórnar FBSR

Senn líður að aðalfundi Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík en gert er ráð fyrir að hann verði haldinn fyrri hluta maímánaðar. Á aðalfundi verður kosið í embætti formanns, tveggja meðstjórnenda og tveggja varamanna og er hér með auglýst eftir framboðum í þessi embætti. Öllum fullgildum félögum í FBSR er frjálst að gefa kost á sér til stjórnarstarfa. Tengiliður uppstillingarnefndar er Vilberg Sigurjónsson (vilberg.sigurjonsson <hjá> is.aga.com, sími 696 3305) og veitir hann framboðum móttöku og gefur frekari upplýsingar.

Páskaferð FBSR

Sú hefð hefur skapast að nýliðar í B2 skipuleggi páskaferð Flugbjörgunarsveitarinnar. Þetta árið verður haldið norður á Tungnahryggsjökul og gengið á skíðum í hinni stórbrotnu náttúru Tröllaskagans. Ferðin verður þriggja nátta og möguleiki á tveimur nóttum í skála fyrir þá sem fengið hafa nóg af tjaldlegu í vetur. Lagt verður af stað úr húsi FBSR kl. 19:00 miðvikudaginn 27. mars. Þann dag og næsta verður gengið upp á jökulinn. Á föstudeginum verður gengið á tinda í nágrenninu þar sem vonandi fæst útsýni yfir Tröllaskagann. Síðasta daginn verður síðan gengið niður Kolbeinsdal og keyrt í bæinn. Það er næsta víst að þetta verður epísk ferð sem enginn vill missa af enda umhverfið einstakt og félagsskapurinn góður. Skráning fer fram á D4H og frekari upplýsingar fást hjá Ilmi í síma 849 2692.

Á myndinni að ofan er horft yfir jökulinn, eftir Tröllamúrnum til Hólamannaskarðs.

B1 á Heiðinni háu

Helgina 21. – 23. september 2012 var farin fyrsta ferð í nýliðanna í B1. Fyrir ferðina höfðum við fengið fyrirlestra um hvernig við áttum klæða okkur, haga búnaði, hvað skynsamlegt nesti innihélt og hvernig átti að tala í talstöð. Talstöðvarnar voru það fyrsta til að koma mér á óvart, því það að tala í talstöðvar hljómar mjög einfalt en það reyndist hægara sagt en gert að muna hvað átti að segja og hvernig.  „FBSR æfingastjórn, FBSR hópur 2 kallar.“ Ofsalega einfalt en ofsalega auðvelt að klúðra uppi á fjalli í roki. Búnaðarfyrirlestrarnir voru auðveldari að meðtaka en þeim fylgdu líka verslunarferðir í allar útivistarbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu í leit að rétta jakkanum, rétta föðurlandinu og fullkomna matarílátinu.

Við mættum upp í hús FBSR á föstudagskvöldi klukkan 7 eins og venja er fyrir allar ferðir. Þá vorum við búin að skipta okkur niður á tjöld og tjaldfélagarnir búnir að ákveða innbyrðis hver kæmi með prímus og pott. Það var spenningur í hópnum þegar allir voru búnir að koma sér upp í bílana og lagt á stað stundvíslega klukkan átta. Halda áfram að lesa

Útkall vegna ófærðar á höfuðborgarsvæðinu

aFlugbjörgunarsveitin tók þátt í að aðstoða íbúa höfuðborgarsvæðisins í óveðrinu sem gekk yfir í gær. Björgunarmenn sveitarinnar sinntu hinum ýmsu verkefnum þar á meðal að losa fasta bíla og festa niður lausar þakplötur. Aðstæður voru á köflum mjög erfiðar. Á Kjalarnesi fóru hviðurnar á tímabili í 35 m/s og varla sást fram fyrir húddið á bílnum. Brugðið var á það ráð að láta björgunarmann ganga í kantinum með bílnum svo bílstjórinn áttaði sig á því hvar hann var staddur miðað við veginn. Dagurinn gekk að flestu leyti nokkuð vel, vegfarendur voru skilningsríkir og samstarf við Lögreglu, Vegagerðina og aðrar björgunarsveitir mjög gott.