Eins og fram kom í fjarkynningu um nýliðastarf FBSR fyrir nokkrum vikum var ákveðið að bíða með að hefja nýliðaþjálfunina formlega á meðan COVID-19 er kraumandi í samfélaginu og sóttvarnaraðgerðir síbreytilegar.
Þess í stað bjóðum við áhugasömum að fræðast, kynnast sveitinni og hita upp fyrir alvöru þjálfun á röð fjarfunda. Netprógramið er þannig fyrst og fremst hugsað sem upphitun fyrir verðandi nýliða en það nýtist þó einnig inngegnum félögum í FBSR, t.d. þeim sem hafa dottið út úr starfi og vilja koma aftur.
Þau Ragna Lára Ellertsdóttir, Hjalti Björnsson og Kristjana Ósk Birgisdóttir hafa umsjón með prógraminu en ýmsir gestir munu koma að fundunum sjálfum. Áætlað er að þeir verði á dagskrá annan hvern þriðjudag næstu vikur og mánuði.
Heildarskipulag prógramsins er ekki fullbúið en verið er að vinna með ýmsar hugmyndir, t.d kynningu á störfum flokka innan FBSR, grunnatriði rötunar (GPS og áttaviti) og jeppafræði, auk þess sem vel valdar hetjusögur félaga munu áreiðanlega fá sitt pláss.
Næsti fundur á þriðjudag 6. október
Á fyrsta fundi, þann 22. september sl., var farið í upprifjun og grunnatriði fyrir ferðamennsku. Sveinn Hákon Harðarson verður svo með næsta fund, þann 6. október nk., og ætlar hann þar að fara yfir hlutverk björgunarsveita og störf þeirra. Sjá Facebook viðburð.
Þegar hafa 30 manns skráð sig í prógramið og ennþá hægt að skrá sig hér. Þó flestum fundum verði deilt á opinni Facebook síðu sveitarinnar gætu einhverjir viðburðir orðið lokaðir og því er vissara að skrá sig á listann.