Greinasafn fyrir flokkinn: Tilkynningar

Vetraræfingum lokið

Nú er lokið síðustu hlaupaæfingu vetrarins og einstaklingsmiðað sumarprógrammið að hefjast.  Það gengur þá útá það að hver og einn sér um sig en þó munu vafalaust einhverjir hittast og hlaupa frá Flugvallarveginum á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 18:15.

Björgunarleikar

Björgunarleikar verða haldnir samhliða landsþingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Akureyri þann 16. maí.

Leikarnir verða með keppnisfyrirkomulagi og munu byrja kl. 8 eða 9 á laugardagsmorgni. Gert er ráð fyrir að þeim ljúki um kl. 16. Verkefnin verða innanbæjar á Akureyri en gert er ráð fyrir að liðin þurfi að keyra á milli pósta. 6-7 eru í hverju liði og þurfa þau að hafa almennan björgunarbúnað með. Nákvæmari búnaðarlisti verður sendur út þegar nær dregur.

Skipulagning Björgunarleikanna er að þessu sinni í höndum Súlna, Björgunarsveitarinnar á Akureyri. Miðað er við að verkefnin verði sem fjölbreyttust og endurspegli þau verkefni sem björgunarsveitir eru að leysa í dag. Á föstudagskvöldinu fær hvert lið afhenta möppu með dagskrá liðsins fyrir leikana ásamt reglum, korti o.fl. Það er svo á ábyrgð hvers liðs að mæta á réttum tíma í hvert verkefni.

Verkefnin verða 6-7 og miðað við að liðin hafi um klukkustund fyrir hvert verkefni, með ferða- og undirbúningstíma. Hugsanleg verkefni eru: fyrsta hjálp, rötun, leit, björgun, línuvinna, óveðurs- og bátaverkefni.

Markmið Björgunarleikana er skemmtun, reynsla og lærdómur. Við öll verkefnin verða leiðbeinendur sem munu gæta öryggis og leiðbeina hópunum ef þeir lenda í vandræðum með lausn verkefnisins. Hóparnir þurfa því ekki að kunna allt.

Páskaferð FBSR – Ný ferðaáætlun

Sökum óvissu með snjóalög og bilana í jeppum ætlum við sem erum skráð í páskaferðina að varpa fram endurskipulagi á annars mjög vel skipulagðri páskaeggjagönguskíðaferð.

Vonumst við til þess að fleiri sjái sér fært að kíkja við einhverja daga og skemmta sér með okkur.

Ný ferðaáætlun er eftirfarandi…

 

Fimmtudagur 9.apríl
-Hittast á Flugvallarvegi klukkan 09, laus við allt stress.
-Munda brodda, ísaxir og línur í Gígjökli.
-Fara í Bása og grilla í liðinu.
-Gist í Básum.

Föstudagur 10.apríl
-Farið upp á Fimmvörðuháls með gönguskíði á bakinu.
-Haldið út á Mýrdalsjökul með gögnuskíði undir fótum.
-Hluti hóps gistir uppá jöklinum, hinn hópurinn fer aftur niður í Bása.

Laugardagur 11.apríl
-Haldið niður í Bása til að grilla meira í liðinu.

Sunnudagur 12.apríl
-Tungnakvíslarjökull skoðaður og fleiri ísaxarbardagar háðir.
-Hugað að heimferð.

Heyrst hefur að þessi endurskipulagnin hafi þegar lokkað að sér tvo úr B2 í einn dag. Vonumst til að fleiri sjái sér fært að mæta.

Tilkynnið þátttöku á innra netinu eða til Hauks í B2 – haukureg[hja]gmail.com

Páskaferðin

Senn fer að líða að páskaferðinni en aðaláætlunin er gönguskíðaferð austur af Holtavörðuheiði, yfir Arnarvatnheiði endilanga og yfir á Kjöl – plan A. Stefnt er á að leggja af stað á Skírdag og komið til baka á Páskadag. Miðað er við að gist sé allar nætur í eða við skála og kvöldverður sé sameiginlegur. 
Á heimasíðu B2 má sjá nánari lýsingu leiðinni og á varaáætlunum B, varavaraáætlun C og varavaravaraáætlun II – ef snjólaust yrði um allt land. Þar má einnig sjá umfjöllun um skála á leiðinni. http://sjalfhelda.net/b2evolution/index.php/all/2009/03/15/paskafere_atkvaea
Hægt er að skrá sig til þátttöku á þátttökulista á Flugvallarvegi eða hjá Hauki – haukureg[hja]gmail.com og komi fram nafn, símanúmer og netfang. Einnig má skrá sig á netspjallinu.

Sviðafundir

Þriðjudaginn 31.mars klukkan 20:00 verður sviða-vinnukvöld á Flugvallarveginum. Ætlunin er að taka stöðuna á öllum sviðum sveitarinnar, sjá hvort eitthvað vanti og þá að forgangsraða úrvinnsluatriðum.

Kvöldið verður þannig að settir verða upp vinnuhópar fyrir hvert svið og farið yfir málefni þess.  Í hverjum hóp verður fulltrúi stjórnar og umsjónarmaður sviðsins auk þeirra sem áhuga hafa á tilteknum atriðum.

Fjallamennska að atvinnu

Miðvikudaginn 18. mars ætlar Jökull Bergmann að snúa aftur til útungunarstöðvar sinnar og segja okkur frá því sem hann hefur verið að bralla síðustu misserin. Hvað felst í því að vera UIAGM-IFMGA fjallaleiðsögumaður og hvernig maður á að bera sig að í náminu og vinnunni.

Hefst klukkan 19:30.