Laugardaginn 18.júlí var leitað til gæsluhóps sveitarinnar í Básum þar sem astmasjúklingur var í vanda. Hlúð var að einstaklingum sem jafnaði sig ágætlega.
Greinasafn eftir: stjorn
Brunasár í Básum
Sunnudaginn 19.júlí var kallað eftir sveitinni í Básum, Goðalandi, þar sem barn hafði brennst illa á hendi. Hlúð var að brunanum og barninu komið undir læknishendur.
Viðbeinsbrot í Básum
Föstudaginn 17.júlí var sveitin kölluð út vegna viðbeinsbrotins manns í Básum, Goðalandi. Var hlúð að manninum og honum ekið til móts við sjúkrabíl við Illagil.
Fótbrotinn í Esjunni
Föstudaginn 17. júlí var sveitin kölluð út vegna fótbrotins manns í Esjunni.
Aðstoð við göngufólk í Básum
Laugardaginn 11. júlí var sveitin fengin til að aðstoða göngufólk sem orðið hafði innlyksa sökum vatnavaxta við Hruna í Goðalandi. Vel tókst til við björgunina.
Hjólaferð þriðjudaginn 30.júni
Þriðjudaginn 30. júní verður farið í hjólaferð frá Flugvallaveginum kl.
19:00. Stefnt er að því að hjóla uppí Heiðmörk sem er um 30 km hringur.
Þetta er hjólaferð sem allir ættu að geta tekið þátt í og er ágætis
prufutúr fyrir helgarhjólaferðina sem farin verður 14. – 16. ágúst að
fjallabaki.
Þetta er um 3ja tíma ferð og því gott að hafa með sér nóg að drekka og
eitthvað smá nart. Klæða sig eftir veðri og hafa með sér þetta helsta
eins og bætur og pumpu.
Ef fólk er með vanstillta gíra eða bremsur þá er möguleiki að hinir
valinkunnu snillingar Haukur Eggerts og Bubbi geti orðið fólki innan
handar með það en þá borgar sig að mæta fyrr.
Kvöldfundur: Pökkun í börur
Klukkan 20:00, þriðjudaginn 23.júní, ætlum við að hittast niðrá Flugvallarvegi og förum yfir hvernig pakka á sjúklingi með hrygg eða hálsáverka í börur.
MIkilvægt fyrir alla sem vilja koma að björgunarstörfum að fara yfir þetta og æfa reglulega.
Þumall og Miðfellstindur
Farið verður á Þumal og Miðfellstind um helgina. Mæting á Flugvallaveg klukkan 18 föstudaginn 12.jún.
Áhugasamir hafi samband við Stefán í 8444643.
Vatnajökulstúr 2009
Beltaflokkur FBSR tók að sér eins og mörg undanfarin ár að fylgja Mótormax klúbbnum um Vatnajökul í árvissri ferð klúbbsins helgina 21-23 maí síðastliðinn. Að vanda var gert út frá Jöklaseli á Skálafellsjökli rétt ofan við Smyrlabjörg í Suðursveit.
Lögðum við af stað á miðvikudagskvöldi með 5 sleða á FBSR 6 en Eddi kom á sínum fjallabíl með 3 sleða til viðbótar. Með í för voru Arnar, Bjössi, Eddi, Stebbi og Gummi og frú ásamt nokkrum starfsmönnum Mótormax.
Var svo lagt á jökul kl. 10 að morgni Uppstigningardags með stefnu á Hvannadalshnjúk. Voru 27 sleðar og menn sem keyrðu sem leið lá að Karli og Kerlingu við Brókarjökul og svo vestur Breiðamerkurjökul í Esjufjöll. Eftir stutt nestisstopp í skálanum við Esjufjöll héldum við að Fingurbjörg í Mávabyggðum og þaðan um Hermannaskarð að Snæbreið. Þegar við komum vestur af Snæbreið var stoppað enda komið flott útsýni yfir Hnjúkinn. Nokkrir gönguhópar voru á og við Hnjúkinn og höfðu menn á orði að það væri til skammar að þessir labbakútar gengju lausir í þjóðgarðinum, traðkandi niður Hnjúkinn ,sem lækkar með hverju árinu sem líður, með háreysti og illa lyktandi. Betra væri að leyfa aðeins umferð vélknúinna ökutækja og þá sérstaklega vélsleða. Þó voru nokkrar í hópnum á því að laumast í röðina og labba upp og geta þá státað af einum tindinum til viðbótar.
Þegar menn voru búnir að fá nóg af hæsta tindi landsins var snúið heim á leið með stoppi í Svöludal við Þverártindsegg. Svo þegar komið var í Jöklasel var sett upp spyrnubraut þannig að menn gætu aðeins tekist á um hver væri á öflugustu græjunni. Þar sem Túrbó orgelið (Þór Kjartansson) var ekki með í för var keppnin í ár aðeins jafnari en oft áður. Fóru leikar svo að björgunarsveitarmaðurinn Sveinbjörn Valur frá Egilsstöðum var manna fljótastur í spyrnunni á sleða sem hefur verið ekið fram og til baka eftir Lagarfljóti ..í JÚLÍ. Að lokinni hnífjafnri spyrnukeppni var sest að snæðingi í Jöklaseli og skemmt sér saman fram eftir kvöldi með mislognum hetjusögum af viðstöddum.
Dagur tvö hófst að venju sleðamanna eldsnemma eða kl. 10.00. Voru klárarnir græjaðir og haldið norður yfir jökul með stefnu á Kverkfjöll. Í sól og blíðu komum við á leiðarenda c.a. 1,5 klst seinna og var þá tekið nestisstopp við Gengissigið. Þegar bensíntankar og útþandir magar voru mettir var haldið sem leið lá eftir Kverkfjallahryggnum niður í Sigurðarskála, kvittað í bókina og tekið lögbundið símtal í greyin sem völdu frekar að fara í verslunarferð til Stavanger með frúnna. Var það mat flestra að vísa beri mönnum úr beltaflokki sem sýna af sér þvílíkan dómgreindarskort. Að skyldustörfum loknum lá leiðin í Hveragil austan Kverkfjalla eftir ansi skemmtilegum giljarenning þar sem Yammarnir í hópnum sýndu stórkostlega takta í sinni sérgrein, HLIÐARHALLA. Enn loddi við okkur fnykurinn af göngumönnum á Hnjúknum daginn áður svo helstu garparnir skelltu sér í lækinn enda hitastig fallvatnsins (akkúrat 39.5°) svo nálægt manneldissjónarmiðum Lýðheilsustofnunar að ekki var annað hægt en að bleyta kroppinn aðeins og sleikja sólina á þessum dýrlega stað. Þegar allir voru orðnir tannaðir í drasl var haldið aftur af stað og stefnan tekin upp Brúarjökul og heim í Jöklasel þangað sem við komum svo um klukkan 18hundruð.
Dagur 3
Þar sem nú var skipulagðri ferð þrotabúsins lokið ákváðu undirritaður ásamt Stebba og Bjössa að koma við á Mælifellssandi á heimleiðinni þar sem við vorum búnir að mæla okkur mót við TF-GNÁ þyrlu Landhelgisgæslunnar. Höfðu björgunarsveitarmenn af Héraði og úr Aðaldalnum veður af þessum fyrirætlunum okkar og ákváðu að taka á sig stuttan krók (500 km) á heimleiðinni og koma með okkur á æfingu en við höfðum meðferðis æfingasendi frá Gæslunni fyrir þá til að miða út.
Lögðum við því af stað um kl 09.00 á 3 Fordum með sleðana landleiðina frá Jöklaseli með lögbundnu hamborgarastoppi á Kirkjubæjarklaustri að Mýrdalsjökli,þar sem klárarnir voru mundaðir og rennt yfir á sand. Eftir nokkra km af brekkum og krapa fannst Stebba kominn tími til að skaffa gæslunni verkefni og keyrði í sprungu á miðjum sandinum. Þó skal tekið fram að sleðinn lak ofaní á c.a 1.5 km/klst en allar hinar hetjurnar höfðu tekið þann kostinn að krækja fyrir kelduna enda kom svipur á undirritaðan þegar Stefán tilkynnti um tildrög festunar í talstöðinni. Var þá ákveðið að þetta væri að sjálfsögðu gert að yfirlögðu ráði hjá nillanum enda fullkomin tildrög fyrir æfingu. Var því neyðarsendirinn virkjaður og byrjað að kalla upp þyrluna á VHF. Þegar rjómaþeytarinn mætti svo á svæðið eftir að hafa miðað sendinn út voru 4 hetjur hífðar um borð og boðið á rúntinn, voru það Stefán frá FBSR, Sveinbjörn Valur Bjsv. Hérað, Árni Pétur HSSA og Jói HSSA, ég og Björninn biðum rólegir á meðan og munduðum myndavélina.
Þar sem frést hafði af því hvaða einvala lið var þarna á ferð var sent kameru krjúv frá Saga Film með þyrlunni úr bænum sem dokjúmenteraði herlegheitin fyrir heimildarmyndina margrómuðu. Að rúntinum loknum lenti rútan svo hjá okkur aftur til að skila af sér hetjunum og endurheimta neyðarsendinn. Að því loknu skellti vélin sér í lofti og tók eitt flott lowpass fyrir okkur áður en þeir stímdu heim á leið.
Þar sem við vorum rétt ofan Fljótshlíðar þar sem hetjur riðu um héruð á árum áður urðum við að sjálfsögðu að trekkja í gang og taka gandreið yfir jökul til á skera úr um það hver væri mestur og bestur. Komum við svo í hlað hjá jöklabóndanum eftir þeisireið jökulsins um klukkan níu. Þar skildu leiðir okkar Flubba og norðaustanmanna og var það mál manna að næst skyldi stefnt á að hittast á Grímsfjalli í hreyndýrasteik síðsumars.
Arnar Bergmann
Beltaflokki
7 Tinda hlaup
Nýtt utanvegahlaup, 7 tinda hlaupið verður haldið í fyrsta skipti laugardaginn 13. júní 2009. Skátafélagið Mosverjar, Björgunarsveitin Kyndill og Mosfellsbær standa að hlaupinu sem hefst kl 10:00 við Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Hlaupið er utanvega um fjöll, heiðar og dali í bæjarlandi Mosfellsbæjar og komið aftur í mark við Lágafellslaug.
Nánar um hlaupið á hlaup.is