Tuttugu og fimm manns á fimm bílum Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík tóku þátt í aðgerðum vegna óveðurs sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið í dag, þar af þrír í húsi og einn í landsstjórn. Fjölbreytt verkefni voru leyst þar sem ýmislegt gekk á og voru tveir bílar sveitarinnar laskaðir í lok dags, brotin rúða og skökk hurð.
Greinasafn eftir: stjorn
Landmannalaugar 2015
Rúmlega 50 manna hópur frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík hélt í árlega Landmannalaugaferð síðustu helgi. Stór hluti fór á gönguskíðum, en einnig voru þrír sleðar með í ferð og fjórir jeppar. Farið var úr húsi föstudagskvöldið og lagði skíðagöngufólkið af stað frá veginum austan af Sultartangastöð. Var skíðað austur fyrir Tagl þar sem tjaldbúðir voru settar upp, en nokkur hríð var um kvöldið. Jeppa- og sleðafólk hélt á meðan inn í Laugar.
Á laugardaginn var fullt af allskonar hjá öllum. Gönguskíðafólk hélt áfram og var stefnan sett á Laugar, meðan jeppa- og sleðafólk keyrði um Fjallabak þvert og endilangt. Nokkrir tóku sig svo til og gengu upp og skíðuðu svo niður Bláhnúk. Slegið var upp veislu um kvöldið og grillað í mannskapinn og að vanda var svo fjölmennt í lauginni eftir matinn. Á sunnudaginn var haldið í átt að Sigöldu og keyrt í bæinn.
Allt í allt frábær ferð þar sem margir prófuðu gönguskíði í fyrsta skipti í lengri ferð, ökumenn fengu góða æfingu og hægt var að njóta Fjallabaksins stóran hluta ferðarinnar vegna prýðisskyggnis og góðs skíðafæris.
Myndir: Magnús Andrésson og Ingvar Hlynsson
- Veðrið lék við hópinn á laugardaginn
- Hluti af gönguskíðahópnum
- Það fór að létta til á Laugardaginn.
- Tjaldað aðfaranótt laugardags við Tagl
- Matti leiddi hópinn ásamt Arnaldi á sunnudaginn að Sigöldu.
- Stefán Már og Arnar að prófa nýju tækin.
- Tommi fékk skutl með Steinari sem blés ekki úr nös þrátt fyrir smá aukna þyngd í eftirdragi.
- Fjölmennt í Laugum.
- Ingvar var vinsamlegast beðinn um að fara ekki hraðar en 40km/klst
- Smá hríð á föstudagskvöldið stoppaði mannskapinn ekki.
Þrettándasala flugelda
Búnaðarbasar Ísalp og FBSR
Fimmtudaginn 18. september verður hinn árlegi búnaðarbasar Ísalp og FBSR haldinn í húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. Fjörið hefst klukkan 20:00, en þeim sem vilja selja er bent á að mæta hálftíma fyrr og stilla upp tímanlega fyrir opnun. Allir velkomnir, ekki missa af þessu!
Nýliðakynningar 2014
Hefur þú áhuga á að starfa með sterkri björgunarsveit og vilt kynnast fólki sem hefur áhuga á útivist og öðru sem tengist björgunarmálum?
Nýliðaprógram Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verður kynnt á tveimur fundum á næstunni. 28. ágúst og 1. september klukkan 20:00. Fundirnir verða í húsnæði FBSR við Flugvallaveg (milli Hertz og Hótel Natura).
Inntaka nýrra félaga
Á aðalfundi þann 20 maí sl. gengu til liðs við sveitina 14 nýir félagar þ.e.a.s. hópur þeirra nýliða sem lokið hefur sínu öðru ári í nýliðaþjálfuninni.
Þessi öflugi hópur er:
- Arianne Gaehwiller
- Ásdís Sveinsdóttir
- Bjartur Týr Ólafsson
- Egill Júlíusson
- Emily Lethbrigde
- Grétar Guðmundsson
- Guðmundur Jóhannesson
- Haukur Elís sigfússon
- Hákon Gíslason
- Illugi Örvar Sólveigarson
- Jón Trausti Bjarnason
- Karl Birkir Flosason
- Októvía Edda Gunnarsdóttir
- Unnur Eir Arnardóttir
Við bjóðum þau hjartanlega velkomin.
Ný stjórn tekur til starfa
Á aðalfundi FBSR þann 20. maí var ný stjórn kosin sem mun starfa næsta starfsár. Jóhannes Ingi Kolbeinsson var endurkjörinn formaður og þá var Kristbjörg Pálsdóttir endurkjörin í stjórnina til tveggja ára. Jón Smári Jónsson var auk hennar kosinn til tveggja ára og þau Björn Víkingur Ágústsson og Margrét Aðalsteinsdóttir voru kosin varamenn til eins árs. Fyrir í stjórn voru þeir Þorsteinn Ásgrímsson og Björn Jóhann Gunnarsson, en þeir voru á síðasta ári kosnir til tveggja ára.
Fyrsti stjórnarfundur var haldinn þriðjudaginn 27. maí og skipti þá stjórn með sér verkum. Engar breytingar voru gerðar á hlutverkum þeirra sem fyrir voru í stjórn, en Jón Smári tók við meðstjórnendahlutverkinu. Frekari upplýsingar um stjórn, hlutverk og sviðstjóra má sjá á þessari síðu.
Fundargerð aðalfundar og fyrsta stjórnarfundar munu koma inn á d4H fljótlega.
Næstkomandi þriðjudag, 20. maí, verður aðalfundur FBSR haldinn í húsnæðis félagsins við Flugvallarveg kl 20:00. Utan hefðbundinna aðalfundarstarfa verða nýliðar sem hafa gengið í gegnum prógramm síðustu tveggja ára teknir inn sem fullgildir meðlimir og þá verður kvennadeildin með kaffi og kökur sem endranær.
Stjórn mun leggja fram nokkrar lagabreytingar, en nánari upplýsingar hafa verið sendar bæði í fréttabréfi og pósti. Þá fer fram kosning á formanni, tveimur meðstjórnendum og tveimur varamönnum í stjórn.
Stjórn hvetur alla meðlimi til að mæta.
B1 í Tindfjöll
Tíu nýliðar í B1 fóru í Tindfjöll helgina 4.-7. apríl. Fylgdarliðið voru harðgerir jaxlar af fjalla-og bílasviði. Á föstudagskvöldi var tjaldhópunum hent út á handahófskenndum stöðum í Fljótshlíðinni með kort og áttavita og voru allir komnir á áfangastað um kl. 3. Göngufærið síðari hluta göngunnar var ekkert til að hrópa húrra yfir, drulla, bleyta og snjór. Nýliðunum var boðið upp á soðið vatn áður en skriðið var inn í tjald.
Plan laugardagsins var að fara á Ými og Ýmu á Tindfjallajökli. Lagt var af stað á laugardagsmorgni en okkur miðaði frekar hægt, töluverður snjór og farið að hvessa. Þegar komið var að Saxa, við rætur Tindfjallajökuls, ákváðu fararstjórarnir að snúa við vegna veðurs. Fengum þó að festa á okkur brodda og í línu og prílaði helmingur hópsins upp á Haka áður en haldið var til baka. Þegar komið var að Ísalp skálanum hafði einn úr hópnum „fótbrotnað“. Nýliðarnir þurftu að hlúa að honum og koma heilum og höldnum niður að gamla FBSR skála. Að æfingu lokinni biðu okkar grillaðar pylsur í tugatali, bornar fram á bleikum Hello Kitty diskum! Það eina sem skyggði á daginn var að eitt tjald inngenginna, með hluta af innbúi, fauk í rokinu og fannst ekki aftur þessa helgi.
Allt of snemma á sunnudagsmorgni vorum við vakin upp með látum. Skömmu síðar hófst æfing í snjóflóðaleit. Að henni lokinni var borðað, pakkað saman og rölt af stað niður í Fljótshlíð. Markmið göngunnar var að komast þurrum fótum niður. Gangan gekk hratt og vel og á leiðarenda fengu tjaldhóparnir að keppa sín á milli í æsispennandi tímatöku! Verkefnið var að tjalda, sjóða 1L af vatni og koma sér inn í tjald og ofan í svefnpoka. Tjaldhópur 1 (Guðjón, Sveinbjörn, Þorkell) sigraði naumlega í fyrstu umferð á 11 mínútum. Í annarri umferð átti einungis að tjalda og sigraði þá tjaldhópur 2 (Elísabet, Franz, Kristveig, Svana) örugglega á tímanum 5:25. Tjaldhópur 3 (Björgvin, Helena, Linda) hafa eitthvað að stefna að. Lagt var af stað í bæinn en eftir smá akstur komum við að bíl utan vegar frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Hófst þá lærdómsrík skyndihjálparæfing sem var síðasta æfing helgarinnar.
– Elísabet Vilmarsdóttir
Gönguskíðaferð í Landmannalaugar
Hin margrómaða gönguskíðaferð í Landmannalaugar var farin helgina 7-9. mars. Að þessu sinni fóru allir saman en um 50 manns voru skráðir í ferðina. Flestir gengu inn í Landmannalaugar á gönguskíðum en jeppar og vélsleðar voru einnig til taks. Jepparnir þurftu moka sig lausa nokkrum sinnum enda snjóþungt.
Ferðin hófst við Sigöldu rétt fyrir miðnætti á föstudagskvöldi. Gengið var í fínasta veðri undir stjörnubjörtum himni að Dyngjuskarði. Veðurspá laugardags lofaði ekki góðu (stormviðvörun) og var því ákveðið að ganga um nóttina þar til menn yrðu eitthvað „undarlegir“. Eftir tæplega fjögurra tíma göngu var komið að Dyngjuskarði. Tjaldbúðum var komið upp og reynt að ná einhverjum svefni. Heyrst hefur að lengsti lúrinn hafi varað í tvo tíma.
Á laugardagsmorgni var farið að hvessa og átti eingöngu eftir að bæta í vind. Fengum él sem varð að slyddu þegar leið á daginn. Skyggni var ekkert alla dagleiðina og þurfti að nota ímyndunaraflið til að sjá fyrir sér náttúrufegurðina. Það var vonlaust að finna skjól til að snæða hádegismat svo að hópurinn gróf sig í fönn í klettaskarði. Upp úr hádegi voru vindhviðurnar orðnar ansi öflugar og felldu mann og annan. Ein hviðan var sérstaklega öflug og felldi alla, nema fjóra, í einu vetfangi. Ferðinni miðaði hægt en hópurinn náði inn í Landmannalaugar fyrir kvöldmat. Frá skálanum barst ómótstæðilegur ilmur af grilluðu lambakjöti en slegið var í sameiginlegan kvöldverð sem nokkrir inngengnir sáu um. Hópurinn sló upp tjaldbúðum við skálann og barðist við mikla munnvatnsframleiðslu. Eftir dýrindis kvöldmat fóru þeir hörðustu í heitu laugina, með glimmer baðbombu!
Sunnudagsmorgun hófst á því að trítla yfir vatnslitla og volga á. Flestir bleyttu skóna en nokkrir höfðu vit á því að fara berfættir yfir. Þegar líða tók á daginn voru einhverjir orðnir sárfættir og vélsleðarnir tilbúnir að sækja fólk og farangur. Um hádegi glitti í himininn og svo brast á með blíðu og góðu skyggni í hálftíma. Ferðin gekk vel og fórum við yfir álíka vegalengd og hina tvo dagana samanlagt. Við Frostastaðavatn fór efsta snjóalagið að falla niður með tilheyrandi brestum þegar gönguskíðahópurinn fór yfir. Í lok dags var svo fagnað þegar sást í rútuna sem beið eftir okkur.
Ferðin var prýðilega vel heppnuð, þrátt fyrir leiðinlegt veður og ekkert skyggni. Hún reyndi á þolrif þeirra sem drógu púlku, reyndi á stöðugleika í vindhviðum, úthald, hælsærisplástra og ýmislegt fleira.
– Elísabet og Ásdís