Greinasafn fyrir flokkinn: Tilkynningar

Við leitum að nýju fólki

Hefur þú hugleitt að snjór geti verið eitthvað annað en það sem er fyrir manni í umferðinni? Gætir þú hugsað þér að stunda fjallamennsku, jeppamennsku, vélsleða eða jafnvel fallhlífastökk? Ert þú þessi týpa sem gætir hugsað þér að vera til taks þegar aðrir eru í neyð? Kannski áttu þá erindi til okkar!

Við leitum að nýju fólki sem er til í að takast á við þau ótrúlega fjölbreyttu og skemmtilegu verkefni sem björgunarsveitarfólk þarf að glíma við.

Kynningarfundir fyrir nýliða verða haldnir í húsi okkar við Flugvallarveg (sjá kort hér)  1. og 4. september kl. 20.

Ef þú getur ekki mætt á kynninguna þá getur þú alltaf sent póst á netfangið [email protected] og fengið þar allar upplýsingar.

Á þessari síðu getur þú lesið örlítið um nýliðastarfið og út á hvað það gengur. Við viljum samt eindregið hvetja fólk til að mæta á kynningarfundina til fá upplýsingarnar beint í æð og sjá með eigin augum hvað við erum að gera.

 

 

 

Föstudagurinn 22.ágúst!!

Föstudaginn 22. ágúst ætlum við að hittast niðri í húsi eftir vinnu eða um 5- leytið. Ætlunin er að taka til að þrífa inni og gera fínt í kringum húsið úti. Fólk mætir bara þegar það getur og auðvitað í vinnu gallanum 

Þar sem flestir, ef ekki allir, eru að fara að taka þátt í Glitnismaraþoninu morguninn eftir og styrkja þar með sveitina um leið ætlum við að peppa hvort annað upp eftir tiltektina. Við getum þá deilt Voltaren deap heat, B-vítamíni og reynslusögum af hlaupinu yfir gómsætum kolvetnaríkum pastarétt og Kristal sport. 

Eins og á aðra viðburði sveitarinnar er absolút skyldumæting!

Hjólaferð FBSR helgina 29. – 31.ágúst.

Hjólaferð FBSR verður farin helgina 29. – 31.ágúst. Á föstudagskvöld verður keyrt að skálanum við Sveinstind. Á laugardag verður hjólað um Blautulón meðfram Eldgjá og um jeppaslóða að Álftavötnum. Á sunnudeginum verður hjólað frá Álftavötnum um Strútslaug og endað við skálann Strút og þaðan verður haldið í bæinn.
Þessi ferð er jafnt fyrir inngengna sem nýliða og þarf fólk ekki að vera í brjáluðu hjólaformi þar sem að allur búnaður verður keyrður á milli.
Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á spjallsíðu FBSR.

Básagæsla

Það vantar 10 manns fyrir næstu helgi, Verslunarmannahelgina, í Bása.  Því fleiri sem eru þeim mun minna er að gera.
Endilega taka bara fjölskylduna með,  hún getur þá farið í göngutúr eða skemmt sér á meðan flubbinn sinnir sínu. 
Brottför á föstudag fer eftir hvenær fólk er laust úr vinnu og þess háttar.

Sendið póst á [email protected] til að tilkynna þátttöku.

kv. Stefán Þ.

Aðalfundur þriðjudaginn 27 maí kl. 20.00

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verður haldin þriðjudaginn 27 maí nk. kl 20:00.

Dagskrá aðalfundar:

1.      Formaður setur fundinn, en fundurinn kýs sér fundarstjóra og fundarritara.

2.      Stjórnin gefur skýrslu um störf frá liðnu starfsári og leggur fram til samþykktar endurskoðaðan rekstrar- og efnahagsreikning liðins árs af félagslega kjörnum endurskoðendum félagsins.

3.      Inntaka nýrra félaga.

4.      Hlé – Kaffiveitingar á vegum kvennadeildarinnar, kr. 1.000

5.      Kosinn formaður (til eins árs).

6.      Kosnir 2 meðstjórnendur (árlega til tveggja ára).

7.      Kosnir 2 varastjórnendur (til eins árs).

8.      Kosnir tveir endurskoðendur og einn til vara.

9.      Önnur mál.

Við hvetjum alla félaga til að koma á aðalfundinn á hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.

Tveir núverandi stjórnarmeðlimir sitja áfram í stjórn og mun því þurfa að kjósa um 2 nýja meðstjórnendur, tvo nýja varastjórnendur og formann.

Með kveðju,

Elsa Gunnarsdóttir

Ritari FBSR

24. maí; Flugdagur á Reykjavíkurflugvelli

Laugardaginn 24. maí verður flugsýning á Reykjavíkurflugvelli og sér FBSR um gæslu venju samkvæmt. 

15 manns þarf í gæsluna og er mæting klukkan 11 niðrá Flugvallarvegi. Gera má ráð fyrir að verkefninu ljúki um klukkan 19.  Skráning í gæsluna fer fram á spjallinu eða með því að hringja í Elsu eða Stefán í síma

Sleðakerru stolið frá HSSK

Hvítri tveggja sleða vélsleðakerru HSSK var stolið í gær eða um helgina þar sem hún stóð fyrir utan húsnæði sveitarinnar við Kópavogshöfn. Um er að ræða hvíta tveggja sleða sleðakerru frá Vögnum og þjónustu og er númerið LY-300. Grindin er galavaníseruð og er kerran með sturtu og yfirbyggingin er úr hvítu trefjaplasti. Stór merki HSSK eru aftaná kerrunni, en engar merkingar eru á hliðinni þar sem hún var að fara í merkingu. Ef einhver hefur upplýsingar um kerruna þá vinsamlega hafið samband við lögreglu höfuðborgarsvæðisins eða beint við formann sleðaflokks HSSK, Reyni, í síma 899-3132. Öll hjálp vel þegin.