Greinasafn eftir: stjorn

Nýliðaferð 4×4 2006

Símon og Steinar á FBSR-5 í Nýliðaferð 4×4

Símon og ég skelltum okkur í nýliðaferð Ferðaklúbbsins 4×4 á splúnkunýja patrólnum, FBSR-5. Við vorum smá smeykir að fara í svona ferð á algjörlega óreyndum bíl, en þær áhyggjur voru óþarfar því bíllinn reyndist frábær. Það var ekkert út á hann að setja eftir þessa ferð.

Hópurinn hittist á ónefndri bensínstöð hér við bæjarmörkin, alls 11 bílar, allir sæmilega búnir, nokkrir 44" og nokkrir 38". Þaðan var keyrt inn í Hrauneyjar, þar sem þeir sem höfðu ekki jafn marga aukatanka og við þurftu að tanka, s.s. allir aðrir. Eftir ágætis hamborgara á línuna var haldið inn í Jökulheima. Færið var grjóthart, enda var bara grjót og einstaka klakaskafl í veginum alla leið inn í Jökulheima. Í Jökulheimum var gist í þeim tveimur ágætu skálum sem þar eru. Á laugardagsmorgni var ræs um átta og brottför á slaginu níu í gaddafrosti, tæpar tuttugu gráður ef ég man rétt og fóru bílar misauðveldlega í gang við þær aðstæður. Allir komust þó af stað og upp á jökul í leit að snjó. Færið var hart uppi á jökli og brunuðum við því áfram, þar til einn bíllinn varð eitthvað móður í kuldanum og missti allt afl. Bíllinn var því skilinn eftir en mannskapnum hent í annan bíl og brunað upp á Grímsfjall. Stoppið var ekki langt á Grímsfjalli, enda -29°C, allir röltu þó um og dáðust að útsýninu. Eftir Grímsfjall renndum við jeppunum niður austurhlíðina og í sveig niður á Grímsvötn að virða fyrir sér gíginn og 30 stiga frostið sem þar var. Ég held ég geti fullyrt það að enginn í hópnum hafi áður upplifað jafn mikinn kulda. Það merkilega var samt að vegna þess hve mikið blankalogn var þarna, var í góðu lagi að vera á peysunni einni (eða tveim, þrem). Frá Grímsfjalli var ekið beinustu leið upp á Þórðarhyrnu og brölt upp á hana á broddum eða í sporunum sem Símon hjó með brunamannaöxinni. Ég ætla nú ekki að reyna að lýsa útsýninu þaðan. Þaðan var ekið, með stuttri viðkomu hjá Pálsfjalli, heim í skála og dýrindis grill. Fólk lá svo á meltunni fram eftir kvöldi og spjallaði um dekk, smurolíur og drif.

Þetta var s.s. alveg ljómandi ferð í frábæru veðri, en engum snjó. Þ.e.a.s. ekki fyrr en við komum í bæinn. Í bænum var eins og margir kannast við ófært um allt og ófærðarútkall í gangi.

Takk fyrir ferðina,

Steinar Sig.

Hér eru svo nokkrar myndir

 

Stór jeppaferð sveita á svæði 1


Nú um helgina 24. til 26. nóvember stefna bílahópar björgunarsveita á svæði 1 upp á hálendið
í stóra reisu. Tilgangurinn, auk þess að hafa gaman að, er að þjappa
hópunum meira saman og auka samstarfið. Farið verður í Veiðivötn á
föstudagskvöldið og síðan tekinn stór og góður hringur um helgina.
 

Bílahópar HSSR, HSSG og HSSK munu fara með okkur í þessari ferð. Þessa
stundina er verið að fletta í sundur kortunum og ákveða nánar rúntinn
sem á að taka en í öllu falli er markmiðið að gera þetta að
skemmtilegri og krefjandi ferð þannig að menn fái sem mest út úr
henni. 

Skráning og allar nánari upplýsingar eru hjá Ásgeiri í síma 861 2998 

Snjóbylur í Reykjavík

 

Það
fór ekki framhjá neinum að aðfararnótt sunnudags reið einn mesti
snjóbylur um árabil yfir Suðvesturlandið. Hér í Reykjavík voru
björgunarsveitir kallaðar út og bílahópur FBSR var á ferðinni um borg
og bý til að aðstoða fólk við að komast leiðar sinnar.  

Fimm manns voru á vaktinni á tveimur bílum frá klukkan sex um
morguninn til um klukkan 17  í gær, sunnudag.  Verkefnin
fólust aðallega í að kippa í bíla sem sátu fastir og að ferja
starfsfólk á heilbrigðisstofnunum til og frá vinnu. Verkefnin tókust í
alla staði ljómandi vel.

Fyrirlestur tæknideildar lögreglunnar

Nú í lok mánaðarins mun svæðisstjórn ásamt tæknideild lögreglunnar í Reykjavík
standa fyrir fyrirlestri um aðkomu og umgengni á vettvangi þar sem slys eða
andlát hefur orðið.

Hvað er það sem við þurfum að athuga til að spilla ekki
vettvangi, hvernig berum við okkur að, innanbæjar sem og utanbæjar þar sem langt
er í rannsóknaraðila. Mjög mikilvægt getur verið að vita nákvæmlega hvað var
gert á staðnum, hverjir fóru inn á vettvanginn, setja upp innri og ytri lokanir
o.þ.h.. þessi fyrirlestur er sérstaklega hugsaður fyrir svæðisstjórn, sérhæfða
leitarhópa á svæðinu og hópstjóra en allir sem hafa áhuga eru velkomnir.

Fyrirlesturinn verður haldinn í húsi FBSR miðvikudagskvöldið 29 nóvember kl 20.00

Af breytingum


 

Breytingar á húsnæðinu eru núna að komast á lokastig. Búið er að
parketleggja og ganga frá milliveggjum, Hillur undir útkallsbúnað eru
komnar upp, félagsaðstaðan og stjórnarhergi nánast full frá genginn.
Áfram mætti telja en myndir segja meira en þúsund orð.

Nýja aðstaðan verður líklegast full kláruð eftir 1-2 vikur. Eins og
myndirnar bera með sér er ennþá allt á rúi og stúi en engu að síður er
þegar byrjað að koma tækjum og búnaði fyrir á  þeim stað sem hann
á að vera.

 


Byrjað er að setja upp skápa fyrir einstaklingsbúnað á milliloftinu í
syðri endanum. Eins og sjá má eru þeir rúmgóðir, enda Frímann ekki með
styttri mönnum. 100 cm á breidd, 200 á hæð og 60 á dýpt (þ.e.a.s.
skápurinn – ekki Frímann).  Í fyrsta áfanga verða aðeins 20 skápar
en þeim verður fjölgað fljótlega.


Stiginn var færður og útkallsbúnaður verður hafður þar sem vélsleðarnir voru áður. Þessi högun mun stytta viðbragðstíma.


Í norðurendanum er félagsaðstaðan komin vel á veg.  Hér er
eldhúskrókurinn en í hann vantar nú aðeins ísskápinn og uppþvottavélina.


Rafvirkinn Atli sér um að koma ljósi á aðstöðuna, enda átti að nota hana fyrir fund fjallahóps.


Gömlu sófasettin voru flutt upp fyrir fundinn. Fjallahópur búinn að koma sér vel fyrir í þeim og fundur hafinn.


Farið yfir búnaðarmál. Í baksýn er stóri glugginn sem vísar yfir í bílasalinn.


Inni í nýja stjórnarherberginu, sem er inn af félagsaðstöðunni.


Fallhlífahópur að koma sér fyrir í sinni aðstöðu, sem áður var undanfaraherbergið.

 

 

 

Óveðursútkall

Það hefur ekki farið framhjá neinum að frá því í nótt hefur ofsaveður gengið yfir landið. Björgunarsveitir voru kallaðar út til að festa fjúkandi hluti.

Tveir bílar með 12 manns frá Flugbjörgunarsveitinni voru á ferðinni  á höfuðborgarsvæðinu við að festa fjúkandi hluti víðs vegar. Aðgerðirnar tókust allar vel.

Fallhlífahópur með hitting

Laugardaginn 4.nóvember verður alsherjar tiltektardagur hjá
fallhlífahóp. Bæði verður nýja aðstaðan tekið í gegn og ferskar línur
hópsins settar niður.

Ef þú ætlar að vera með í uppsveiflu fallhlífahóps þá er eins gott
að þú látir sjá þig niðrí sveit á laugardaginn kl 10. Deginum verður
svo slúttað að fornum sið þar sem gamlar gjaldfallnar skuldir verða
greiddar.

Sjáumst í gír á laugardaginn kl 10!!

Elsa Gunnarsdóttir

Elsa Gunnarsdóttir

 


Fullt nafn: Elsa Gunnarsdóttir

Gælunafn: Elsa

Aldur: 28

Gekk inn í sveitina árið: 2000

Atvinna/nám: Starfa hjá Glitni

Fjölskylduhagir: Ég á einn kærasta

Gæludýr: Engin

 

Hópastarf og annað starf innan sveitarinnar: Ekki mikið eins og er en ferðin um helgina í Þórsmörk var frábær!!:)

Áhugamál: Útivist, ferðalög, matur.

Uppáhalds staður á landinu: Sumarbústaðurinn í Grímsnesinu

Uppáhalds matur: Rjúpur og svið.

Mesti viðbjóður sem þú hefur smakkað: Lifrabuff sem mamma píndi í mig þegar ég var yngri, annars er allar matur góður, bara misgóður!

 

Ef þú ættir eina ósk, hver yrði hún (bannað að óska sér fleiri óska)? Komast á snjóbretti á flott skíðasvæði í evrópu í allavega tvær vikur hvern vetur!

Æðsta markmið: Að gera allt sem mig langar að gera.

Eftirminnilegasta augnablikið úr starfinu: Nýliðaferð í Skarðsheiði þar sem við gistum í snjóhúsi í brjáluðu veðri og það snjóaði fyrir opið og við þurftum að grafa okkur út um morguninn og ennþá var brjálað veður.

 

Hreindýraakstur í Noregi, vetur 05.

Með Hornbjargsvita í baksýn, júlí 06.

Labbaði Dettifoss – Ásbyrgi um verslunarmannahelgina 06. Ásbyrgi í baksýn!:)

Við Langasjó, sumar 06.

Með Sveinborgu í Chamonix, vetur 06.

Á snjóbretti í Nýja sjálandi, sumar (norðan miðbaugs) 04.

 

Haustferðin 2006

Langavatn-Hítarvatn-Hlíðarvatn

 

Að þessu sinni eins og svo oft áður var það Jón Þorgríms sem skipulagði haustferðina. Hann er þekktur fyrir að skipuleggja snilldar ferðir og það var því spenntur hópur sem mætti niður í hús laugardagsmorguninn 30. September. 

 

Lagt var að stað stundvíslega kl. 7 og var stefnan tekin að Langavatni þar sem gangan átti að hefjast. Með í för var að sjálfsögðu fararstjórinn sjálfur, Jón Þorgríms, Stefán nýliðaþjálfari B2 og Steinar, nýinngengnu félagarnir Viddi, Sóley, Ragna og Ólöf og svo nokkrir sprækir nýliðar úr B2 þau Linda, Veiga, Elsa og Emil.  

 

Brunað var á 2 sveitarbílum, Patrolnum sem Jón bílstjóri keyrði og Hyundaiinum sem var svo skilinn eftir. Eftir smá road trip var svo lagt af stað og rölt inn Kvígindisdal í hæglætisveðri. Haustlitirnir í dalnum voru áberandi og gæddu ferðalangar sér á berjum á leiðinni. Í botni dalsins hækkuðum við okkur upp sandhól og niður aftur í Þórarinsdal. Brugðið var á leik með myndavélarnar á leiðinni og margar sérkennilegar myndir teknar; í ballettstellingum, í kremju í helli og hoppumyndir í loftinu. Stoppað var í kaffipásu í námunda við Gvendarskarð og síðan tók við hækkun langleiðina upp á ,,821”. Stefnan var tekin á Smjörhnúk og sökum þoku sáu ferðalangar ekki almennilega fjallið nema í nokkurra metra færi. Hnúkurinn kenndur við smjör reyndist vera ein laus risa  skriða. Ferðalangar voru um eitt sammála að Tómas Guðmundsson hefði líklega samið Fjallgöngu sína með fjallið í huga: Urð og grjót. Upp í mót. Ekkert nema urð og grjót. Klífa skriður. Skríða kletta. Velta niður. Vera að detta…. Leiðina niður hinum megin eftir bröltið (klámið!) slæduðum við bókstaflega niður í drullu! Án efa uppáhaldsfjall allra haustferðalanga! Þegar við lækkuðum okkur niður úr skýinu/þokunni sáum við glitta í Hítarvatn og hélt hópurinn beinustu leið þangað þar sem partýtjöldin voru slegin upp í námunda við Tjaldbrekku rétt rúmlega 18:00. Úr tjaldinu sínu dró Steinar svo fram
Hawaii blómakransa og Hawaiiregnhlífar og ber sögum ekki saman um hvað fór fram í því tjaldi það sem eftir lifði nætur! Eftir að hafa kokkað dýrindismáltíðir lögðust svo ferðalangar til hvílu í svitabaði.

 

Ræst var stundvíslega kl. 7 morguninn eftir og voru allir galvaskir eftir 10 klst svefn! Eftir morgunverð og pökkun lagði svo hópurinn af stað, hress sem aldrei fyrr. Farið var upp Réttargil og tók svo við allmikil lækkun niður Snjóadal og Djúpadal með smá kaffipásu í námunda við Para dís (ekki slæmt, ha!). Í leiðinni smöluðu ferðalangar svo alveg óviljandi kindum bóndans á Hallkelsstaðahlíð, nema náttúrulega þær hafi bara ákveðið að verða samferða okkur! Síðan hoppuðu ferðalagar yfir lækjarsprænu og náðust nokkrar myndir af sprækum Flubbum sem og verðandi Flubbum í loftköstum yfir sprænuna. Hópurinn var svo sóttur við Hallkelsstaðahlíð af Jóni og Vilberg sem höfðu náð í Hyundaiin sem var skilinn eftir. Smalamenn höfðu þó fundið Hyundainn og var ekki alveg sama þar sem hvergi sáust eigendurnir og skildu því eftir miða við bílinn eftir að hafa hringt í neyðarlínuna: Látið vita ef þið eruð á lífi!!! Brunað var svo í bæinn og komið rétt í tæka tíð fyrir ANTM að ósk strákanna í hópnum!  

 

Viljum við þakka Jóni Þorgríms kærlega fyrir frábæra og vel skipulagða ferð. Svo er
kan
nski við hæfi að enda þetta á þeim fleygu orðum Tómasar sem við  komumst að raun um um helgina ,,að eiginlega er ekkert bratt, aðeins mismunandi flatt”!!
 

 

Ferðasaga: Sóley    Myndir: Ragna, Stefán og Steinar

 

 

 

 

Jón Þorgríms fararstjóri

 

 

 

Nýinngengnu félagarnir Sóley, Ólöf og Viðar

 

 

 

Wtf??

 

No really, wtf??

 

 

Spáð í kortin

Linda ýkt hress!!

 

Smjörhnúkur. Urð og grjót. Upp í mót!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ólöf nánast komin upp

 

 

Jón Þorgríms

 

Ragna í góðri pósu. Veiga fékk áskorun upp á 1000 kall að klifra upp á hraundrangann í baksýn. Hún afþakkaði pent.

 

Uppi á Smjörhnúki

 

Búin að slæda niður mestu drulluna!

 

Steinar kátur!

Hér sést glitta í Hítarvatn-áfangastaðinn

 

Stefán nýliðaþjálfari B2 og Jón fararstjóri

Ahhhh!

 

 

 

Viðar voða rómó

Emil liggur á spenanum-bókstaflega!

 

Partýtjöldin reist!

 

Viddi slær margar flugur í einu höggi!

Steinar og Stefán með Hawaiiblómakransana sem vöktu mikla lukku!

 

Morguninn eftir-Hítarvatn í baksýn

Upp, upp, upp á fjall…

 

Ólöf

 

 

Þvílík stemmning!

Stoppað í kaffi í Paradís!

 

Elsa og Veiga sposkar á svip

Hópurinn saman kominn. Frá vinstri: Ragna, Ólöf, Veiga, Elsa, Stefán, Jón Þorgríms, Emil, Viðar, Sóley og Steinar.

 

 

Einn, tveir og….

Leit við Nesjavelli

Seint í gærkvöldi var kallað út til leitar að manni sem saknað var á svæðinu í kringum Hengil og Nesjavelli. Einn bíll frá FBSR með fimm leitarmenn og einn bílstjóra fór til leitar en alls tóku 17 sveitir þátt í leitinni. Maðurinn fannst látinn seinna um kvöldið. Talið er að hann hafi orðið úti.