Greinasafn eftir: stjorn

Nýliðakynningar 2014

Hefur þú áhuga á að starfa með sterkri björgunarsveit og vilt kynnast fólki sem hefur áhuga á útivist og öðru sem tengist björgunarmálum?

Nýliðaprógram Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verður kynnt á tveimur fundum á næstunni. 28. ágúst og 1. september klukkan 20:00. Fundirnir verða í húsnæði FBSR við Flugvallaveg (milli Hertz og Hótel Natura).

Kort á ja.is140819-FBR-AD-900x900_V1

Inntaka nýrra félaga

Á aðalfundi þann 20 maí sl. gengu til liðs við sveitina 14 nýir félagar þ.e.a.s. hópur þeirra nýliða sem10348705_10204071573209184_1464321577913668109_o lokið hefur sínu öðru ári í nýliðaþjálfuninni.

Þessi öflugi hópur er:

  • Arianne Gaehwiller
  • Ásdís Sveinsdóttir
  • Bjartur Týr Ólafsson
  • Egill Júlíusson
  • Emily Lethbrigde
  • Grétar Guðmundsson
  • Guðmundur Jóhannesson
  • Haukur Elís sigfússon
  • Hákon Gíslason
  • Illugi Örvar Sólveigarson
  • Jón Trausti Bjarnason
  • Karl Birkir Flosason
  • Októvía Edda Gunnarsdóttir
  • Unnur Eir Arnardóttir

Við bjóðum þau hjartanlega velkomin.

Ný stjórn tekur til starfa

fbsrÁ aðalfundi FBSR þann 20. maí var ný stjórn kosin sem mun starfa næsta starfsár. Jóhannes Ingi Kolbeinsson var endurkjörinn formaður og þá var Kristbjörg Pálsdóttir endurkjörin í stjórnina til tveggja ára. Jón Smári Jónsson var auk hennar kosinn til tveggja ára og þau Björn Víkingur Ágústsson og Margrét Aðalsteinsdóttir voru kosin varamenn til eins árs. Fyrir í stjórn voru þeir Þorsteinn Ásgrímsson og Björn Jóhann Gunnarsson, en þeir voru á síðasta ári kosnir til tveggja ára.

Fyrsti stjórnarfundur var haldinn þriðjudaginn 27. maí og skipti þá stjórn með sér verkum. Engar breytingar voru gerðar á hlutverkum þeirra sem fyrir voru í stjórn, en Jón Smári tók við meðstjórnendahlutverkinu. Frekari upplýsingar um stjórn, hlutverk og sviðstjóra má sjá á þessari síðu.

Fundargerð aðalfundar og fyrsta stjórnarfundar munu koma inn á d4H fljótlega.

fbsrNæstkomandi þriðjudag, 20. maí, verður aðalfundur FBSR haldinn í húsnæðis félagsins við Flugvallarveg kl 20:00. Utan hefðbundinna aðalfundarstarfa verða nýliðar sem hafa gengið í gegnum prógramm síðustu tveggja ára teknir inn sem fullgildir meðlimir og þá verður kvennadeildin með kaffi og kökur sem endranær.

Stjórn mun leggja fram nokkrar lagabreytingar, en nánari upplýsingar hafa verið sendar bæði í fréttabréfi og pósti. Þá fer fram kosning á formanni, tveimur meðstjórnendum og tveimur varamönnum í stjórn.

Stjórn hvetur alla meðlimi til að mæta.

B1 í Tindfjöll

Tíu nýliðar í B1 fóru í Tindfjöll helgina 4.-7. apríl.  Fylgdarliðið voru harðgerir jaxlar af fjalla-og bílasviði.  Á föstudagskvöldi var tjaldhópunum hent út á handahófskenndum stöðum í Fljótshlíðinni með kort og áttavita og voru allir komnir á áfangastað um kl. 3.  Göngufærið síðari hluta göngunnar var ekkert til að hrópa húrra yfir, drulla, bleyta og snjór.  Nýliðunum var boðið upp á soðið vatn áður en skriðið var inn í tjald.

Mynd: Stefán Þórarinsson

Mynd: Stefán Þórarinsson

Plan laugardagsins var að fara á Ými og Ýmu á Tindfjallajökli.  Lagt var af stað á laugardagsmorgni en okkur miðaði frekar hægt, töluverður snjór og farið að hvessa.  Þegar komið var að Saxa, við rætur Tindfjallajökuls, ákváðu fararstjórarnir að snúa við vegna veðurs.  Fengum þó að festa á okkur brodda og í línu og prílaði helmingur hópsins upp á Haka áður en haldið var til baka.  Þegar komið var að Ísalp skálanum hafði einn úr hópnum „fótbrotnað“.  Nýliðarnir þurftu að hlúa að honum og koma heilum og höldnum niður að gamla FBSR skála.  Að æfingu lokinni biðu okkar grillaðar pylsur í tugatali, bornar fram á bleikum Hello Kitty diskum!  Það eina sem skyggði á daginn var að eitt tjald inngenginna, með hluta af innbúi, fauk í rokinu og fannst ekki aftur þessa helgi.

Mynd: Stefán Þórarinsson

Mynd: Stefán Þórarinsson

Allt of snemma á sunnudagsmorgni vorum við vakin upp með látum.  Skömmu síðar hófst æfing í snjóflóðaleit.  Að henni lokinni var borðað, pakkað saman og rölt af stað niður í Fljótshlíð.  Markmið göngunnar var að komast þurrum fótum niður.  Gangan gekk hratt og vel og á leiðarenda fengu tjaldhóparnir að keppa sín á milli í æsispennandi tímatöku!  Verkefnið var að tjalda, sjóða 1L af vatni og koma sér inn í tjald og ofan í svefnpoka.  Tjaldhópur 1 (Guðjón, Sveinbjörn, Þorkell) sigraði naumlega í fyrstu umferð á 11 mínútum.  Í annarri umferð átti einungis að tjalda og sigraði þá tjaldhópur 2 (Elísabet, Franz, Kristveig, Svana) örugglega á tímanum 5:25.  Tjaldhópur 3 (Björgvin, Helena, Linda) hafa eitthvað að stefna að.  Lagt var af stað í bæinn en eftir smá akstur komum við að bíl utan vegar frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar.  Hófst þá lærdómsrík skyndihjálparæfing sem var síðasta æfing helgarinnar.

Mynd: Stefán Þórarinsson

Mynd: Stefán Þórarinsson

– Elísabet Vilmarsdóttir

Gönguskíðaferð í Landmannalaugar

Hin margrómaða gönguskíðaferð í Landmannalaugar var farin helgina 7-9. mars. Að þessu sinni fóru allir saman en um 50 manns voru skráðir í ferðina. Flestir gengu inn í Landmannalaugar á gönguskíðum en jeppar og vélsleðar voru einnig til taks. Jepparnir þurftu moka sig lausa nokkrum sinnum enda snjóþungt.

Ferðin hófst við Sigöldu rétt fyrir miðnætti á föstudagskvöldi. Gengið var í fínasta veðri undir stjörnubjörtum himni að Dyngjuskarði. Veðurspá laugardags lofaði ekki góðu (stormviðvörun) og var því ákveðið að ganga um nóttina þar til menn yrðu eitthvað „undarlegir“. Eftir tæplega fjögurra tíma göngu var komið að Dyngjuskarði. Tjaldbúðum var komið upp og reynt að ná einhverjum svefni. Heyrst hefur að lengsti lúrinn hafi varað í tvo tíma.

Mynd: Dana Ježková

Mynd: Dana Ježková

Á laugardagsmorgni var farið að hvessa og átti eingöngu eftir að bæta í vind. Fengum él sem varð að slyddu þegar leið á daginn. Skyggni var ekkert alla dagleiðina og þurfti að nota ímyndunaraflið til að sjá fyrir sér náttúrufegurðina. Það var vonlaust að finna skjól til að snæða hádegismat svo að hópurinn gróf sig í fönn í klettaskarði. Upp úr hádegi voru vindhviðurnar orðnar ansi öflugar og felldu mann og annan. Ein hviðan var sérstaklega öflug og felldi alla, nema fjóra, í einu vetfangi. Ferðinni miðaði hægt en hópurinn náði inn í Landmannalaugar fyrir kvöldmat. Frá skálanum barst ómótstæðilegur ilmur af grilluðu lambakjöti en slegið var í sameiginlegan kvöldverð sem nokkrir inngengnir sáu um. Hópurinn sló upp tjaldbúðum við skálann og barðist við mikla munnvatnsframleiðslu. Eftir dýrindis kvöldmat fóru þeir hörðustu í heitu laugina, með glimmer baðbombu!

Mynd: Dana Ježková

Mynd: Dana Ježková

Sunnudagsmorgun hófst á því að trítla yfir vatnslitla og volga á. Flestir bleyttu skóna en nokkrir höfðu vit á því að fara berfættir yfir. Þegar líða tók á daginn voru einhverjir orðnir sárfættir og vélsleðarnir tilbúnir að sækja fólk og farangur. Um hádegi glitti í himininn og svo brast á með blíðu og góðu skyggni í hálftíma. Ferðin gekk vel og fórum við yfir álíka vegalengd og hina tvo dagana samanlagt. Við Frostastaðavatn fór efsta snjóalagið að falla niður með tilheyrandi brestum þegar gönguskíðahópurinn fór yfir. Í lok dags var svo fagnað þegar sást í rútuna sem beið eftir okkur.

Ferðin var prýðilega vel heppnuð, þrátt fyrir leiðinlegt veður og ekkert skyggni. Hún reyndi á þolrif þeirra sem drógu púlku, reyndi á stöðugleika í vindhviðum, úthald, hælsærisplástra og ýmislegt fleira.

Mynd: David Karnå

Mynd: David Karnå

– Elísabet og Ásdís

Gönguskíða-nýliðaferð á Tvídægru

Nýliðahóparnir B1 og B2 héldu í fyrstu sameiginlegu ferðina helgina 21.-23. febrúar.  Lagt var af stað skammt  norður af „horninu“ á Holtavörðuheiði í hæglætisveðri.  Eftir smávægilegt strætóbras ákvað gönguskíðafólk að halda af stað í ferðina.  Komið var að skálanum við Skútagil á þriðja tímanum um nóttina.  Nýliðunum var boðin gisting í skálanum sem flestir þáðu en nokkrir úr B1 kusu tjaldið fram yfir skálann.

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Laugardagsmorgun hófst með snjóbræðslu fyrir daginn og var síðan haldið í vesturátt að Krókavatnsskála.  Hádegisverður var snæddur og hælar plástraðir í skálanum.  Var svo haldið í SSV-átt, að Kjarrá, í meðvindi og sól.  Ferðinni miðaði vel, svo vel að fararstjórar settu upp óvænta björgunaræfingu fyrir nýliðana á Krókavatni.  Eftir vel heppnaða æfingu var haldið áfram að Kjarrá.  Aftur var sett upp björgunaræfing á leiðinni og tveir nýliðar dregnir af hraustum mönnum um 3-4 km vegalengd á púlkum.

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Undir sólsetur var tjaldbúðum komið upp og kvöldverður snæddur.  Um kvöldið kíkti formaður beltaflokks á okkur en hann hafði verið skipaður á bakvakt.  Nýliðarnir skriðu snemma ofan í svefnpoka og sváfu eins og ungabörn þessa nótt.

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Mynd: Elísabet Vilmarsdóttir

Sunnudagsmorgun hófst með snjóbræðslu sem gekk misvel hjá fólki.  Gasið þurfti sérstaka ást og alúð í þessu frosti.  Klukkan rúmlega 8 var hópurinn klár í göngu dagsins.  Haldið var suður í meðvindi og blíðskaparveðri eftir Hólmavatni og niður Hallkelsstaðaheiði, uns snjó fór að þrjóta.  Strætóinn beið eftir hópnum við Gilsbakka í Hvítársíðu og sá B2-liði um að aka til byggða.

Í tilefni af konudeginum fengu konurnar í hópnum frí frá frágangi og þrifum og gátu haldið örlítið fyrr heim með bros á vör.

Haukur Eggertsson og Elísabet Vilmarsdóttir

Fjallamennska á Skarðsheiði

Báðir nýliðhópar (B1 og B2) FBSR héldu á Skarðsheiði helgina 8. til 9. febrúar til að sækja námskeiðin Fjallamennska 1 og 2.  Hér eftir koma frásagnir frá hvorum hóp.

B1 á Skarðsheiði

Kjúklingarnir í B1 héldu í sína fyrstu alvöru vetrarferð 8-9. febrúar þegar þeir tóku námskeið í fjallamennsku 1. Föstudagskvöldi, 7. feb, var eytt í húsi þar sem farið var yfir grunnatriðin, liðið látið síga o.fl.
Snemma á laugardagsmorgni var haldið á Skessuhorn, nánar tiltekið í Katlana undir Skessuhorni. Það var strax hafist handa við æfingar í broddagöngu, ísaxarbremsu, göngu í línu o.fl. Ýmsar snjótryggingar voru gerðar og var flestum hægt að treysta þokkalega, fyrir utan Mars-súkkulaði og ófylltum vettling. Eitthvað var um rifið gore-tex þessa helgi en enginn felldi tár, enda búið að finna upp bætur og hið ómissandi duct-tape.
Á laugardagskvöldi var haldið partý að hætti B1. Sveinbjörn dróg upp (óáfengt) Flinstones-freyðivín og fagnaði stórafmæli. Menn hafa komist að því í vetur að það jafnast ekkert á við að halda upp á afmælið sitt á fjöllum með B1.
Bakpokarnir voru flestir þyngri en í síðustu ferðum, enda þyngri búnaður með i för. B1-liðar eru þekktir fyrir að leggja metnað í góðan mat og huggulegheit, á kostnað nokkurra gramma/kílóa og var þessi ferð engin undantekning.
Það kom í ljós á þessu námskeiði að uppáhalds litur B1 er grænn! „Heiða og hrútarnir“ héldu fast í einu grænu linuna á laugardegi og byrjun sunnudags en töpuðu henni til „Stebba og stelpnanna“, þegar þær sáu leik á borði og gripu langþráðu grænu línuna. Þessi barátta um grænu línuna skapaði töluverða frústrasjón í hita leiksins en gleymdist um leið og línuleiknum lauk. „Logi og lýðurinn“ er grunaður um að vera haldinn litblindu.

skardsheidi-b1

Stebbi og stelpurnar. Mynd: Lilja Steinunn Jónsdóttir

Það var mál manna að námskeiðið hefði heppnast prýðilega undir leiðsögn góðra manna/kvenna. Greinilega vant fólk á ferð sem sá um kennslu. B1 hlakkar mikið til næstu fjallaferða!

Fyrir hönd B1, Elísabet Vilmarsdottir

B2 á Skessuhorn

Snemma að morgni laugardagsins 8. febrúar 2014 mættu nýliðar FBSR ásamt vel völdum inngengnum á Flugvallarveginn, hlóðu bakpokum og sér sjálfum inn í FBSR 7 og héldu af stað út í myrkrið. Áfangastaðurinn var Skarðsheiði hvar ætlunin var að fara Norðausturleiðina á Skessuhorn. 

Eftir um klukkustundarlanga keyrslu var numið staðar við bæinn Horn og arkað af stað upp á heiðina. Gengið var að Kötlum hvar tjöld, svefnpokar og annar útilegubúnaður var grafinn niður og þegar allir voru búnir að setja á sig broddana, reyra hjálmana, binda sig í línu og munda ísaxirnar var haldið af stað upp Skessuna.

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Kári Hreinsson

Nýliðalínurnar voru þrjár og fyrir þeim gengu risaelðurnar Guðjón Örn og Óli Haukur auk Jóns Smára nýliðaþjálfara og einnig voru tvær línur inngenginna með í för. Eftir að hafa gengið upp norðurhlíðina um hríð kom að því að klífa fyrsta haftið. Tryggingar voru settar niður og haldið af stað og í raun ekki stoppað fyrr en tindinum var náð, um 4-5 klst síðar. Prílið tók í á köflum og óhætt að segja að lærdómurinn hafi verið mikill hjá nýliðunum, a.m.k. undirritaðri, en allt gekk þetta áfallalaust fyrir sig og var alveg þrælskemmtilegt. Veðrið var ekki með besta móti, lágskýjað, strekkingur og úrkoma á köflum svo útsýnið var því miður ekki upp á marga fiska. Því var stoppað stutt á toppnum og haldið af stað gangandi niður hrygginn í suðurátt. Töluvert af nýföllnum snjó var yfir öllu og því nokkur snjóflóðahætta og haga þurfti niðurferðinni eftir því. Hún gekk þó eins og í sögu og allir komust klakklaust niður í Katla þar sem tjöldum var slegið upp og magar fylltir fyrir svefninn.

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Kári Hreinsson

Mynd: Arianne Gaehwiller

Toppi náð. Mynd: Arianne Gaehwiller

Sunnudagsmorgunn rann upp bjartur og fagur og þegar búið var að matast og taka niður tjöld var aftur haldið að hlíðum Skessurnar þar sem risaeðlurnar, Jón Smári og Matti skratti voru með kennslu í að að gera snjó- og bergtryggingar. Einnig fengum nýliðar að spreyta sig í að leiða línu upp hlíð, finna staði fyrir og setja niður tryggingar og síga svo niður að því loknu.

Mynd: Arianne Gaehwiller

Hangið í bergtryggingum. Mynd: Arianne Gaehwiller

Um kl 15 var svo haldið af stað niður af heiðinni þar sem FBSR 7 var með áætlaðan brottfarartíma kl 16. Glaðir og reifir B2 liðar sáu sér gott til glóðarinnar að vera mættir tímanlega í rútuna en þegar nokkur hundruð metrar voru eftir var tilkynnt að Egill B2 liði hefði fótbrotnað á báðum fótum og það þyrfti að undirbúa hann fyrir flutning. Til að forðast allan misskilning skal það tekið fram að þetta var spuni frá Matta skratta – Egill kenndi sér einskis meins. SAM spelkurnar og Saga skráning voru rifnar fram og ansi skrautlegar börur útbúnar úr ísöxum og snjópollum. Á þeim var Egill borinn að rútunni og um kl 17 renndi FBSR 7 af stað til höfuðborgarinnar.

Fyrir hönd B2, Ásdís Sveinsdóttir

Miðsvetrar fundur

Næstkomandi miðvikudag, 12. febrúar, verður haldinn miðsvetrar fundur niðri á Flugvallarvegi. Allir meðlimir eru hvattir til að mæta, en farið verður yfir nýlegar breytingar í bílamálum, dagskrá komandi mánaða og fleira. Fundurinn hefst kl 20:00 og verður kvennadeildin með veitingar í hléi. Kökugjaldið er að venju 1500 krónur. Nánari upplýsingar á d4H.

Reykjavíkurborg styrkir björgunarsveitir í Reykjavík

Jón Gnarr, borgarstjóri og fulltrúar björgunarsveita í Reykjavík undirrituðu í dag styrktarsamning. Björgunarsveitirnar sem um ræðir eru Björgunarsveitin Ársæll, Björgunarsveitin Kjölur, Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík og Hjálparsveit skáta í Reykjavík.

Samningurinn er til þriggja ára og mun Reykjavíkurborg styrkja björgunarsveitirnar um 10 milljónir árlega til að styðja við rekstur á samningstímanum. Samtals nemur styrk fjárhæðin 30 milljónum króna og er hún greidd óskipt til styrkþega og skulu þeir sjá um að skipta styrknum á milli sín skv. sérstöku samkomulagi þar um.

Jón Gnarr, borgarstjóri, sagði við undirritun samningsins í dag að það væri afar mikilvægt að styðja við bakið á björgunarsveitunum. Liðsmenn sveitanna séu boðnir og búnir að leggja sjálfan sig í hættu til þess að koma öðrum til bjargar og það væri bæði aðdáunarvert og þakkarvert.

Meðfylgjandi er mynd sem tekin var að lokinni undirritun í dag. Frá vinstri: Haukur Harðarsson, sveitarforingi hjá Hjálparsveit skáta, Þorsteinn Ásgrímsson Melén, Flugjbjörgunarsveitinni í Reykjavík, Jón Gnarr borgarstjóri, Hrund Jörundsdóttir, formaður Björgunarsveitarinnar Ársæls og Brynjar Már Bjarnason, formaður Björgunarsveitarinnar Kjalar.

Undirskrift Bjorgunarsveita Reykjavikur 3