Greinasafn fyrir flokkinn: Nýliðastarf

NýliðaFundur i kvöld

Hæhæ
Takk fyrir síðast, það var dúndurmælting á nýliðakynningarnar og vonumst við að sjálfsögðu til að sjá ykkur sem flest í kvöld kl 19:55.
• Jónasi Guðmunds leiðist ekki að miðla reynslu og þekkingu. Hann mun renna yfir helsta fatnað og búnað sem þarf til fjallaferða. Vil minna ykkur á að koma með seðla, 3500kr fyrir bókum.
• Skráning fer fram í Helgarferðina yfir Heiðina háu.
o Skipt verður í tjald og prímushópa. Til eru 6 fjagramanna tjöld og eitt tveggja manna , restinni þarf að redda. Þeir sem eiga tjald og/eða prímus mega endilega gefa sig fram í kvöld.
• Fyrir þá sem langaði að byrja prógrammið strax í gær, geta tekið forskot á sæluna og mætt á hlaupaæfingu kl 18:15. Æfingastjóri í kvöld verður Símon Elvar.

Hlökkum til að sjá ykkur í kvöld
Kv Heiða og Sveinborg

Nýliðakynningar

Hefur þú hugleitt að snjór geti verið eitthvað annað en það sem er
fyrir manni í umferðinni? Gætir þú hugsað þér að stunda fjallamennsku,
jeppamennsku, vélsleða eða jafnvel fallhlífastökk? Ert þú þessi týpa sem
gætir hugsað þér að vera til taks þegar aðrir eru í neyð? Ert þú 18 ára
á árinu eða eldri? Kannski áttu þá erindi til okkar!

Nýliðakynningar Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verða
haldnar þriðjudaginn 30. ágúst og fimmtudaginn 1. september kl. 20.00 í
húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg.

 

Klettaklifur á Hnappavöllum

B1 ætla að stefna á Hnappavelli um helgina(spáin er þurr) og dvelja
þar við klifur og spottaleikfimi. Farið verður á einkabílum(og
hugsanlega þristinum).
Lagt af stað klukkan 20:00 og komið í bæinn seinnipart sunnudags
Uppl. hjá Matta Skratta í síma 8932266.

 

Páskaferð í boði B2

Eins og venja er sér B2 um að skipuleggja Páskaferð FBSR. Að þessu sinni er stefnan tekin á Skaftafell. Lagt verður af stað
að morgni fimmtudagsins 21. apríl  (Skírdag).  Líklega verður gist í
tjöldum í Skaftafelli en fólk getur auðvitað líka haft sína hentisemi með það.  

 

Dagskráin
verður samsett af styttri ferðum (oftast dagsferðum) út frá Skaftafelli
sem gerir fólki kleift að koma og fara eftir hentisemi og áhuga.  Athugið að staðsetning var sérstaklega valin svo að flubbar gætu komið með fjölskylduna með og allir fundið sér eitthvað við sitt hæfi.

Gróf dagskrá hefur verið sett saman til viðmiðunar en hún gæti breyst eftir áhuga, aðstæðum, veðri og fleiru.

Fimmtudagur (Skírdagur / Sumardagurinn fyrsti):
 – Þumall
 – Kristínartindar / Svartifoss

Föstudagur (Föstudagurinn langi):
 – Þumall (seinni dagur)
 – Hnappavellir
 – Gönguferð á Blátind

Laugardagur:
 – Ísklifur
 – Hnappavellir
 – Grill um kvöldið

Sunnudagur (Páskadagur):
 – Þverártindsegg (krefst smá aksturs)
 – Hnappavellir

Aðrir dagskrárliðir sem á eftir að finna tíma á (ræðst m.a. af áhuga):
 – (Fjalla-)skíðaferð a la Stefán gjaldkeri

Smá skýringar:

Þumall: Gengið inn í Morsárdal eftir að komið er í
Skaftafell á fimmtudegi.  Gist þar og farið daginn eftir á fjallið.
Þumall sjálfur er dálítið klettaklifur sem er samt ekki erfitt.  Ef
aðstæður eru erfiðar fyrir Þumal mætti fara á Miðfellstind í nágrenninu.  Gæti orðið mögnuð ferð ef vel tekst til.

Kristínartindar / Svartifoss: Ætti að henta flestum sem vilja taka því "rólega".

Hnappavellir: Klifur og kósýheit.

Ísklifur: Að öllum líkindum klifur í skriðjökli.

Þverártindsegg: Með flottari toppum / eggjum Íslands.  Myndir má sjá á: http://www.fjallafelagid.
is/
myndir/113

Blátindur: Ekki tæknilega erfitt en langur labbitúr ef
farið er fram og til baka á einum degi. Útsýnið er ótrúlegt á góðum
degi. Mynd segir meira en mörg orð:
https://picasaweb.google.com/
david.karna/
20100617NupstaAskogarSkaftafel
l#5505799955871843554

(Fjalla-)skíðaferð: Stefán gjaldkeri hefur hug á að
fara á skíðum upp á jökul (Hnappavallaleið á Rótarfellshnjúk). Það á
víst að vera hægt á gönguskíðum – niðurleiðin verður bara spennandi.
Óljóst hvaða dag þetta yrði en allavega ekki á fimmtudegi.

Þetta er alls ekki endanlegur listi yfir hvað verður gert svo ef þið lumið á góðum  hugmyndum endilega komið þeim á framfæri.

Til að geta gengið almennilega í skipulagningu þyrftum við að fá að vita
sirka hversu mörgum við megum eiga von á, bæði varðandi gistingu, pláss
í bílum og skipulagningu einstakra liða, við biðjum ykkur því að svara
eftirfarandi spurningum og koma svörum til okkar á [email protected].  Vinsamlegast svarið já, nei eða kannski:

– Hefur þú áhuga á að koma í páskaferð (ef einhverjir koma með ykkur vinsamlegast tilgreinið það)?
– Mundir þú koma á einkabíl?
– Mundir vera allan tímann (ef nei, vinsamlegast tilgreinið tíma)?
– Hefur þú áhuga á ferð á Þumal?
– Hefur þú áhuga á ísklifri?
– Hefur þú áhuga á ferð á Þverártindsegg?
– Hefur þú áhuga á skíðaferð?

Nýafstaðin helgi í Hlíðarfjalli

Hlíðarfjall

Helgina 25. – 27. mars fóru nýliðahópar FBSR ásamt nokkrum inngengnum í hina árlegu skíðaskemmtiferð í Hlíðarfjall ofan Akureyrar. Í þetta sinn vorum við svo heppinn að fá einka rútubílstjóra, en Beggi keyrði okkur ásamt því að renna sér í brekkunum.
En það voru ánægðir nillar sem fengu að skemmta sér í frábæru færi í undurfögru brekkunum. Ekki var þetta þó allt leikur því nillarnir tóku smá snjóflóðaleitaræfingar. Heiða fór aðeins yfir hvernig ýlirinn virkar og hvernig leitað er með stönginni. Í kjölfarið var þeim skipt upp í 4 hópa þar sem þau skunduðu upp í brekkurnar á milli gönguskíðabrautarinnar og bjuggu til snjóflóð til að fela ýla og bakpoka í og leita með ýli og stöng. Þess má einnig geta að á laugardagsmorguninn lét vindurinn á sér kræla og fengu nillarnir því æfingu í að gera snjóveggi og huga að tjöldum svona rétt áður en haldið var í brekkurnar.
Líkt og fyrri ár þá var tjaldað við gönguskíðaskálann og fáum við gönguskíðaskálafólki seint þakkað fyrir gestristnina.
Takk fyrir okkur

 

Fyrsta hjálp 1

Komin er staðsetning fyrir námskeiðið í Fyrstu hjálp 1. Námskeiðið verður haldið í Menntaskólanum á Laugarvatni helgina 29-31 október. Námskeiðið byrjar stundvíslega kl 20:00 og verður fram á sunnudag.

Sjúkrasvið mælir með að félagar sem ekki hafa sótt námskeið síðustu ár mæti og skerpi á kunnáttunni. Almennt er mælst til að fólk sæki sér endurmenntun á tveggja ára fresti og gildir það ekki síst fyrir björgunarsveitarfólk.

Skráning er hafin á námskeiðið hjá Agnesi: agnessvans83(hjá)gmail.com

Annasöm helgi

Um helgina voru tvenn námskeið auk vinnustofu og útkalls svo segja má að helgin hafi sannanlega verið annasöm fyrir félaga sveitarinnar. 

B1 fór uppí Tindfjöll að taka verklega þáttinn í rötun undir leiðsögn Arnaldar og þjálfaragengisins hans Matta.  Þá var B2 var á Þingvöllum og í Stardal við æfingar í fjallabjörgun með Kristjáni, Stefáni og fleiri góðum.  Voru báðir hóparnir gegnblautir eftir helgina en flestir ef ekki allir sammála um að mikið hefði safnast í reynslu og þekkingarbankann.

Þá voru fjallahópur ásamt vélsleðamönnum á vinnustofu í sprungubjörgun á Langjökli sem skipulögð var af björgunarskólanum.

Nýafstaðin helgi

Nú er vetrardagskráin komin á fullt skrið. Nýafstaðnar nýliðakynningar gegnu vel og skiluðu flestir sér á fyrsta námskeið fyrsta árs nýliða um búnað á fjöllum sem Óli hélt síðastliðin laugardag. Nýliðar á öðru ári skelltu sér inn í Þórsmörk um helgina þar sem Atli Þór bleytti vel í þeim í Krossánni í þverun straumvatna. Skemmst er frá því að segja að allir viðstaddir skemmtu sér konunglega í öskudrullugri ánni og komu heilir heim. Myndir frá þverun straumvatna má sjá á eftirfarandi slóð:

http://picasaweb.google.com/david.karna/20100903FBSRInVerunStraumvatna#

 

Nýliðakynningar

Hefur þú hugleitt að snjór geti verið eitthvað annað en það sem er fyrir manni í umferðinni? Gætir þú hugsað þér að stunda fjallamennsku, jeppamennsku, vélsleða eða jafnvel fallhlífastökk? Ert þú þessi týpa sem gætir hugsað þér að vera til taks þegar aðrir eru í neyð? Ert þú 18 ára á árinu eða eldri? Kannski áttu þá erindi til okkar!

Nýliðakynningar Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verða haldnar þriðjudaginn 31. ágúst og fimmtudaginn 2. september kl. 20.00 í húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg.