Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir
Dagskrá afmæilsvikunnar
Gleðilega afmæliviku! Þá er það loka vikan í 60 ára afmælisfögnuði Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. Meðfylgjandi er dagskrá vikunnar en það er, eins og sjá má, mikið um að vera. Minnum á að margar hendur vinna létt verk. Hlökkum til að sjá ykkur.
Mánudagur – Bíó
Á mánudaginn verður Bíó Paradís með sérstaka björgunarsveita sýningu á myndinni Norð Vestur. Norð Vestur fjallar um atburðarás björgunaraðgerða á Flateyri eftir að mikið snjóflóð féll á bæinn í október 1995. Snjóflóðið reyndist eitt það mannskæðasta í sögu landsins en alls fórust 35 manns í flóðum árið 1995. Efni myndarinnar tengist okkur mikið og við hvetjum félaga til að nýta þetta tækifæri til að sjá myndina (myndin er ekki lengur í almennri sýningu). Tilboð á popp og kók í hléi.
Bíó Paradís er á Hverfisgötunni (gamli Regnboginn) og myndin hefst 20.20.
Þriðjudagur – afmælisundirbúningur I
Á þriðjudaginn verður Flugvallavegurinn sjænaður fyrir afmælisveisluna á föstudaginn. Þar þarf að skúra, skrúbba og bóna útúr dyrum. Skyldumæting. Bogga er yfir-þrif-og-tiltektarstjóri og mun hún útdeila verkefnum með harðri hendi. Mæting 20.
Þeir sem ekki hafa enn orðið sér útum miða á hina stórglæsilegu árshátíð FBSR á laugardaginn gera það hér og nú. Einnig verða nýju vegabréfaveskin til sölu. Krunka er yfir-miðavörður. Posi á staðnum
Miðvikudagur – frjáls dagur
Fimmtudagur – afmælisundirbúningur II
Á fimmtudaginn er annar í afmælisundirbúningi. Nú þarf að klára að græja húsið fyrir föstudaginn. Við þurfum við fullt af höndum í að færa, flytja, fela, setja upp og stílisera – borð, stóla, ljós og hitt og annað. Magnús Viðar er yfir-stíliseri. Mæting 18.
Föstudagur – afmælisboð
Loksins er komið að afmæliskökunni! Við verðum eins og áður hefur komið fram með afmælisveislu á föstudaginn frá 17 til 19. Þarna verður allt frægasta fólkið, girnilegustu kræsingarnar og skemmtilegasta dagskráin. Að sjálfsögðu mætum við öll. Hvetjum félaga til að mæta í FBSR flíspeysum/polobolum.
Laugardagur – ÁRSHÁTÍÐ
Á laugardaginn er það sjálf árshátíðin. Mæting á Flugvallarveginn í fordrykk kl 18. Miðar á árhátíðina hafa rokið út og er búist við topp-mætingu. Láttu þig ekki vanta!
Afmæliskveðja,
Stjórnin
Af Landsbjargarsíðunni
Inná heimasíðunni landsbjorg.is er skemmtileg grein sem allt björgunarsveitafólk ætti að lesa. Greinin samanstendur af tveimur bréfum sem félaginu barst frá fólki sem hefur þegið aðstoð björgunarsveita og segja þau frá sinni upplifun í kringum það.
Beinn hlekkur á fréttina er hér
Neyðarkallinn gekk vel
Nú er formlegri sölu á Neyðarkallinum lokið þó enn sé hægt að ná sér í kippu með því að hafa beint samband við sveitirnar. Kunnum við öllum viðskiptavinum, styrktaraðilum og síðast en ekki síst sölufólkinu okkar bestu þakkir fyrir aðstoðina og vinnuna um helgina.
Salan gekk vel á að öllu leiti sem sýnir okkur að samfélagið kann vel að meta það starf sem fram fer innan sveitanna og öryggisnetið sem þær mynda.
FLUGMAÐUR Á GEYSI KEYPTI FYRSTA NEYÐARKALLINN
Dagfinnur Stefánsson, sem var flugmaður á Geysi er fórst á Bárðarbungu árið 1950, keypti fyrsta Neyðarkall björgunarsveita í dag og með því hófst formlega þessi árlega fjáröflun björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Dagfinnur sagði við þetta tækifæri að björgunarmenn þeir eru fyrstir komu að flugvélinni á Bárðarbungu hafi skilað sínu hlutverki vel en ljóst sé að björgunarsveitir í dag séu mun betur í stakk búnar til að takast á við stór verkefni, eins og fluglys eða náttúruhamfarir.
Magnús Hallgrímsson og Guttormur Þórarinsson sáu um sölu Neyðarkallsins til Dagfinns en Magnús er einn af stofnendum Flugbjörgunarsveitarinnar á Akureyri sem var ein af fjölmörgum sveitum er stofnaðar voru í kjölfar Geysisslyssins og faðir Guttorms var í fyrsta björgunarhópnum sem kom að flakinu.
Sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar munu selja Neyðarkall um land allt um helgina. Verða þeir við verslanir, verslanamiðstöðvar, útsölustaði ÁTVR og víðar. Einnig verður á sumum stöðum gengið í hús.
Sala Neyðarkalls er með stærstu fjáröflunum björgunarsveita og afar mikilvæg fyrir starfsemi þeirra, ekki síst í ár en sjaldan hafa björgunarsveitir landsins tekist á við jafn stór og viðamikil verkefni. Er þar skemmst að minnast ferðar Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar til Haiti í janúar og umfangsmiklar aðgerðir í kringum eldgos á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli.
Björgun 2010
Nú um helgina heldur Slysavarnafélagið Landsbjörg ráðstefnuna Björgun 2010 á Grand Hotel í Reykjavík.
Ráðstefnan Björgun hefur verið haldin á tveggja ára fresti síðan 1990 og hafa að jafnaði um 350 manns úr björgunarsveitum, slysavarnadeildum, lögreglu, slökkviliði og fleiri viðbragðseiningum sótt hana.
Skráning hefur gengið vel og hefur fjöldi erlendra gesta boðað komu sína, bæði fyrirlesarar sem og almennir þátttakendur.
Fjöldi áhugaverðra fyrirlestra eru í boði á ráðstefnunni og þar á meðal fyrirlestrar frá félögum okkar einingar.
Sameiginleg undanfara æfing á svæði 1
Fjórir undarnfara tóku þátt í sameignlegri undanfaraæfingu undanfara á svæið 1 nú í kvöld, er þetta einn af mánaðrlegum æfingum þessara hópa. Æft var við Tröllafoss í Leirvogsá. Í þetta sinn var æfð fjallabjörgun með straumvatnsívafi. Þurfi annars vegar að bjarga manni sem sat fastur á kletta sillu illa slasaður og hins vega að aðstoða mann sem gat sig hvergi hreyft úti í ánni. Að sögn viðstaddra gekk æfingin vel.
Búnaðarbazar ÍSALP & FBSR
Áttu
fulla geymslu af græjum sem hafa ekki verið hreyfðar lengi? Ertu að
svipast um eftir reyndu göngutjaldi? Kanntu að meta fallega hluti með
sögu? Ertu að safna fyrir næstu reisu?
Ef þú ert í þessum pælingum þá ættirðu að kíkja á búnaðarbazar ÍSALP og Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík.
Þér er boðið að koma og selja/versla hluti og fatnað sem á einhvern hátt tengjast útivist og fjallabrölti.
Þetta
er þriðja árið í röð sem ÍSALP heldur búnaðarbazar í samstarfi við
FBSR. Reynslan er góð og það hefur sýnst sig að ólíklegustu hlutir fá
nýja eigendur. Stemmningin undanfarin ár hefur verið gríðarlega góð og
prútt stundað á hverjum bás.
Hvar: Hús Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík við Flugvallarveg
Hvenær: Fimmtudagskvöldið 28. október kl. 20. Seljendur hvattir til að mæta kl. 19.30
Munið að mæta í prúttstuði með fulla vasa af reiðuféi. Næsti hraðbanki er á Hótel Loftleiðum.
Annasöm helgi
Um helgina voru tvenn námskeið auk vinnustofu og útkalls svo segja má að helgin hafi sannanlega verið annasöm fyrir félaga sveitarinnar.
B1 fór uppí Tindfjöll að taka verklega þáttinn í rötun undir leiðsögn Arnaldar og þjálfaragengisins hans Matta. Þá var B2 var á Þingvöllum og í Stardal við æfingar í fjallabjörgun með Kristjáni, Stefáni og fleiri góðum. Voru báðir hóparnir gegnblautir eftir helgina en flestir ef ekki allir sammála um að mikið hefði safnast í reynslu og þekkingarbankann.
Þá voru fjallahópur ásamt vélsleðamönnum á vinnustofu í sprungubjörgun á Langjökli sem skipulögð var af björgunarskólanum.
Björgun 2010
Þann 22. 24. október n.k. verður ráðstefnan Björgun 2010 haldin á Grand Hóteli í Reykjavík.
Björgun er nú haldin í 11. skiptið og að þessu sinni verða tæplega 60 fyrirlestrar í boði, fluttir af innlendum sem erlendum sérfræðingum og þegar hefur fjöldi erlendra gesta boðað komu sína. Allir fyrirlestrar sem fluttir verða á ensku verða túlkaðir á íslensku.
Dagana fyrir ráðstefnuna verða einnig tvær sérhæfðar ráðstefnur; Verkfræði, jarðskjálftar, rústabjörgun og Almannavarnir sveitarfélaga. Einnig verða námskeið í notkun jeppa og beltatækja í leit og björgun.
Eftir opnunarfyrirlesturinn, sem fjallar um ferð Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar til Haiti, verður nýr stjórnstöðvarbíll svæðisstjórnar á svæði 1 vígður og munu gestir ráðstefnunnar geta skoðað hann alla helgina.
Eftir að formlegum fyrirlestrum lýkur á föstudag verður sýnd ný sjónvarpsmynd, sem SagaFilm hefur gert fyrir alþjóðlegan markað, um ferð ÍA til Haiti.
Á laugardeginum verður sýning á björgunartækjum og búnaði sem nýst getur viðbragðsaðlilum við störf þeirra. Sýnendur eru fjölmargir, íslenskir sem erlendir.
Á laugardagskvöldið verður hátíðarkvöldverður í Lava, veitingastað Bláa lónsins.
Allir sem fylgjast með björgunarmálum á Íslandi ættu að mæta á ráðstefnuna því af henni má hafa bæði gagn og gaman.
Verðið á ráðstefnuna er 10.000 kr. fyrir félagsmenn.
Verðið í hátíðarkvöldverðinn á Lava veitingastað í Bláa Lóninu er 8.500 kr. sem félagar þurfa að borga sjálfir.
Nánari upplýsingar um dagskránna, skráning og önnur atriði má finna á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar, www.landsbjorg.is