Greinasafn fyrir flokkinn: Nýliðastarf

Hvannadalshnjúkur 25. apríl 2008

Föstudaginn 25. apríl lagði 16 manna hópur af stað austur í Skaftafell þar sem sigra átti Hvannadalshnjúk.  Gist var á bílastæðinu neðan við Sandfellsleið en þar er ágætis tún og lækur við Tréð eina.

Ferðasaga Helga:

Haldið var austur á föstudagskveldinu, farið var á þristinum, fimmunni og 3 einkabílum. Það er rétt að taka fram að Helgi var tekinn af löggunni á Hvolsvelli þó við reyndum að sannfæra lögregluna um að hann væri með Héraðslækninn, Hauk í bílnum.

Komið var í myrkri á Sandfell og tjaldað við hliðiná kirkjugarðinum. Fórum að sofa rétt fyrir 01 og var farið á fætur kl. 04.30, en þá var orðið bjart og því fínt að hafa sig til fyrir áætlaða brottför kl. 06.

Lögðum af stað upp á slaginu 06 og í sama mund og við lögðum í hann var annar hópur kominn við Sandfell sem var að fara leggja í hann sömuleiðis. Vinnuheitið okkar á þeim hóp var „Lionsklúbburinn Kiddi“. Leiðin lá mjög bratt uppávið svo við tókum þetta bara rólega til að eiga nóg inni og útlitið bara nokkuð bjart og kátt yfir mannskapnum. Þegar við komum aðeins uppfyrir snjólínu byrjaði að hvessa og gönguskíðamenn festu á sig skíðin og við hin héldum áfram fótgangandi. Fljótlega var tekin góð nestispása en þá var farið að blása meira og skömmu síðar klæddu allir sig í belti og fólk sett í línu. Þá var veðrið orðið leiðinlegt og „Lionsklúbburinn“ gékk frammúr okkur en við komum okkur loks af stað á frekar ójöfnum hraða. Kannski ekki skrýtið þar sem mótvindurinn var hressilegur og skyggnið ekki gott. Eftir eitthvað slatta klafs þarna upp var síðan tekið stopp og stöðufundur þar sem Matti og Stjáni lögðu á ráðin og ákvörðun var tekin um að skynsamlegast væri að snúa við og létum við því gönguskíðahópinn vita í gegnum talstöðina en ekkert sást til „Lionsklúbbsins“ lengur.

2448114645_f30229606c_m

Af gönguskíðalínunni var það að frétta að Haukur Eggerts hafði „stigið“ aðeins ofaní sprungu og tapað öðru skíðinu ásamt einu gleri úr sólgleraugunum. Hann sakaði samt sem áður ekki, enda héraðslæknir á ferð.

Niðurförin einkenndist af svekkelsi hjá mér a.m.k. og sést það glögglega í myndbandinu sem er til úr ferðinni og verður klárlega frumsýnt við gott tækifæri. Veðrið var orðið aftur mjög gott í ca. 1000m hæð og því trúði maður varla hvernig munurinn gat verið svona mikill á veðrinu þar og í 1400m.

Aðrir litu á björtu hliðarnar og sáu fyrir sér gott grill og kvöldvöku framundan með einhverju léttu sprangi daginn eftir.
Ákveðið var að halda yfir á Hnappavelli sem eru rétt hjá Sandfelli og fara í sig og klifur þar. Slógum því upp tjaldbúðum þar og hafist var handa við að koma upp línum og fá fólk til að síga. Það er ákveðið skref að þora yfir brúnina en þetta er algjörlega bara spurning um að hugsa ekki um hvað sé langt niður heldur bara treysta á græjurnar… þá er þetta ekkert mál 🙂

Grillunin tókst almennt mjög vel og átu allir á sig gat og voru Bogga og Agnes meiri að segja með heimatilbúinn ís í eftirrétt. Þreyta var yfir mannskapnum svo það var farið snemma í rekkju en dagurinn eftir átti að fara í létta göngu inní Skaftafelli við Svartafoss o.s.frv.

Svo kom morgun, kl. 06.30 vakna ég við það að Matti stendur við tjaldið og er að tryggja að allir séu vaknaðir og gerir við öll tjöld. Ég soldið súr að venju svona snemma dags og ligg eins lengi og ég get eða þangað til ég heyri útundan mér að það eigi að reyna við hnjúkinn aftur. Þá hrekk ég upp og lít út og sé þetta geggjaða veður.

2449721651_c2de10ae5c_m

Þetta var selt á staðnum, attitute-ið var komið aftur. „Það verður sko ekki snúið við í þetta sinn“, hugsaði maður með sjálfum sér.

Keyrt var uppí 400 metra á jeppanum og strumpastrætó og gengið semsagt upp í áttina að Hnapp og Rótarfjallshnjúk. Fæturnir sögðu aðeins til sín frá deginum áður en ekkert sem var að stoppa mann. Veðrið var sömuleiðis svo gott að hratt gékk á vatnsbirðirnar sem áttu ekki eftir að duga daginn.

Komumst uppá Rótarfjallsshnjúk kl. 15 og þar með gat Haukur hakað við hann í tindabókinni góðu. Hinn raunsæji Haukur gaf þá út að við værum aldrei að koma niður í Base camp aftur fyrr en á miðnætti myndum við halda áfram á hnjúkinn. Það var lítill efi í hópnum og því haldið áfram eftir sléttunni góðu. Skyggnið á sléttunni var lítið og sáum við ekki hnjúkinn fyrr en við vorum komin ansi nálægt honum en þá var opnun og aftur var alger steik.

2450743480_a8d38e22b3_m

Allir fóru í brodda við rætur hnjúksins og var síðan haldið uppá topp sem náðist skömmu fyrir kl. 18 á sunnudeginum. Á toppnum var að sjálfsögðu hressilegt myndasession og almenn kátína að sjálfsögðu. Allir ánægðir með árangurinn og maður gat tekið gleði sína á ný.

2451586857_fff544b633_m

Síðan var bara gengið eins og enginn væri morgundagurinn tilbaka þar sem matar og drykkjarbirðir voru litlar eða engar hjá öllum. Komið var niður í bíla-base kl. 22.30 þar sem Brynjólfur tók á móti okkur með blikkandi ljósum 🙂 Brunað á Hnappavelli, tjöldum og öðru pakkað og lagt af stað til RVK kl. 00:45 og komið í bæinn kl. 05.

Ferðir helgarinnar

Um helgina verða tvær ferðir,  B1 fer í gönguskíðaferð inn að Hlöðufelli frá Laugarvatni. Brottför kl. 08.00 á laugardagsmorgni og frekari upplýsingar á spjallinu.  B2 fer í ísklifur á sunnuda kl. 9,  sennilega Múlann. 

Ef þú vilt með þá láttu Steinar eða Stefán vita, símanúmer undir "Hafðu Samband".

Leit í snjóflóðum

Um helgina verður kennsla í snjóflóðaleit fyrir B1 og B2 í Botnsúlum.  Haldið verður úr bænum á föstudagskvöldið klukkan 19:00 og komið aftur á sunnudag.   

Ætlunin er að laugardagurinn fari í kennsluna sjálfa en sunnudagur fari í að fara uppá Botnsúlur eftir ýmsum leiðum.

Mat á snjóflóðahættu

Klukkan 20 í stóra salnum í Skógarhlíð verður haldið námskeiðið Mat á snjóflóðahættu.  Kennari er Auður yfirleiðbeinandi hjá Björgunarskólanum en þetta er í fyrsta skipti sem hún kennir fyrir okkar sveit. 
Um helgina verður svo verklegi hluti námskeiðsins í Botnsúlum en eins og bætt hefur í snjóinn í dag og spáð er í vikunni má búast við skemmtilegum aðstæðum.

Endilega mætið sem flest á þetta flotta námskeið.

Vetrarfjallamennska janúar 2008

Dagurinn var tekinn snemma á laugardegi þann 5. janúar og hittingur niðrí sveit fyrir allar aldir og menn misferskir.

Þar var rennt yfir að allir væru með búnað á borð við klifurbelti, öxi, karabínur, snjóflóðaýla og fleira.

Síðan var troðið í jeppana og brunað af stað þar sem markmiðið var að finna snjó en mikil „hitabylgja“ hafði umlukið landið dagana fyrir ferðina og því vöntun á snjó á Skarðheiðinni, en þangað var hefðin að fara í þessari ferð, „eigum við að ræða það eitthvað?“.

v1Þegar komið var inní Kaldadal hófst fjörið og hluti jeppana fóru að festast og þá höfðu nýliðarnir strax einhvern tilgang, það er að kanna hvort ísinn fyrir framan bílana væri traustur 😛 . Það verður þó að koma fram hversu seigur Hyundai bíll sveitarinnar er („Fjarkinn“ „Þristurinn“), en hann komst klakklaust á leiðarenda, kannski góðum bílstjóra að þakka sem virtist þekkja getu bílsins ansi vel.

Þá var ekki eftir neinu að bíða, nýta varð dagsljósið, kveikt á ýlunum og vaðið beint uppí brekku. Skipt var í hópa og fékk hver og einn hópur síðan „special treatment“ hjá sínum leiðbeinanda. Farið var í gegnum snjóprófílagerð og hvernig snjóflóðahætta er metin útfrá því o.s.frv. B2 hvarf uppi fjallið og veit ég ekki með vissu hvað þeir aðhófust um daginn en skiluðu sér í tjaldbúðirnar um kveldið.

Áfram héldu verklegar æfingar hjá B1 og var farið beint í hina frægu ísaxarbremsu. Það var mjög skemmtilegt og sýndu menn þvers og kruss einhverjar kúnstir eða runnu niður í bullinu.

v2Efir það var gengið í áttina upp Hádegishnjúk Syðri a.k.a. Hádegishnúkur og fljótlega skipt yfir á ísbrodda og prófað að ganga á þeim. Án þeirra hefði maður fljótlega verið kominn í sjálfheldu og ætli hefði ekki þurft útkall til að bjarga manni :O .

Fljótlega var tjaldsvæðið ákveðið en haldið áfram með æfingar. Eftir yfirferð á öllum trygginum eins og snjósætum, akkerum og íspollum var komið hressilegt myrkur og þvínæst tjaldað eða snjóhús búin til, en nokkrir ákváðu að leggja smá vinnu í að grafa snjóhús og gista í því, mjög gaman að því.

v3Langþráð máltíð var síðan elduð í flestum tjöldum eða tjaldblettum en tjaldsvæðinu mátti skipta í efra- og neðra-breiðholt . Í efra-breiðholtinu voru náttúrulega mestu vitleysingarnir. Þær voru ófáar sögurnar úr efra-breiðholtinu þetta kveldið, af mönnum talandi við tjöld og menn gangandi í hringi kringum tjöld.

Um nóttina snjóaði eða skóf aðeins og hitastig hefur verið áætlað -2 til -4 gráður. Flestir viðkenndu eftirá að hafa átt mjög erfitt með svefn á annarri hliðinni sökum áverka eftir ísaxarbremsuæfingarnar :). En í morgunsárið var þokkalegur hrollur í manni skríðandi útúr svefnpokanum skiptandi um outfit en heitur drykkur bjargaði því fljótlega.

Þegar allir höfðu pakkað rottuðu hóparnir sig aftur saman og farið var yfir hvernig gengið sé í línu. Með það á hreinu var síðan gengið langleiðina uppá Hádegisfellið syðra þar sem kuldinn beit hressilega í kinnarnar en eilítið sást til sólar og einhverjir gátu tanað sig í drazl. En auk þess að ganga í línu sást t.d. til Steinars tengja sig inní línur og kasta sér niður til að reyna ná öllum niður.

v4
Á niðurleiðinni var farið yfir grunnatriði í sigi sem og aftur farið yfir tryggingar og allir látnir síga niður slíkt í góðum halla. Toppurinn á sunnudeginum var síðan sigið niður smá klett þar sem fyrsta alvöru sigið var tekið þar sem enn á ný sumir sýndu keppnistilþrif.

v5
Haldið var áfram niður fjallið og gengið aftur á upphafspunkt og því ferðinni lokað með hring. Heimferðin út Kaldadalinn gékk næstum klakklaust en jeppinn hans Kristjáns var með smá ves en þar rifu menn bremsudiskinn bara af til að redda því, jú og svo notaði hann bara handbremsuna ef hann þurfti að bremsa :).

Var með góðar harðsperrur í líkamanum eftir þessa ferð og ágætis sár á annari hliðinni eftir ísaxarbremsutakta.

v6
Takk fyrir mjög skemmtilega ferð ,

Helgi M.

Sprungubjörgun á Sólheimajökli, 10. nóv. 2007

Um korter í 8 að morgni laugardagsins 10. nóvember var B2 mættur á svæðið, þar voru Einar, Eyþór, Gulli, Jóhann, Svanhildur, Tommi og síðan fóru Addý og Andrés með líka. Umsjónamenn voru Hjörtur og Doddi.

Við tíndum til það sem við þurftum, og síðan var lagt af stað, svona um 9. eitthvað ruglaðist Hjörtur á leiðarvalinu útúr bænum, og okkur sýndist á öllu að hann ætlaði bara vestur í bæ. En eftir smá útúrdúr, komumst við nú á rétta braut og stefndum sem leið lá upp á Shell við Vesturlandsveg, þar sem keypt var kaffi og með því.

Við keyrðum upp að Sólheimajökli undir Eyjafjöllum, fórum framhjá bílveltu, en gátum ekkert hjálpað þar, allt búið.

Við vorum komin innað jökli um 11, og byrjuð að labba upp um hádegi. Byrjuðum á að æfa okkur í að ganga á broddunum, skoðuðum nokkra svelgi og gengum síðan hærra upp jökulinn. Við fundum einn helviti myndarlegan, þar sem við tókum fyrstu æfinguna. Þar var maður látinn síga niðru í svelginn, sem var ekki djúpur, ekki meira en 6 metrar max.  Settum upp doblunarkerfi, og náðum kauða upp. Þetta gerðum við tvisvar til að tryggja að við værum með þetta á hreinu.

Síðan fórum við og fundum okkur stóra og myndarlega sprungu til að taka næstu æfingu, var okkur þá skipt í 2 hópa. Uppsetningin var sjúklingur ofan í sprungu, það þurfti maður að siga niður til hans, festa við hann línu, við þurftum að ná björgunarmanninum upp með doblunarkerfi, sem við þurftum síðan að færa kerfið á línuna hjá sjúklingnum og ná honum upp úr sprungunni. Það gekk allt mjög vel, og vorum við búnir að koma sjúklingnum upp á ca. halftima.

Smá tími fór í pælingar á tryggingunni þar sem Atli var að sýna okkur nokkra mismunandi hnúta og fleira en hann og Stefán höfðu skroppið úr bænum til að kíkja á okkur.

Síðan var gengið frá og haldið niður í bílana.

Á sunnudeginum voru síðan teknar léttar sigæfingar og júmm í húsi.

The end 😉

Andrés Magnússon.

a1
Einar gerir sig kláran niðri við bíl.
a2
Aðeins að kíkja á svelg.
a3
Eyþór að fíflast eitthvað.

a4

Verið að húkka í sjúklinginn áður en honum er kippt upp.

Fyrsta hjálp á Laugarvatni okt 2007

Um helgina voru fréttamenn B1 með í för er hópur nýliða ásamt fleirum FBSR meðlimum fóru á Laugarvatn til að læra og sumir að rifja upp „Fyrstu Hjálp“.

f1Um það bil 30 manns í B1 var komið fyrir á Menntaskólanum á Laugarvatni og völdu menn sér ýmist svefnpláss í kennslustofum eða öðrum vel völdum stöðum innan eða utan veggja skólans. Fyrirlestrar hófust strax hjá Sigurbirni Gíslasyni í Björgunarfélagi Akraness, en Sibbi eins og hann kýs að kalla sig er léttlyndur Skagastrákur sem býr að miklum slysasöguforða og oftar en ekki gat komið með „first hand“ sögur tengdar efninu. Kennslu lauk uppúr 22 á föstudagskvöldið og hafði þá fólk lausan hala frammað háttatíma. Sumir fengu sér smá göngutúr meðan aðrir horfðu á videó eða enn aðrir fóru í göngutúr í hraðbankann sem endaði síðan á Lindinni á Laugarvatni.

Það sem lesendur þurfa að gera sér grein fyrir er hvernig er að sofa í skólastofu með hóp þar sem meðalaldur er 26 ára. Það er nefnilega ekkert öðruvísi en það var þegar maður var 10-12 ára 🙂
Eftir langt en gott galsabrandara-session náðu flestir að sofna og var síðan ræs kl. 08.30 á laugardeginum.

Til að gera langa sögu stutta þá voru fyrirlestrar fram á kvöld ásamt verklegri kennslu inn á milli. Þegar var komið á seinnihluta fyrirlestranna var komin smá vottur af galsa í menn og þá fóru fimmaurarnir að fljúga:

Sibbi: „Þetta er semsagt SAM-spelka.“

Sigurbjartur: „Nennirðu að láta hana ganga?“

Helgi: „Hún getur ekkert gengið.“

Sibbi: „Hryggjasúlan er ekki bein.“

Vimmi: „Nú hvað er hún þá? Brjósk?“

Sibbi: „Hvar á að geyma tennur?“

Doddi: „Utanum hálsinn.“

Sibbi: „Hvernig hitum við alvarlega ofkældan sjúkling innanfrá?“

Doddi: „Setjum hann í örbylgjuofn.“

Seinna um kveldið var síðan æfing úti sem tókst bærilega vel m.v. aldur og fyrri störf allra sem sátu námskeiðið. Eftir „de-briefing“ á æfingunni hófst kvöldvakan sem haldin var í Stofu 204 sem var betur þekkt sem dönskustofan.

f2Fyrst var farið í Fram, Fram, Fylking og þannig hitað upp með mannskapnum sem endaði í reipitogi þar sem Jarðaberjaliðið sigraði eftir smá backup aðstoð að sögn vitna. Menn voru sko ekki á þeim skónnum að hætta því næst tók við Stólaleikur sem síðan endaði í „Mangó mangó“ leiknum, „The Romantic version“.

Ástarfleygið sjálft hafði komið með í för og laðaði Vimmi til sín góða gesti ofaní fleygið. Kvöldvökunni var síðan formlega slitið kl. 03.20 en þá voru lætin orðin of mikil fyrir þá sem hvíla vildu lúin bein.

Ræs var síðan aftur kl. 08.30, svipað kerfi og fyrri daginn, fyrirlestrar og eitthvað smá verklegt. En svo var komið að prófinu. Hópurinn fékk klukkutíma til að hita upp fyrir prófið sem hófst á slaginu 15:00. Eftir próf fóru þeir félagar Sibbi og Ási sveittir yfir prófin og afhentu síðan einkunnir. Ekki var gefin út meðaleinkunn en flestir náðu og var meiri að segja ein 10 gefin :D. Eftir tiltekt var síðan haldið heim á leið.