Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

Afmælisæfingu lokið

Afmælisæfing FBSR Rauður Október fór fram í gær, laugardag, og tókst æfingin í alla staði alveg frábærlega. Það voru um 250 björgunarmenn, um 70 sjúklingar og um 100 æfingarstjórar, verkefnastjórar, póstastjórar og aðrir stjórar sem tóku þátt í æfingunni að ógleymdum konum úr Kvennadeild FBSR og Slysavarnadeild Kvenna í Reykjavík; þannig að hátt í 500 manns í heildina.

Undirbúningur fyrir æfinguna hefur staðið í um mánuð en síðastu tvær vikur hafa nær verið undirlagðar fyrir undirbúning þessarar æfingar. Aðalfjörið hófst síðan á föstudag þegar lagðar voru lokahendur á undirbúning allra verkefnanna, upp úr miðnætti mætti förðunarlið og hjúkrunarfólk í hús og hófst undirbúningur á sjúklingum en farða þurfti hátt í 70 sjúklinga. Kl. 6.00 byrjuðu björgunarhópar að tilkynna sig inn til æfingastjórnar tilbúnir í fjörið og hófst þá allt gamanið. Óhætt er að segja að allir hafi verið á fullu fram til um kl. 19.30 þegar síðustu menn voru að fara úr húsi FBSR. Verkefni sem hóparnir tókust á við vorum af öllum toga sem búast má við í björgunarstarfi, s.s. köfun, leit á sjó, leit á landi, hundar leituðu, hestar leituðu og báru börur með sjúkling í, fjallabjörgun, þyrlan tók þátt í æfingunni, fjórhjól, bílar og rústabjörgun. Kl. 16.00 var hætt að deila verkefnum á hópana og héldu þá allir í hús FBSR við Flugvallaveg þar sem tekið var hraustlega til matar, en boðið var uppá grillaða hamborgarar og viðeigandi meðlæti. Einnig bauðst öllum að skella sér í sund í boði ÍTR og FBSR.

Stjórn FBSR þakkar öllum þeim sem tóku þátt í æfingunni á einn eða annan hátt alveg kærlega fyrir alveg frábæran dag. Við megum öll vera alveg hrikalega stolt yfir því hversu vel tókst til!!!

kafarar1

kafarar2

Myndir: Guðjón B.

 

Rauður Október II

Þegar þetta er skrifað eru 66 klukkustundir þar til afmælisæfing Flugbjörgunarsveitarinnar, Rauði Október II hefst og undirbúningur á lokastigi. Alls hafa á fjórða hundrað þáttakendur boðað sig til leiks svo að ljóst er að yfir 500 björgunarmenn verða samankomnir á æfingunni næsta laugardag.
Upplýsingamöppum um æfinguna verður dreift til sveita á höfuðarborgarsvæðinu næstkomandi föstudag en aðrar sveitir fá þær afhentar við komu á laugardagsmorgun.
 

Annars er dagskráin 2.október sem hér segir;

  •  06:00 Æfing hefst, hópar með möppur tilkynna sig inn og fá verkefni. Hópar utan af landi mæta í hús FBSR, fá verkefni og möppur.17:00-20:00 Grillveisla í boði FBSR við hús sveitarinnar
  • 17:00-20.00 Sundlaugarferð í Laugardalslaugina í boði FBSR og ÍTR
  • 20:00 Dagskrá og æfingu lýkur formlega

Allar nánari upplýsingar fást hjá æfingastjóra, Jónasi Guðmundssyni í síma 897-1757.

Sjáumst kát og hress á Rauða Október II

Æfingastjórn

Rauður október II

Nú eru aðeins fjórir dag í eitt stærsta verkefni sem FBSR hefur staðið
fyrir í fjölda ára, afmælisæfinguna Rauði Október II en hún fer fram
næstkomandi laugardag. Alls hafa rúmlega 300 björgunarmenn tilkynnt um
þáttöku en auk þeirra eru um 100 sjúklingar og annað eins af flubbum við
umsjón æfingarinnar. Þeir flubbar sem ennþá eru verkefnalausir hafði samband við [email protected]!

Starfsmaður óskast

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík leitar eftir áhugasömum einstakling sem gæti tekið að sér stöðu starfsmanns FBSR í tímabundið starf.

Starfið er í samstarfi við Vinnumálastofnun og því er nauðsynlegt að viðkomandi sé á atvinnuleysisskrá. Starfið er tímabundið til 6 mánaða og æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Nánari upplýsingar um skilmála Vinnumálastofnunar má finna á slóðinn www.vinnumalastofnun.is/vinnumarkadsurraedi/ataksverkefni-9gr/. Nánari upplýsingar um starfið veitir formaður – formadur(hja)fbsr.is

Umsóknarfrestur rennur út 30.september 2010.

Starfið felst meðal annars í:
Aðkomu að jólatrjáa- og flugeldasölu
Aðstoð við þjálfunarmál
Viðhald á húsnæði og bílum eftir þörfum og getu starfsmanns
Fjáraflanir
Ýmis skrifstofuvinna, s.s. útsending fréttabréfs, umsjón með heimasíðu.
Annað tilfallandi

Ekki er gerð sérstök krafa um menntun eða reynslu. Öllum umsóknum verður svarað.
Umsóknir ásamt ferilsskrá skal senda á formadur(hja)fbsr.is. 

Nýafstaðin helgi

Nú er vetrardagskráin komin á fullt skrið. Nýafstaðnar nýliðakynningar gegnu vel og skiluðu flestir sér á fyrsta námskeið fyrsta árs nýliða um búnað á fjöllum sem Óli hélt síðastliðin laugardag. Nýliðar á öðru ári skelltu sér inn í Þórsmörk um helgina þar sem Atli Þór bleytti vel í þeim í Krossánni í þverun straumvatna. Skemmst er frá því að segja að allir viðstaddir skemmtu sér konunglega í öskudrullugri ánni og komu heilir heim. Myndir frá þverun straumvatna má sjá á eftirfarandi slóð:

http://picasaweb.google.com/david.karna/20100903FBSRInVerunStraumvatna#

 

Aðalfundur FBSR

Aðalfundur FBSR var haldinn 27.maí 2010. Fundurinn var vel sóttur en alls sátu hann hátt í 70 félagar ásamt nýliðum.  Fyrir utan venjuleg aðalfundastörf voru ýmis mál rædd undir liðnum Önnur mál og fundi var ekki slitið fyrr en rétt fyrir miðnætti. Á fundinum gengu 15 mjög efnilegir nýliðar inn í sveitina.

Elsa Gunnarsdóttir mun áfram sinna formennsku sveitarinnar. Stefán Þór Þórsson, Elsa Særún Helgadóttir og Jón Svavarsson sitja áfram í stjórn á komandi starfsári. Ásgeir Sigurðsson, Guðbjörn Margeirsson og Guðmundur Arnar Ástvaldsson gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og þakkar sveitin þeim vel unnin störf. Þeirra í stað koma nýjir inni í stjórn Marteinn Sigurðsson, Agnes
Svansdóttir og Magnús Þór Karlsson.

Aðalfundur FBSR 27. maí kl. 20.00

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verður haldinn fimmtudaginn 27.maí nk. kl. 20.00.

 

Dagskrá aðalfundar:
 
1.    Formaður setur fund.
2.    Kosning fundarstjóra og fundarritara
3.    Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
4.    Endurskoðaður rekstrar og efnahagsreikningur 2009, samþykktur af félagslega kjörnum endurskoðendum og umræður um hann.
5.    Inntaka nýrra félaga.
6.    Hlé – Kaffiveitingar á vegum kvennadeildarinnar, kr. 1.000 (muna að koma með pening)
7.    Kosning formanns (til eins árs).
8.    Kosning tveggja meðstjórnenda (árlega til tveggja ára).
9.    Kosning tveggja varastjórnenda (til eins árs).
10.  Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.
11.  Önnur mál.
 
Við hvetjum alla félaga til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þar verða teknar.

Stjórnin

 

Gæsla við gosstöðvar

Patrol jeppar sveitarinnar fóru úr húsi klukkan 04:30 á fimmtudagsmorgunmeð 8 félaga innanborðs í átt að gosstöðvunum. Upphaflega stóð til að fara í gæslu í Básum en þar sem lokað var fyrir alla umferð að gosinu og inn í Þórsmörk breyttist upphaflegt plan. Annar bíllinn fékk því það hlutverk að loka veginum inn í Þórsmörk og hinn að stoppa fólk við gönguleiðina upp hjá Skógafossi. Um hádegið var opnað aftur fyrir umferð að gosinu og þá sinntu bílarnir eftirliti á veginum inn að Básum.

Á mánudagsmorgun fer svo aftur hópur frá sveitinni í gæslu á Fimmvörðuháls.