Nýliðaþjálfun Flugbjörgunarsveitarinnar skiptist í tvö ár, B1 og B2. Nýliðar á fyrsta ári (B1)
Mynd/Halli – Eins og sjá má var veðrið eiginlega of gott þessa helgi 🙂
héldu í sína fyrstu ferð þann 12. og 13. september. Auk nýliða mættu nokkrir galvarskir, inngengnir Flubbar – þ.m.t tveir fulltrúar úr stjórn.
Lagt var upp frá Botnsdal í Hvalfirði og gengið upp að hæsta (eða næsthæsta!) fossi landsins, Glym þar sem ófáarmyndir voru teknir og ófáum fötum pakkað þar sem veðrið var eins og best verður kosið á þessum árstíma.
Þaðan lá leiðin norðvestan við Hvalfellið, framhjá Breiðafossi að Hvalvatni þar sem ákveðið var að ganga sunnan megin við vatnið til þess að að freista þess að finna Arneshelli, sem þar ku eiga heimili. Hellirinn reyndist hinsvegar af heiman þennan dag og því lá leiðin meðfram vatninu, undir Hvalfellinu þar sem nýliðarnir fengu fyrstu reynslu sína í skriðubrölti og grunnáfanga í vaði 101.
Mynd/Halli – Fyrsta uppgangan af fjölmörgum næstu tvö árin.
Eftir göngu með fram Hvalvatni (og nokkrar sólbaðsstundir) lá leiðin að fallegum náttstað við Krókatjarnir þar sem tjöldum var slegið upp og prímusarnir mundaðir.
Á sunnudagsmorgni voru teknar léttar Mullersæfingar við morgunskúri en um leið og lagt var af stað var blessuð sólin aftur mætt og skyggni því rúmlega ágætt þegar hópurinn rölti sem leið lá yfir Gagnheiði, meðfram Súlnabergi Botnssúla í suðurátt að Svartagili. Þegar á Þingvelli var komið, beið fagurgræn rúta eftir mannskapnum og ferðjaði í bæinn.
Mynd/Halli – Náttstaðurinn við Krókatjarnir.
Um kvöldið fór hersingin á HamborgaraFabrikkuna og fékk sér hamborgara í félagsskaps B2, sem komu syndandi.
Mynd/Halli – Fararstjórinn sjálfur, Halli Kristins.