Greinasafn eftir: stjorn

Nýliðaferð í Tindfjöll, janúar 2005

Hér koma nokkrar myndir af B1 hópnum sem Matti Zig tók í Tindfjöllum um helgina 21. til 23. janúar 2005. Hópurinn ætlaði á skíðum upp á Ými og Ýmu en þoka hindraði för. Því var ákveðið að nota tímann vel og taka gott verklegt námskeið í snjóflóðaleit. Hópurinn gisti í snjóhúsum og varð þetta því alveg prýðis fjallamennskunámskeið.

 

Tækjaferð í Nýjadal 6-8 feb 2004

Þann 6.feb lögðu vaskir tækjaflubbar í ferð upp í Nýjadal.

Aðfaranótt laugardags var gist í Áfángagili, Laugardaginn var brunað upp að Nýjadal og Sunnadaginn alla  leið tilbaka í bæinn.

Komum niðrí sveit um 23:30.

Þessa helgi var nístíngskuldi sem endurspeglaðist í þvílíku harðfenni og algerlega óþjappanlegum foksnjó (íslensku púðri).

Þó snjórinn væri ekki djúpur þá reyndist færið jeppum svo erfitt að snjóbíllinn með sinn 15Km/klst jafnan meðalhraða var klukkustund á undan jeppunum inn í Nýjadal eða um 35 km.

Snjóbíllinn stóð sig því afar vel og náði að hrista af undirrituðum öllum pælingum um að hverfa frá Snjóbíl.

Dekkin héldust undir en ekki var laust við að smávægileg rafmagns vandamál héldu snjóbílamönnum í formi

 

„“Le Fimm í Chamm““ – Frakklandsferð október 2003

“Hvar er Víðir?” spurðu Atli, Maggi og Bjarni einum rómi er þeir hittu okkur Skúla með kryppling í poka og glas í hendi á Leifsstöð klukkan hálf sjö um morguninn. Fyrst Víðir komst ekki með var eðlilegt að ætla að við Skúli hefðum farið umsvifalaust á barinn til að drekkja sorgum okkar. Aðdragandinn var reyndar dramatískur. Víðir mætti klukkan 05.15 um morguninn út á Loftleiðir en í stað þess að kaupa sér miða með rútunni eins og við hinir studdi hann annarri hendi við bilað bakið en þurrkaði tárin með hinni. Síðar fréttum við að hann hefði ekið á eftir rútunni suður í Straumsvík og enn síðar játaði hann að hafa verið með dótið í bílnum! Við nöguðum okkur í handarbökin fyrir að hafa ekki hvatt hann meira til fararinnar. Nú þegar ævintýrinu er lokið er ekki annað að segja en… “Víðir…þú hefðir!”

Í stuttu máli var ferðin í alla staði mjög góð. Við náðum að halda okkur á mottunni og engin gerði sig sekan um að ófrægja orðspor sveitarinnar eða setja svartan blett á hið erlenda samstarf. Og eftir að hafa kynnst betur ferðafélögum mínum þessa sjö daga má það heita furðu góður árangur svo ekki sé meira sagt. Er þá ekki tilganginum náð eða er hægt að gera meiri kröfur?

Í samanburði við aðrar utanferðir á vegum félagsins held ég að við höfum verið eins og stúlknakór á leið á kóramót! Við vorum snyrtilegir, stilltir og auðmjúkir í alla staði og hvar sem við fórum bárum við Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík fagurt vitni. Mér finnst rétt að hafa sérstaklega orð á þessu vegna þess hve ríka áherslu Leifur lagði á téð atriði daginn áður en ég hélt utan.

Á brautarstöðinni í Annecy tók á móti okkur nokkurs konar Einar Torfi þeirra Pompier-manna (slökkviliðsmanna). Nú vildi ég segja að hann hefði verið snaggaralegur og hress náungi en læt það vera því hann var fyrst og fremst ábyggilegur og ljóst að hann vissi hvað hann átti að gera við okkur, en það var þægileg tilfinning eftir allt slarkið sem fylgir ferðalagi í 12 tíma. Reyndar heitir hann Stephan og fór með okkur á veitingahús þetta fyrsta kvöld á franskri grund. Við vorum glorhungraðir en þjónustaðir af franskri blómarós svo maturinn var aukaatriði!

Mettir og sælir fórum við í Skógarhlíð þeirra Pompier-manna. Þar fengum við úthlutað herbergjum með rúmum. Frönsk sól hneig til viðar eins og heima, heldur fyrr ef eitthvað var; veðrið gott og spáin skapleg fyrir næstu daga sem áttu eftir að verða viðburðaríkir.

Þegar ég vaknaði morguninn eftir krossbrá mér eins og venjulega fyrstu nóttina að heiman, í öðru rúmi en mínu eigin. Ekki dró úr sjokkinu að sjá fúlskeggjaðan mann við hlið sér en eftir nokkur augnablik áttaði ég mig á að þetta var túlkurinn! Já, Í hópnum hafði hver og einn ákveðnu hlutverki að gegna og saman vorum við eins og samstillt strengjasveit eða öllu heldur eins og amaba sem maður sá í víðsjá í skóla, nema þessi var stundum með fimm höfuð. Skúli Magg var tekinn með af því að hann kunni frönsku.

“En til Chamonix…þangað hef ég aldrei komið”!

Annecy er fallegur bær um 90 km vestan við Chamonix. Þennan dag ókum við til “Cham” og þegar nær dró mátti auðveldlega dæma af upphrópunum mínum hversu rennandi blautur ég var á bak við eyrun. Í Cham tókum við lest upp í skála ofan Mer de Glace skriðjökulsins sem ekki er ósvipaður frændum sínum fyrir austan fjall. Vegna jökulhops á síðustu öld máttum við lækka okkur, um það bil 300 metra, eftir járnstigum sem boltaðir höfðu verið í bergið alla leið niður á jökulsporðinn.

Þrátt fyrir að vera uppfullir af vissu um eigið ágæti og hæfileika í fjallamennsku varð okkur fljótlega ljóst að þá staðreynd bárum við ekki utan á okkur. Til að byrja með var farið í grunnatriði jöklagöngu og broddatækni. Stórkallalegur merkilegheitasvipur fimmmenninganna frá landi ísa tók fljótlega breytingum þegar gestgjafar okkar hlupu á flatfótstækni, kenndri við Charlet, upp allt að 85° brekkur. Aðdáun okkar var alger en við það sat því fæstir okkar áttu gott með að leika þetta eftir. Nú tók við sýnikennsla og endalausar pælingar í smáatriðum tengdum því að ná manni upp úr sprungu. Fjölmargar aðferðir voru skeggræddar en þegar alþekktur misskilningur þjóðanna tveggja um hvað hver og einn hinna fjölmörgu prússikhnúta nefnist misstu sumir þráðinn. Það kom þó ekki að sök því útsýnið af jöklinum var stórfenglegt með Dru uppi og Grand Jorases fyrir enda hans…ekki ósvipað Svínafellsjökli og Hrútsfjallstindum bara stærra. Þennan dag kom sér vel að hafa tekið Atla með því íðorðasafn hans í fjallabjörgun náði langt út fyrir reynsluheim fransmannanna…allavega íslenska íðorðasafnið!

Eftir þurra langloku með osti, (Það þarf að kenna fransmönnum að baka mjúkt og gott brauð)”, gerðust hinir frönsku gestgjafar okkar brattir og vildu klifra. Fimm tóku þessu fagnandi en litu í kringum sig án þess að mögulegt væri að fylgja fagnaðarlátunum eftir. “Hvar?” “Bara hér” sögðu þeir og bentu niðr í sprungu. “Hmmm“. 60° brekkan höfðaði lítið til Fimm sem bentu í hina áttina á 10 metra háan vegg ekki langt frá sem slútti eilítið yfir sig í bláendann. “Hvað með þennan?” Franska heimsveldið í fjallamennsku riðaði yfir þessum gorgeir aðkomumannanna! Mhedi leit á Philip og þeir báðir á Franc sem sagði “Ef þið treystið ykkur getið þið svo sem reynt þetta”. Skemmst er frá því að segja að Fimm græjuðu gírinn, hituðu upp og “flössuðu” fésið.

Þetta var 27. september 2003, dagurinn sem Fimm, fulltrúar Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, stimpluðu sig inn í franska fjallamennsku…þannig leið okkur að minnsta kosti.

Annan daginn rigndi en ekki sló það heimamenn út af laginu, því þá var farið í Canyoning” sem helst kann að líkjast því sem hér hefur verið nefnt fossa-sig. Þetta er vinsælt áhugamál og á svæðinu í kring mátti velja úr tæplega 60 miserfiðum gljúfrum. Frammistaða okkar á jöklinum daginn áður virtist ekki hafa sannfært þá um yfirburðagetu hópsins því gljúfrið sem varð fyrir valinu var gráðað D í alpakerfinu. Gljúfragangan kom þó öllum skemmtilega á óvart enda allt að 60 metra löng sig og 10-12 metra stökk ofan í hyli…alveg nóg til að byrja með!

Þá tók við alpaganga að hætti innfæddra. Þennan dag var fenginn þaulvanur fjallaleiðsögumaður sem ekki hafði farið sjaldnar en 50 sinnum á hátind Mt. Blanc og yfir 30 sinnum á fyrirhugaðan tind okkar Dome de Miage, sem var verkefni næstu tveggja daga. Christophe hét garpurinn og sór útlit hans og holning sig vel í ætt við fótfrátt kyn franskra fjallamanna. Með honum var Mhedi, heldur hærri til hnésins og í tindasöfnun fyrir leiðsögumannaskólann (ENSA) í Cham, og Benois “slökkviliðsstjórinn” í litla fjallabænum, Contamines, sem við lögðum upp frá.

Þeir sem komið hafa í alpana vita að flatlendi er þar af skornum skammti og að síst er bruðlað með það í fjöllunum. Þetta vissi ég hins vegar ekki og gerði mér litla grein fyrir því sem beið í þokunni. Christophe gekk rösklega af stað og Fimm á eftir. Ég horfði á Christophe og hugsaði með mér að hann væri hálfviti, í gore-tex buxum í 20°C hita. Uppeldi Fimm í Flugbjörgunarsveitinni til mismargra ára hafði kennt okkur eitt. Við erum bestir og látum engan hlaupa á undan okkur. Við skokkuðum því allir fast á hæla Christophe, hins reynda meistara. Hiti og sviti boguðu af í fyrstu beygju en ekkert var eftir gefið enda slakaði forystusauðurinn lítið á. Eftir eins og hálfs tíma sprettgöngu og 800 hæðarmetra stoppaði Christof og settist á bekk. Ég lagðist hins vegar á grúfu þar sem lítið bar á meðan svitaholurnar voru að lokast! Þegar ég hafði náð andanum ákvað ég að nauðsynlegt væri að kenna þessari fjallageit góðan íslenskan ferðasið, sem ég hef haldið í heiðri á ferðum mínum á Íslandi. “Hægt af stað farið hratt í hlað komið”. Það eru mín einkunnarorð. Ég gekk til Christofs sem tók út úr sér sígarettuna. Mér var heitt í hamsi og fór yfir línuna mína í huganum en þá gekk Skúli á milli okkar og sagði “slappaðu af Gauti…þeir fara alltaf svona RÓLEGA af stað”!

Þremur tímum ofar þynntist þokan en einnig loftið og við sáum glitta í fyrstu tindana hátt fyrir ofan okkur. Þetta var stórkostlegt og lífgaði sannarlega andann auma. Á næsta hrygg sá ég síðan skálann Refuge Des Conscrits þar sem hann stóð eins og meitlaður út úr berginu ofan við skriðjökulinn. Það var mögnuð sjón því þótt ég vissi að við stefndum í skála datt mér aldrei í hug að hann væri á þvílíkum stað. Þetta er nýlegur skáli með öllum lífsins þægindum… og bjór (m.a. óáfengum). Að loknum þríréttuðum kvöldverði fórum við út á svalir og virtum fjallahringinn fyrir okkur. Það var stjörnubjart og stillt sem vissulega gaf fögur fyrirheit um veður morgundagsins. 

Klukkan 05 morguninn eftir var síðbúið alpastart. Ég hef ferðast töluvert með Guðjóni Marteins og er orðinn vanur að sjá undir iljarnar á honum þegar vekjaraklukkan hringir! Christophe var hinsvegar Guðjón í öðru veldi. Nú átti greinilega að taka okkur í bólinu og þegar ég var búinn að opna augun var Christophe ferðbúinn. Ég er alltaf tilbúinn að leggja töluvert á mig til að kynnast menningu framandi þjóða. Í þessu tilliti er ég við öllu búinn þegar kemur að mat. En að mér skildi verið boðið upp á Kellogs Kornflakes með mjólk þarna uppi í fjöllunum kemur mér enn á óvart. Hvar var baguettið og espresso-bollinn, Rochefortinn og Emmentalerinn…er hann ekki örugglega til? Um einum og hálfum tíma síðar stigum við á jökulinn í um 2800 m hæð og þá þótti Christophe tímabært að binda sig í línu. Þegar Skúli spurði Christophe, af sinni alkunnu hógværð, hvort hann vildi að Íslendingarnir væru e.t.v. saman í línu brást hann hinn versti við og sagði að hann hefði nú ekki verið að þvælast þetta ef hann hefði talið að við gætum þetta sjálfir! Skúla setti hljóðan…en ég skil hvernig honum leið…því eftir þetta strekktist aldrei á línunni á milli Christofs, hans og Bjarna.

Eftir því sem dagsbirtan jókst og við hækkuðum flugið komu fleiri og fleiri tindar í ljós og fljótlega varð okkur ljóst hvert stefndi. Veðrið var eins og best verður á kosið; svolítið frost og alger stilla. 10-15 sentimetra nýsnævi var yfir öllu og eina “ruslið” sem varð á vegi okkar voru þotur háloftanna. Á “rólegum” hraða þræddum við krosssprunginn og úfinn skriðjökulinn sem liggur norður í átt að Mont Blanc, á “rólegum” hraða. Fjallasalurinn stækkaði og varð allt að því yfirþyrmandi. Nú var ákveðið að skipta um troðara og Mhedi tók af skarið. Ég vissi sem var að nú yrði hraðinn aukinn svo ég seildist í mittistöskuna eftir Marsi enda tæpir þrír tímar frá því að við lögðum af stað og ekkert verið stoppað á leiðinni. Í því sem ég er að taka utan af súkkulaðinu hreytir Christophe einhverju í mig sem túlkurinn þýðir “Hann segir að það sé enginn tími til að borða núna”! Ég horfði djúpt í augun á Christophe, eins og til að segja “gerðu það!” en augnaráð hans varð til þess að mér svelgdist á súkkulaðinu. Það varð að bíða þar til Christophe þóknaðist að ég nærðist. En nú var komið að því. Mhedi var við rásmarkið og nú þurfti að sanna sig fyrir Christophe. Mhedi gaf allt í botn og það var á mörkum þess sem aldursforseti Fimm hópsins þoldi. Þegar við komum upp í skarðið undir tindinum Dômes de Miage lá Mont Blanc fyrir fótum okkar. Eitt augnablik hvarflaði hugur minn upp fjallið. Leið okkar lá hins vegar í suður upp stórkostlegan og brattan snæviþakinn hrygg sem endaði á fallegum tindi. Nú gáfust nokkrar sekúndur áður en Mhedi kippti aftur í línuna og þær notaði listamaðurinn Le petit Mac til að ná nokkrum stórkostlegum skotum og verð ég illa svikinn ef mér sjálfum á ekki eftir að bregða þar fyrir. Við stoppuðum sorglega stutt. Síðan strunsaði Christophe niður í næsta skarð og við á eftir. Ég var rétt sestur á pokann og búinn að taka upp harða brauðskorpuna með þurra ostinum þegar bónusinn kom. Christof stóð upp og tilkynnti að af því við vorum svo sprækir vildi hann endilega bæta við einum tindi í viðbót. Mig minnir að hann hafi heitið Arréte de la Bérangére. Allt er launað erfiðið og þegar upp var komið erfðum við ekki ákvörðunina við hann. Svo var farið niður…alveg niður á tún!

Fimmti dagurinn var tileinkaður öðru vinælu sporti, Via ferrata, sem ku vera ítalska og merkja járnlögð gata. Hugmyndin að þessu áhugamáli er sótt til smyglara, sjálfsagt ítalskra mafíósa, sem notuðu eitthvað í líkingu við þrep og stiga í bergið til að komast yfir fjallaskörðin! Það sem vakti þó mesta furðu okkar heimaaldra var að sportið nýtur vinsælda jafnvel meðal fólks sem mundi aldrei snerta á klettaklifri. Veggurinn sem við pjökkuðumst upp hangir um 350 metra yfir litlum bæ, reyndar yfir barnum og klifurbúð bæjarins sem að sjálfsögðu leigir allan útbúnað í þessa skemmtilegu tómstundaiðju. Svitinn sem uppferðinni fylgdi var ósvikinn og þegar upp var komið sótti að okkur mikill þorsti. Leiðin niður lá í gegnum skóg og hraðinn jókst eftir því sem nær dróg, en allt í einu stoppaði Francis henti af sér pokanum helti úr honum karabínum, spottum og trissum. Nú skildi Atli fá það sem hann hafði beðið um! Francis smellti upp dobblunarkerfi og síðan hófust samræður Atla og Francis um dobblanir. Þegar niður kom slökktu allir þorstann við hliðina á klifurbúðinni!

Vandaðri dagskrá kollega okkar lauk síðan með klassísku 8 spanna kalksteinsklifri í 2100 metra hæð í Arvis fjöllunum. Um klukkustundar gangur er að leiðunum frá skarði Col de la Columbiére en þar ku Tour de France keppnin eiga leið um. Á veginum sem liggur upp í skarðið hafa verið skráð nöfn allra þeirra sem leitt hafa hjólakeppnina í skarðinu.
Á leiðinni upp varð á vegi okkar lógó kvikmyndasamsteypunnar “Dead sheep productions” sem Le petit Mac fer fyrir 

Þennan dag klifruðu Fimm tvær leiðir. Erfiðasta spönnin var 7a en flestar á bilinu 6a – 6b við ystu mörk getu okkar. Óhætt er að fullyrða að allir hafi svitnað of mikið, nema Bjarni sem hélt uppi merki Fimm með tilþrifum þennan dag. Með þrútna fingur og bólgnar tær héldum við heim á leið. Til að undirbúa okkur fyrir hátíðarkvöldverðinn með nr.2, sem kallaði sig svo, slógum við upp partýi á húddi Land Roversins. Veisluföngin samanstóðu af reyktum Úteyjarsilungi, þrælbörnum harðfiski frá Flateyri, Emmentaler (loksins!), vínberjum, bjór og kripplingnum góða sem áður kom við sögu. Þannig kvöddum við leikfélaga okkar þennan síðasta dag, þá Marshall, Silva og Menu.

Já ferðin var góð og fjöllin há. Hinir frönsku kollegar okkar eru góðir heim að sækja og margt af þeim hægt að læra.

Við fimm sem heimsóttum Sapeurs-Pompiers að þessu sinni erum ánægðir með ferðina í alla staði. Þá urðum við varir við mikinn áhuga kollega okkar í Sapeurs-Pompiers á fyrirhugaðri ferð til Íslands og hlakkar mikið til að sýna þeim þær gjörólíku aðstæður sem mótað hafa íslenska björgunarmenn. Að lokum viljum við þakka Gerard sérstaklega fyrir að hafa komið á þessu skemmtilega samstarfi sem við vonum að verði áframhald á.

Undirritaður var aldursforsetinn í hópnum og eingöngu tekin með til að hægt væri að sýna honum alpana áður en það yrði um seinann.

Jón Gauti

 

Þórsmerkurferð hjá nýliðum 2003

Þann 20. september sl. mættu nýliðar í B1 hressir, kátir og stundvísir í fyrstu ferðina sína. Lagt var af stað kl 07:05 (ath. nýtt met í stundvísi Flubba) og var ferðinni heitið austur að Skógum þar sem átti að ganga yfir Fimmvörðuháls.

Því miður var ekki hægt að ganga Fimmvörðuhálsinn vegna veðurofsa sem gekk yfir Suðurland þessa helgi og var því gengið um í Þórsmörk. Gengið var frá Langadal upp að Rjúpnafelli og þaðan í Bása. Þegar komið var að Krossá var farið úr skóm og sokkum og vaðið yfir.

Hallbjörn varð þá hetja hópsins í u.þ.b. fimm mínútur fyrir að vera stoð og stytta ballerínunnar. En skömmu síðar bætti Doddi um betur og sýndi meistaratakta og hetjudáð er hann stökk á eftir annarri stúlku sem hafði dottið í ána.

Þegar komið var að Básum komst ballerínan ekki hjá því að veita athygli ,,teygjuæfingum’’  félaga sinna, en æfingarnar áttu því miður lítið skylt við alvöru teygjuæfingar, að hennar sögn. Eftir að ballerínan tók að leiðbeina þessum aðilum um grunnþætti upphitunar og teygjuæfinga hefur markmiðið nú verið sett hátt: Að gera B1 að liðugasta flokki sveitarinnar, – og harðsperrulausan, – hvað sem á reynir.

Flest úr þessari ferð bendir til þess að nýliðarnir lofi góðu, þrátt fyrir nýgræðingshátt og ýmis undarlegheit eins og nuddolíu lúxus sem Óli 86  (Vodafone strákurinn) sá um, og upphitaða Beairnais-sósu sem virðist hafa verið löguð á fimm stjörnu hóteli.

Á sunnudeginum var svo gengið á Útigangshöfða og að sjálfsögðu endað á Pizza 67 um kvöldið þar sem menn fengu sér EKKI grænmetispizzu .

 

Steinunn Anna Kjartansdóttir B1

Fallhlífanámskeið, maí 2003

Vorið 2003, nánar tiltekið í maí hélt fallhlífahópur FBSR rúmlega vikunámskeið. 

Til þess að komast á námskeiðið þurfti að ljúka þrekprófi sem byggist á þrekprófum dönsku fallhlífasveitanna.  Námskeiðið hófst með bóklegum hluta þar sem farið var vel í gegn um öll öryggisatriði, uppbyggingu fallhlífarinnar ásamt fleiri atriðum.  Fyrri hluti verklega námskeiðsins fólst í þjálfun í PLF eða Parachute landing fall sem útleggst á íslensku sem lendingin.  Mjög mikilvægt er að lendingin sé vel heppnuð því stokkið er í kringlóttum fallhlífum en þær eru eingöngu notaðar í hernaðar- og björgunarskyni.  Lending á kringlóttri fallhlíf er því mun harkalegri en á ferkantaðri fallhlíf.
Seinni hluti námskeiðsins fólst í stökkvum og fleiri stökkvum og verður að segja að veðurguðirnir hafi verið einstaklega blíðir því vel gekk að stökkva og að námskeiðinu loknu hafði verið stokkið í nokkur tugi skipta.
Ólafur Kristján (Jack Bauer) var að endurnýja kynni sín af fallhlífastökki og sótti námskeiðið, hann smellti nokkrum myndum af sér og öðrum og má sjá þær hér neðar.

 

Háasúla, janúar 2003

Í frostleysinu í janúar skelltum við okkur á Háusúlu. Ákveðið var að fara frekar óhefðbundna leið, þ.e. norðurhlíðina. Þeir sem fóru voru Elli, Kirsty, Haukur, Þorsteinn og undirritaður. Myndirnar sem eru í þessari grein tóku Þorsteinn (ekki í FBSR) og Haukur.

Lagt var af stað mjög snemma og keyrt austur á Þingvöll og svo farið upp Kaldadalinn. Bílnum var lagt og við héldu af stað á tveimur jafnfljótum. Við fengum frábært veður, heiðskýrt og frekar kalt. Leiðin (sjá kort hér að neðan) fram og til baka er um 14 kílómetrar og því má auðveldlega ná þessu á einum degi. 

Klifrað var upp augljóst gil og þegar í það var komið þá reyndist það vera töluvert brattara en við gerðum ráð fyrir. Við fórum þá í línu og klifruðum þannig að allir klifra í einu. Sá fyrsti setur inn tryggingar en sá síðasti tekur þær út. Engin tryggingartól eru notuð við þessa aðferð. Kostirnir við þessa aðferð er að góður hópur getur náð töluverðum hraða ef klifur er samstíga. Ókosturinn er að fallið getur orðið svolítið langt. Þessi aðferð hentar því vel á auðveldum leiðum þar sem betra er að vera tryggður. Þetta kallast “Simul–climbing”.

Þetta reyndist vera frábær leið sem er örugglega ekki mjög fjölfarin því hlíðin snýr ekki að skálanum. Hún er ekki mjög erfið og hentar því óvönum í fylgd með vönum. Toppnum var náð og þaðan var útsýni ægifagurt. Niðurleiðin lá svo niður hefðbundnu leiðina á Háusúlu, en hún er eftir hrygg sem er töluvert brattur til beggja hliða. Hér fyrir neðan eru nokkrir af punktunum á myndinni (án ábyrgðar), (gráður, mín, sek (þúsundhlutar).

Guðjón Örn

 

Páskaferð FBSR 2003

Páskaferð var lengi í undirbúningi og leit framan af út fyrir mjög góða mætingu, allt upp í 26 manns.

Eftir því sem ferðin nálgaðist fækkaði nú samt áhugasömum af ýmsum ástæðum og gerðist það meira að segja að ferðin klofnaði og nýliðar fóru norður í land. Ekki verður hér sagt frá þeirra ferð….

Stefnt var á Vatnajökul, nákvæmlega í Esjufjöll. Þaðan var ætlunin að fara í Grímsvötn og síðan til baka í Jöklasel. Þar sem snjóaði lítið í vetur og upplýsingar á þann veg að ekki var ráðlagt  að fara upp Breiðamerkurjökul var ákveðið að fara á miðvikudagskvöldinu alla leið upp í Jöklasel við Skálafellsjökul.

Lagt var af stað frá húsi FBSR 16. apríl kl. 19.30. Það voru 9 röskir ferðamenn sem lögðu af stað með fullt af mat, búnað til að skíða, klifra og tjalda og síðast en ekki síst góða skapið. Þeir voru á 4 bílum: fisksalabíll með kerru og tveimum sleðum, FBSR-5, öðru nafni fallhlífahópsbíllinn „red neck”, FBSR2 (Toyota LandCruiser) og einkajeppinn hans Jóns (Toyota á 44").

Ferðalangarnir voru eftirfarandi: Jói og Arnar Már ætluðu að ferðast á sleðum, Maggi A. og Hallbjörn komu á jeppum þar sem snjóbíllinn var bilaður, Konni ætlaði að prufa með Snorra „red neck” en Snorri forfallaðist því miður á síðustu stundu, Jón S. kom með bróður sínum Bjarna á einkabíl, Andrea fór með til þess að það væri allavega ein kona með til að stjórna þessum strákum og ekki mátti vanta nýliða til að níðast á og láta þjóna sér, það var aumingja Ásgeir sem var með rifna hásin eftir skíðagönguferð.

Á leiðinni austur var stoppað á Hvolsvelli til að fá sér kvöldmat en búið var að loka eldhúsinu þegar síðustu 2 sniglabílarnir komu loksins á staðinn. Gátu þeir fengið pylsur. Á Vík var einnig stoppað til að setja bensín á bílana en sjálfsalinn virkaði ekki svo við kölluðum á umsjónarmann sem lagaði þetta. Aftur þurfti að stoppa til að setja bensín á fisksalabílinn á Freysnesi. Var nú prófuð aðferðin þar sem lofti er pumpað í tunnu og dælt síðan í tankinn með slöngu. Gekk það prýðilega, nema að mati hans Konna sem var allur ataður út í bensíni… loks var komið að afleggjaranum upp að Jöklaseli. Þaðan átti var eftir að keyra upp eftir. Bara?! Það var þykkasta þoka og rigning og  gekk mjög hægt að finna veginn. Þurfti að skríða upp leiðina og tók það óralangan tíma. Bjarni var með hausinn út um hliðargluggann til að sjá eitthvað og munaði litlu í nokkur skipti að bíll færi útaf og er það ekki mjög heppilegt þar sem það er mjög bratt fram af. Í einni brekkunni var síðan ís þannig að fisksalabíllinn með kerruna og ekki á nagladekkjum komst ekki lengra og var reynt að leggja honum. Það tók góðan tíma að koma honum þannig fyrir að hann myndi ekki vera fyrir og rann hann alltaf til. Það dugði ekki annað en að setja spotta í FBSR2 og draga hann á góðan stað. Var einnig mikil rigning þetta kvöld og voru allir blautir nema Andrea sem hreyfði sig ekki undan stýrinu og lét hina um verkin.

Svo var eftir að keyra upp í skálann þar sem átti að gista. Vou menn ekki sammála um hvaða leið átti að fara og voru upplýsingar sem fengust villandi þar sem skálavörðurinn gat ekki ákveðið sig hvort beygja þyrfti til vinstri eða hægri frá veginum. Var Arnar Már með allt á hreinu og tók stjórnina loksins í sínar hendur til að koma öllum á rétta slóð. Ekki var erfitt að keyra upp að skálanum og vorum við komin í dagsbirtu um kl. 7. Fengu menn sér smá morgunmat áður en þeir lögðu sig til ca. kl. 11.

Nú hófst nýr dagur eftir annan morgunmat. Var fyllt á tankana og hleypt meira úr dekkjum og lagt fljótlega af stað eftir að hafa fengið fleiri upplýsingar um leiðina. Ásgeir var settur í það að flytja GPS punkta á milli tækja og var síðan allt tilbúið til að leggja í hann. Ekki hafði veðrið skánað þannig að það var áfram þoka en þó ekki rigning. Færið var ótrúlega gott. Miklu betra en menn áttu von á og gekk allt eftir planinu. Meira að segja veðrið lagaðist þannig að það fékkst stórkostlegt útsýni á Karl og Kerlingu. Þar var farið niður brekku og var skipst á að keyra. Halli yfirgaf Redneck til að sýna kúnstirnar sínar á skíðum og tókst Konna þá að affelga bílinn……

Loksins var eitthvað að gerast! Menn stukku  út og fóru að ræða málið. Bíllinn tjakkaður upp og dekkið tekið af. Það átti að reyna aðferðina sem Gummi var nýbúinn að kynnast. Moka á holu í snjó, ýta felgunni ofan í og pumpa lofti í á meðan dekkið hangir á brúnum holunnar. Konni sem þóttist vera þyngstur stóð ofan á felgunni. Ekkert gekk, alltaf lak loftið fram hjá. Andrea fór með Konna ofan á dekkið en ekki lagaðist það. Fólk klóraði sér í höfðinu. Það var stungið upp á að nota olíutunnu til að ýta jafnar á dekkið en allir voru of tregir til að taka hana út úr bílnum. Það þótti allt of mikið mál. Það endaði nú samt með því að hún var dregin út og dekkið lagt ofan á hana. Það tók ekki langan tíma þangað til það var búið að redda málinu. Veðrið var farið að lagast heilmikið og komin var sól. Sleðamennirnir komu til okkar þar sem þeir uppgötvuðu við Esjuskála að Andrea væri með lyklana að skálanum!?

Síðan var ferðinni haldið áfram. Það var greinilegt að það var seint liðið á veturinn og ekki búið að snjóa mikið. Það voru margar litlar sprungur sem við keyrðum yfir og færið frekar blautt enda var í lok dagsins búið að draga bíla fram og til baka upp úr krapapyttum.  Halli hékk aftan í bílnum en Jóni leiddist að keyra hægt og ekki þýddi að hanga aftan í hinum bílunum sem höfðu nóg að gera með að halda sér á ferð. Þannig að hann gafst bráðum upp á þessu.

Á meðan greip Andrea tækifærið til að prufukeyra Redneck. Eins gott að Snorri frétti ekki af því þar sem honum finnst konur ekki hafa erindi í að keyra bíl heldur að halda sig frekar í eldhúsi…

Eftir langa keyrslu tókst Halla að affelga Redneck. Það var í miklum hliðarhalla og var klukkan orðin það margt að fólk vildi bíða til morguns með að bjarga þessu. Jói og Arnar voru á fullu að keyra dót og fólk upp að skála sem var rétt hjá en upp „snarbratta” brekku eins og sumir letingjar vildu kalla það. Allir voru fegnir og var nú lagt í eldamennsku og sögustund.

 Á föstudaginn langa fór fólk seint á fætur og smíðuð voru einhver plön, hvað ætti að gera þennan dag. Sleðakarlarnir vildu fara upp í Grímsvötn. Jeppafólkið átti eftir að koma dekkinu á aftur og var ætlunin að keyra áleiðis upp í Grímsvötn með Redneck til að stytta ferðina daginn eftir. Það átti nú strax að nota nýju aðferðina til að setja loftið í dekkið en ekki gekk það eftir. Það tók nokkrar klukkustundir að koma blessuðu dekkinu á. Þá fannst mönnum nokkuð vonlaust að komast eitthvað á Redneck í þessu blauta færi sem lagaðist ekki í sólskininu sem komst í gegnum skýjin á köflum. Maggi og Andrea settu nú skíðin undir til að skoða umhverfið á meðan hörðustu jeppakarlarnir ætluðu að reyna að keyra að skálanum.

Það er mjög skemmtilegt lón rétt hjá sem skíðagarpar fóru að skoða. Kitlaði aðeins taugarnar þegar maður skíðaði niður að því og var rifjuð upp Grænlandsferð þar sem mikið var um opið vatn. Þetta gekk allt vel og var miklu minna mál að skíða niður en á horfðist í fyrstu.  Á meðan voru jepparnir ennþá í sömu brekku, nefnilega neðst. Þegar til baka var komið var einn bíll kominn áleiðis upp fyrstu brekkuna með því að spila sig upp. Mikla tæknikunnáttu þurftu þessir strákar að nota og var ofsalega gaman hjá þeim. Kvenmaðurinn gat nú ekki skilið það og ákvað að taka læri og fleira til að fara að byrja á grillinu. Var Konni hetja þá þegar búinn að labba upp í skálann með læri og kók.

Matti í Kjötsmiðjunni var búinn að útvega læri sem voru kryddlegin. Þrjú læri sem áttu að duga fyrir 20 manns! Andrea fór í það að úrbeina það fyrsta eftir leiðbeiningum frá Matta. Það gekk ótrúlega vel með litlum svissneskum vasahníf en hún ákvað samt að láta það duga og pakka hinu lærinu með beini í álpappír. Það þriðja átti að grilla seinna í ferðinni. Rétt á meðan Konni kveikti í kolunum kom gestur, nefnilega rjúpa. En þar sem við vorum þegar með nóg af kjöti fékk hún að vera í friði. Þegar lærið var komið á, uppgötvaðist að gleymst hafði að taka meðlæti og appelsín. Fór  Andrea aðra ferð á skíðum til að ná í það þar sem jepparnir voru enn í sömu brekkunni. En þeir voru komnir fyrir ofan hana og gekk nú miklu betur þar sem hitt var næstum því flatlendi miðað við fyrstu brekkuna. Eftir var síðasta brekkan að skálanum og var komin aftur svo mikil þoka að þeir sáu ekki skálann þótt vel heyrðist í röddum. En ekki gekk það eftir að Konni og Andrea fengju að borða lærin ein. Hinir komu í tæka tíð, meira að segja sleðamennirnir skiluðu sér fyrir matinn. Þeir voru búnir að ferðast í blindþoku upp á Grímsfjall þar sem þeir hlustuðu á ævintýrasögur frá Hlyn skáta. Ekki fóru þeir í gufubað, það vantaði sætar stelpur þannig að þeir vildu frekar hitta Andreu aftur!!

Lærið smakkaðist æðislega vel og tók það ekki langan tíma fyrir níu manns að klára bæði. Síðan voru grillaðir bananar með súkkulaði og rjóma í eftirrétt. Fljótlega lögðust svo allir útaf og sofnuðu.

Þá var kominn laugardagur, 19. apríl, afmælið hennar Andreu. Hún var búin að lofa afmælisköku og var ákveðið að borða hana (kökuna, ekki Andreu) í morgunmat þar sem hópurinn mundi líklegast splittast upp. Ekki var hún lengi að baka rjómatertu með alvöru rjóma. Það tók enn minni tíma að borða hana. Svo var pakkað saman og gengið frá skálanum. Sleðamennirnir ætluðu að fara aftur upp í Jöklasel þar sem kerran og fisksalabíllinn voru skilin eftir.

Jeppaferðalangar sáu sér ekki fært annað en að fara niður Breiðamerkurjökul. Þar var jeppahópur búinn að fara daginn áður og áttum við bara að geta fylgt förunum. Hittast átti í Skaftafelli og ákveða þar hvað gera skyldi sunnudag og mánudag.

Veðrið var frábært: Glampandi sól og logn og strákarnir ekki lengi að koma sér úr að ofan. Prinsessan naut sín og mundi allt í einu af hverju hún gekk akkúrat í Flugbjörgunarsveitina; fæstar stelpur, flestir vöðvar!

Allir nutu sín að fara niður brekkuna frá skálanum, hvort sem var í flottum telemark stíl, á slöngu, á jeppa eða sleða, það var bara mjög mikið fjör!!

Færið var enn búið að þyngjast ef eitthvað var. En þar sem var keyrt niður í móti, gekk vel og gekk allt vel í dágóða stund. Það voru einhverjar sprungur sem þurfti að keyra yfir og poppaði nokkrum sinnum eitt dekk niður en gekk áfallalaust að keyra upp úr aftur. Svo versnaði bleytan og jukust krapapyttir meira og meira. Eitt skipti var FBSR-2 orðinn svo fastur að þegar reynt var að draga hann upp með Redneck, slitnaði bandið og beyglaðist afturhurðin, bílnúmerið og brotnuðu þrjú ljós. Þótti mesta mildi að enginn slasaðist.

Var Jón settur fremstur á 44 tommum. En það kom meira að segja að því að hann var lengi að komast í gegnum krapa þótt mokað væri á fullu. Reyndi síðan FBSR-2 að komast sömu leið en gekk það alls ekki og finna þurfti aðra leið sem síðan fannst góðan spotta neðar á jökli. Voru förin nú að verða ógreinilegri og týndust þau í smá stund alveg. Voru ferðalangarnir þá komnir að jökulruðningsrana sem var hægt að fylgja niður eftir jöklinum. Enn þurfti að keyra yfir sprungur og var ráðlegast að velja leiðina vel. Það gekk með prýði. Það kom sér vel að hafa Bjarna með sem bæði var búinn að baka fullt af snúðum og var með góð nef til að finna leiðina.

Loks var komið að jökulrönd. Þar var búið að vara okkur við litlu vatni og steini sem sæist ekki. Það reyndist lítið mál að keyra í gegnum vatnið og fljótlega voru jeppaferðalangar komnir niður á þjóðveg.

Nú lá á að komast í sjoppu til að kaupa kók. Á Freysnesi var maður kallaður út til að afgreiða okkur þar sem nýbúið var að loka bensínstöðinni.

Það var mikill léttir. Sérstaklega var Jói glaður yfir að hafa komist í sjoppu þar sem hann var búinn að vera neftóbakslaus í tvo daga. Hann bjargaði sér með því að nota tannstöngul til að ná síðustu ögnunum út úr dósinni og síðan  lykta af dósinni. Síðustu kílometrana á sleðanum var hann búinn að festa dósina á nefið til að lifa af!

Í Skaftafelli var sæmilegt veður. Ekki var útsýni á jökul en samt allt þurrt. Síðasta lærið var grillað á gasgrillinu hans Jóns og var allt týnt til sem var hægt að borða með því. Enn ein veislumáltíð! Svo var tjaldað og rædd bílamál, ferðir og áætlanir fyrir sunnudaginn. Þá loksins fóru sleðamennirnir að skrifta og segja frá heimskubrögðum sínum. Á öðrum degi eftir að þeir sóttu lykilinn hjá Andreu, keyrðu þeir aftur upp að skálanum. Þeir settu dótið sitt í skálann og…. Skelltu óvart á eftir sér með lykilinn í skálanum!!?? Þeir fundu ekki nokkra leið til að komast inn og voru þeir lengi að spá hvað átti gera. Vandamálið var aðallega að allur búnaður þeirra var inni og hefði ekki verið nokkur leið að fara af stað illa búnir. Loks söguðu þeir lamirnar í sundur og brutust inn. Rétt áður en jeppafólkið kom. Þótti þetta of neyðarlegt til að segja frá því strax… (Þegar sagan var skráð, voru sleðamenn á leið til að laga skálann).

Svo var það páskasunnudagurinn. Allir drógu páskaeggin sín fram. Jói var með skrýtið páskaegg sem var í laginu eins og venjulegt suðusúkkulaðistykki. Andrea aftur á móti var með páskakanínu frá Sviss og beit hausinn af henni!! Quelle femme?!

Ákveðið hafði verið að fara inn í Núpsstaðaskóg þar sem fæstir höfðu komið þangað. Fisksalabíllinn var skilinn eftir við afleggjarann og lagt var af stað inn eftir. Fljótlega var komið að Núpsvötnum sem þurfti að keyra eftir. FBSR2 hikaði aðeins og var Halli strax búinn að  taka stjórnina í sínar hendur og lét vaða. Ekki virtist vera mjög mikið í. Keyrt var áfram eftir slóð sem greinilega var búið að hefla fyrir stuttu. Hún lá beint að ánni Súlu og sást leið upp úr hinumegin. Ekki leyst fólki á blikuna. Mikið vatn var í ánni og var stoppað til að skoða leiðina betur. Litlu munaði að lagt væri af stað yfir þegar Andrea fór allt í einu að hafa bakþanka hvort það þyrfti nú að fara yfir Súluna. Hafði hún komið inn í Núpsstaðaskóg síðasta haust og gat ekki munað eftir að hafa farið yfir Súlu. Var ákveðið að skoða fyrst  ofar hvort þess þyrfti í raun. Kom strax í ljós að þar var önnur slóð og þurfti náttúrulega alls ekki fara yfir Súlu?! Þessir leiðsögumenn??? Eða konur eins og Snorri mundi segja?!

Svo var komið að bílastæði og lagt af stað í gönguferð. Voru fremstu að flýta sér til að þurfa ekki að hlusta á vælið í þeim síðustu sem vildu frekar keyra en labba, en það var ekki lengi því svæðið er náttúrulega stórkostlegt. Sást í hvítan rebba í einu gili, skoðaður fossinn og labbað aftur til baka. Var þá enn og aftur stoppað til að borða nesti og reyndu menn nú að koma öllum sínum mat út áður en farið væri í bæinn. Sérstaklega vildi Ásgeir koma sínum mat út þar sem hann er svo vel giftur og á konu sem var búin að elda handa honum mat fyrir heila viku. Hvernig liti það út að koma með það til baka?…

Jæja, svo var fólkið bara búið að gefast upp á færinu og vildi komast í bæinn. Enda voru bílarnir líka hálf kraft- og saftlausir. Var skrifaður listi á leiðinni yfir hvað þyrfti að gera fyrir flubbóbílana og kláraðist  það rétt áður en komið var í hús FBSR.

Skrifað í maí 2003
Andrea Maja Burgher (hin svissneska)

 

Jónsmessa hjá beltamönnum sumarið 2003

Sólstöðuhelgina 21.-22. júni fóru tveir meðlimir beltaflokks á Langjökul til að hrista aðeins úr sér slenið eftir langan tíma á malbikinu. Voru þetta undirritaður Arnar Bergmann ásamt Jóhanni S. Sveinssyni þ.e. nýju gaurarnir í beltaflokki.

Planið var að fara í dagsferð á sunnudeginum en þegar við hittumst á laugardagskvöldið til að græja sleðana var veðrið svo flott að við drifum okkur bara strax úr bænum. Var stefnan tekin á Jaka, skála Íslenskra Ævintýraferða ofan Þjófakróka við vestanverðan Langjökul. Er við keyrðum í hlað í rjómablíðu um þrjúleytið aðfaranótt sunnudags og fórum að græja okkur  uppgötvaði ég mér til skelfingar að kassinn af sleðanum mínum hafði gleymst  í bænum. Upphófst þá mikil leit að blóraböggli og eftir skamma umhugsun ákvað ég að skella skuldinni á félaga vorn Hallbjörn “Björninn” Magnússon en hann hafði einmitt hringt í mig um það leyti  sem ég var að ganga frá kassanum (he, he, he). En við héldum okkar striki og lögðum á jökul um 03.30, var stefnan sett á Geitlandsjökul til að byrja með og yfir að Presthnjúk.
Þegar við vorum búnir að kanna svæðið í nágrenni Geitlandsjökuls og dást aðeins að útsýninu þarna uppi var ákveðið að keyra í átt að Þursaborg og Fjallkirkju enda löngu kominn háttatími hjá öllu venjulegu fólki. Keyrðum við sem leið lá yfir hábungu jökulsins en gekk hægt þar sem jökullinn var frekar ósléttur. Þegar við komum að Þursaborg var tekið stutt myndastopp ofan í geilinni áður en haldið var í skálann í Fjallkirkju til að hvílast. Vorum við komnir um 07.00 í skála og orðnir ansi þreyttir.

Eftir smá kríu, sem reyndar teygðist á langinn, var haldið til baka í Jaka með smá stoppi við Pétursborg. Vorum við svo komnir í bílinn um 16.30.

Þá var haldið heim á leið og menn sáttir eftir frábæra ferð á jökul.

Arnar Már Bergmann
Beltaflokki FBSR

 

Við leitum að nýju fólki

Hefur þú hugleitt það að snjór geti verið eitthvað annað en eitthvað sem er fyrir manni í umferðinni? Gætir þú hugsað þér að stunda fjallamennsku, jeppamennsku, vélsleða eða jafnvel fallhlífastökk? Ert þú þessi týpa sem gætir hugsað þér að vera til taks þegar aðrir eru í neyð? Kannski áttu þá erindi til okkar!

 

Við leitum að nýju fólki sem er til í að takast á við þau ótrúlega fjölbreyttu og skemmtilegu verkefni sem björgunarsveitarfólk þarf að glíma við.

Kynningarfundir fyrir nýliða verða haldnir í húsi okkar við Flugvallarveg (sjá kort hér4. og 7. september kl. 20.

Ef þú getur ekki mætt á kynninguna þá getur þú alltaf fengið upplýsingar hjá Sigurgeir nýliðaflokkstjóra.

Á þessari síðu getur þú lesið örlítið um nýliðastarfið og út á hvað það gengur. Við viljum samt eindregið hvetja fólk til að mæta á kynningarfundina til fá upplýsingarnar beint í æð og sjá með eigin augum hvað við erum að gera.