Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

Ferðir helgarinnar

Um helgina fer B1 undir stjórn Stjána í Tindfjöll en ætlunin er að ganga á Ými og Ýmu.  Á svæðinu hefur skv. línuritunum hjá veðurstofu verið rigning eða slydda uppá síðkastið og gönguskíði ekki mjög líkleg til árangurs.

B2 er ekki í ferð á vegum sveitarinnar um helgina en flestir ef ekki allir eru á leið norður á Akureyri til þess að taka þátt í Telemark festivali ISALP.  Minnum á þátttökugjaldið og félagsgjaldið.

Styrkur frá Ellingsen

Ellingsen hefur ákveðið að veita vélsleðaflokki Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík rekstrarstyrk til áframhaldandi góðra verka. Ellingsen er umboðsaðili Ski-Doo á Íslandi en Ski-Doo vélsleðar björgunarsveitarinnar komu mjög við sögu í erfiðri en árangursríkri leit á Langjökli aðfaranótt mánudagsins 15. febrúar. Sleðarnir stóðust með prýði mikið á lag við erfiðar aðstæður.

Björgunarsveitirnar okkar eiga alltaf að geta treyst á öflug og traust tæki við aðstæður sem þessar og hefur reynslan sannað öryggi og styrk Ski-Doo vélsleðanna svo um munar. Ellingsen er það sönn ánægja að geta orðið vélsleðaflokki Flugbjörgunarsveitarinnar að liði. PICT05512

 

Flubbar fundu vélsleðafólkið á Langjökli

Um þrjú hundruð björgunarsveitamenn leituðu að skoskri vélsleðakonu og ellefu ára syni hennar á svæðinu í Langjökli næst Skálpanesi í gærkvöldi og fram á nótt. Veður var afleitt og skyggni aðeins fáir metrar. Sleðahópur Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík tók þátt í leitinni og keyrði fram á mæðginin þar sem þau höfðu búið sér til skjól á bak við vélsleða sinn. Viðtal við Guðmund Arnar sleðamann og stjórnarmann Flugbjörgunarsveitarinnar má lesa á vef mbl.is.

Styrktarsamningur við Reykjavíkurborg

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri og fulltrúar björgunarsveita í Reykjavík undirrituðu í dag styrktarsamning til eins árs. Björgunarsveitirnar sem um ræðir eru Björgunarsveitin Ársæll, Björgunarsveitin Kjölur, Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík og Hjálparsveit skáta í Reykjavík.

Samkvæmt samningnum mun Reykjavíkurborg styrkja björgunarsveitirnar um 5.460.000 á samningstímanum. Styrkurinn er veittur til stuðnings almennu björgunar- og hjálparstarfi björgunarsveitanna, en auk þess skal honum varið til ungmennastarfs sveitanna.

styrkur

Borgþór Hjörvarsson, f.h. Björgunarsveitarinnar Ársæls, Elsa Gunnarsdóttir, f.h. Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, og Haukur Harðarson f.h. Hjálparsveitar skáta

Jólaball

Jólaball FBSR og Flugstoða fór fram sl. laugardag og gekk mjög vel. Um 100 manns mættu og skemmtu sér við leik, dans, söng og gleði. Börnin byrjuðu á að leita að jólasveinunum í Öskjuhlíðinni í rigningunni en það þau voru ekki lengi að finna hann og var þá dansað í kringum jólatréð og jólalögin sungin hástöfum.
Jón Svavars tók meðfylgjandi myndir sem lýsa stemmningunni á Flugavallaveginum á laugardaginn.

SL FBSR SL FBSR SL FBSR

Neyðarsendir í Reykjavíkurhöfn

Merki frá neyðarsendi fóru að berast snemma á laugardagsmorgun frá togara sem staddur var í Reykjavíkurhöfn. Við eftirgrenslan kom í ljós að um var að ræða togaran Qavak frá Grænlandi en hann var dregin vélarvana af miðunum af varskipinu Ægi fyrir um mánuði síðan.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunar ræsti út viðeigandi aðila til að finna sendinn en hann var ekki  fastur á brúarhandriði skipsins eins og vera ber.

SL FBSR

Fyrir skömmu var farið ófrjálsri hendi um skipið og sprengdur upp gúmmbjörgunarbátur, sennilega í leit að lyfjum og líklegast hefur neyðarsendirinn þá verið fjarlægður úr hulstrinu og hent á milli skips og bryggju. Þar hefur hann  lent inni í hjólbarða sem notaðir eru sem fríholt við bryggjuna og á flóðinu á laugardagsmorgun náð að komast á flot – en við það fer hann sjálfvirkt í gang. Félagi úr Flugbjörgunarsveitinni var fenginn til að miða út sendinn á staðnum því hann var hvergi í sjónmáli en allar vísbendingar og miðanir bentu til að hann væri undir bryggjunni á Ægisgarði. Þar fannst hann skömmu síðar eftir að togarinn hafði verið færður til og Færeyski dráttarbáturinn Thor Goliath kom þar að – þá sá skipstjóri hans ljósmerki frá sendinum undir bryggjunni og sótti hann. Félagar úr Flugbjörgunarsveitinni tóku við sendinum og slökktu á útsendingum hans. Neyðasendar af þessari gerð senda frá sér merki sem gefur til kynna um hvaða skip sé að ræða og eiga þeir einnig að gefa nokkuð nákvæma staðrákvörðun, aðvörun frá þeim koma upp á öllum vakstöðvum sem fylgjast með merkjum frá slíkum sendum og þurfti því að finna sendinn og slökkva á neyðarsendingunni.

Útkallsæfing FBSR og Unicef auglýsing

Sveitin hélt útkallsæfingu laugardaginn 28. nóvember. Útkallsæfingar eru eins og margir kannast við haldnar einu sinni í mánuði, ýmist sem kvöldæfingar á virkum dögum eða lengri æfingar á frídegi. Að þessu sinni var kallað út að tveir hellamenn hefðu ekki skilað sér síðan kvöldið áður. Bíll þeirra var þegar fundinn við Breiðabliksskálann í Bláfjöllum. Það leið ekki á löngu áður en björgunarmenn fundu hellamennina í Djúphelli. Annar var skriðinn inn í þröngan botn og áttavilltur, hinn var í sjálfheldu á syllu nokkru fyrir ofan hellisgólfið.

Nokkrar myndir í hellinum voru teknar (www.flickr.com/steinarsig)

Á leið heim var tekið á bílslysi á örskotsstundu.

Æfingin endaði svo niðri í Flugbjörgunarsveit þar sem Sagafilm mætti til þess að taka upp stutt atriði fyrir dag rauða nefsins hjá UNICEF.

4141785770_87d668bc45

Björgunarstörf í náttúruhamförum – ráðstefna

Í tilefni 40 ára starfsafmælis Hjálparsveitar skáta Garðabæ efnir sveitin til ráðstefnu og pallborðsumræðna um náttúruöflin á Íslandi og hvernig björgunaraðilar geti búið sig undir hjálparstarf á hamfarasvæðum. Fengnir hafa verið færustu sérfræðingar á sínu sviði til að fjalla um málefnið. Ráðstefnan fer fram laugardaginn 21. nóvember í hátíðarsal Jötunheima, húsnæðis Hjálparsveitar skáta Garðabæ við Bæjarbraut.

Ármann Höskuldsson og Hörður Már Harðarson stýra ráðstefnunni og Jón Gunnarsson alþingismaður stýrir pallborðsumræðum.

Allir velkomnir, aðgangur ókeypis.

080236-875020

Sveitarfundur 27. október

Annar sveitarfundur vetrarins var haldin þriðjudaginn 27. október sl.

Það var góð mæting hjá bæði nýliðum og inngengnum. Það sem helst var rætt var sala á Neyðarkallinum sem fram fer næstu helgi, 5-8. nóvember. Svo ræddi Siggi Sig aðeins um lög og starfsreglur félagsins og bar þá einnig á góma lög SL en hérna má finna lög og reglur SL sem eiga við allar björgunarsveitir.

Útkallsæfing FBSR

Í gær 1. október var fyrsta útkallsæfing vetrarins haldin. Útkallið barst 19:15 og allir voru komnir aftur í hús kl. 22. Almenn ánægja var með þetta nýja æfingafyrirkomulag og þó allt hafi gengið í meginatriðum vel fann hópurinn hvað mætti gera betur. Yfir 20 Flubbar tóku þátt í æfingunni á FBSR-1, FBSR-3, FBSR-4 og FBSR-5.

Ein útkallsæfing verður í mánuði í allan vetur og eru þær opnar öllum Flubbum, enda ekki hugsaðar fyrir staka sérhæfða hópa, heldur sveitina sem eina samvinnuheild.