Greinasafn eftir: stjorn

Framkvæmdadagur á Flugvallarvegi

Nú á laugardag ætlum við að hittast klukkan 10 á Flugvallarvegi og taka til hendinni í húsinu.  Verkefnin eru af ýmsum toga, handiðn og skriftir.  Um kvöldið grillum við svo saman og verðlaunum okkur fyrir vel unnin verk.  Nánari upplýsingar um verkefnin verða á spjallinu.

Tindfjallasel

Nú um helgina förum við uppí Tindfjöll að vinna í skálanum.  Smíðaferðirnar uppí Tindfjöll eru orðnar nokkrar og hver annarri skemmtilegri en alltaf myndast góð stemmning í hópnum þegar fjallakaffið byrjar að sjóða.  Þeir sem hafa tíma og þor til að taka til hendinni ættu að hafa samband við Gutta en hann ber ábyrgð á verkinu.

Útkall í Esju

Boðaðir voru út fjallahópar á höfuðborgarsvæðinu á mánudag til að aðstoða við böruburð í Esjunni.  Fjórir björgunarsveitarmenn frá Flugbjörgunarsveitinni fóru í útkallið en því lauk fljött og örugglega.

31. júlí

Þriðjudaginn 31. júlí ætlum við að hittast niðrí húsi og taka til á lóðinni. Byrjum um 18, eða bara þegar þú mætir, og grillum svo pulsur þegar verkið er hálfnað eða skömmu fyrir 20.

Verkefnalistinn er á spjallinu en endilega kíkið á hann og veljið ykkur verkefni, mætið svo með þau tól sem þið þurfið til að klára jobbið. Eitthvað verður af verkfærum og sérhæfðum tólum en ekki endilega allt sem nothæft er 

Fjallahópsútkall í Laxárgljúfri

Á miðnætt í gærkvöldi voru undanfarar á höfuðborgarsvæðinu og suðurlandi kallaðir út vegna manns sem hrapað hafði í Laxárgljúfur, alls 70 metra niður í gljúfrið. Maðurinn var töluvert slasaður og með litla meðvitund.
Þrír björgunarmenn fóru með þyrlu landhelgisgæslunnar TF-Gná á staðinn en þyrlan gat ekki athafnað sig í gljúfrinu og voru björgunarsveitir því sendar á staðinn til að aðstoða við að flytja hinn slasaða upp úr gljúfrinu. Fimm undanfarar úr FBSR mættu í útkallið en alls voru um 75 björgunarsveitarmenn og sjálfboðaliðar á svæðinu að vinna að björguninni. Til að koma sjúklinginum upp úr gljúfrinu þurfti að setja upp línur yfir gljúfurbarminn sem og upp gil sem liggur sunnanvert i hlíðinni. Mikið lausagrýti og skriður torvelduðu alla vinnu því mikil hætta stafaði af grjóthruni fyrir þá sem staddir voru í gljúfrinu hjá hinum slasaða.
Björgunaraðgerðum lauk að ganga fimm um morguninn þegar sjúklingnum hafði verið komið um borð í þyrluna þaðan sem hann var fluttur á LHS og gekkst hann strax undir aðgerð og er hann skv. upplýsingum á batavegi.

Stökkhelgi framundan


Fallhlífahópur FBSR stefnir á Hellufjör um helgina. Ætlum að byrja helgina á bóklegri ferkanntaðristatiklínukennslu á föstudagskvöld klukkan 17 og seinnihluti bóklega partsins verður kenndur fyrir hádegi á laugardaginn. Eftir bóklega námskeiðið verður farið beinustu leið á Hellu að hoppa. Að sjálfsögðu verður hörkufjör á Hellu fram á sunnudag svo það er skylda að taka með sé eitthvað djúsí á grillið ásamt útilegubúnaði. Heiða svarar spurningum um helgina á FBSR spjallinu og í síma: 867-3755.  

Minni á að hvort sem það er sumar, vetur vor eða haust þá eru þriðjudagskvöld alltaf flubbakvöld! Það í nógu að snúast fyrir komandi vetur og alltaf hægt að finna sér eitthvað til dundurs. Næsta þriðjudag ætlar Fjallahópur að freista þess að breyta kútum í kippur með nettu hlaupi kringum flugvöllinn. Ef þú átt kút en langar í kippu þá endilega komdu með. Lagt af stað á slaginu 19:00 frá FBSR. Hluti fjallahópsins undir stjórn Atla spottagúrú nýtti síðustu viku og helgi til æfinga fyrir Rigging for Rescue námskeiðið sem haldið verður á í lok september. Aldrei að vita nema ferðasaga og myndir detti inn á netið fyrr en síðar. Veturinn hefst svo formlega 25. ágúst með allsherjar þrifnaði á Flubbahöllinni. Skítnum verður skolað niður í kassageimi. Þetta er dagur sem þú vilt EKKI missa af svo taktu hann frá í tíma!! 

!!Blár himinn og allt að gerast í loftinu!!

Stöðufundur hjá fallhlífahóp verður haldinn á þriðjudaginn kl 2000 í húskynnum flugbjörgunarsveitarinnar. Allir þeir sem hafa áhuga á fallhlífastökki eða eru forvitnir um stefnu og markmið hópsins eru hjartanlega velkomnir.

Faðir fallhlífahóps verður staddur á Hellu um helgina og þeir sem hafa lokið T-10 námskeiði og ætla að mæta á Helluflugvöll í stökk vinsamlegast sejið ykkur í samband við hann Snorra H á föstudaginn 13.júlí.

Fyrsta stökk sumarsins

FBSR stökk sitt fyrsta stökk í sumar á þriðjudaginn síðastliðinn. 6 manns sem eru í þjálfun hjá fallhlífahóp sveitarinnar fóru í loftið frá Selfoss flugvelli ásamt félögum úr Fallhlífaklúbb Reykjavíkur.

Stefnt er að næsta stökki um helgina sé veðrið skaplegt.

Útkall í Hvannárgili

Útkall var í Hvannárgil um helgina en þar hafði hópur göngumanna lent í sjálfsheldu.  Menn frá Flugbjörgunarsveitinni voru að störfum í Básum og brugðust skjótt við kallinu, fundu hópinn og aðstoðuðu niður. 

Samstarf björgunarsveita er mikilvægt í öllum aðgerðum en auk FBSR tóku félagar úr Dagrenningu, HSSK og Vík þátt í aðgerðinni ásamt Útivistar-fólki og sjúkraflutningamönnum úr SHS sem voru skammt undan í öðrum verkefnum.  Tæplega 20 manns tóku þátt í aðgerðinni.