Greinasafn eftir: stjorn

Hjólaferð um Lakagíga 14.-16.ágúst

Á vegum Flugbjörgunarsveitarinnar er stefnt að því að skreppa í þriggja daga trússaðan (lúxus) hjólatúr helgina 14.- 16.ágúst um svæðið í kringum Lakagíga á Síðu. Svæðið býr að mikilli náttúrufegurð, góðum malarvegum (að slepptum smá sandkafla á degi 2), lítilli bílumferð og nokkurs fjölda skála. Dagleiðir verða lengstar 68 km, en til gaman má geta að í Heiðmerkurtúr sveitarinnar snemmsumars fóru flestir vel yfir 40 km á einni kvöldstund.

Fyrirkomulag: Farið verður á Ford og öðrum sveitarbílum (fer
eftirþátttöku) austur. Ferðalangar skulu taka með sér tjald auk
hefðbundins viðlegubúnaðar, þó svo að gist verði líklega í skálum
a.m.k. aðra hvora nóttina (og greiða hófleg skálagjöld sjálfir). Þeir
skulu jafnframt hafa með sér vatnsbrúsa og dagsnesti. Annars mun
Fordinn fylgja hópnum með annan farangur.
Dagur 1. Föstudagur 14.ágúst. (Gulur 12 km) Lagt af stað frá
Flugvallarvegi kl. 17. Keypt verður á leiðinni sameiginlega inn fyrir
grillmáltíð á laugardagskvöldið. Annan mat þurfa þátttakendur að koma
sjálfir með.
Étinn verður kvöldverður á leiðinni. Um kl. 21 verður komið að
afleggjara frá hringvegi að Hunkurbökkum og hefst ferðin þar. Haldið
verður norður Lakaveg, en gert stutt stopp til að ganga niður að
Fjaðrárgljúfri. Síðan verður haldið upp brekkur norður á bóginn þar til
komið er að fornu eyðibýli við Eintúnaháls (12 km), en þar verður
slegið upp tjöldum fyrir nóttina (mönnum er einnig frjálst að gista í
„skálanum“. Ef menn eru sprækir má halda áfram ferðinni í Blágil (37
km), hvar híbýli eru nokkuð vistlegri.

Dagur 2. Laugardagur 15.ágúst. (Rauður 68 km) Eftir morgunverð við
Eintúnaháls er hjólað norður á bóginn. Geirlandsá er vaðin (30 km) og
Fagrifoss skoðaður.
Vaða þarf líklega Hellisá og jafnvel Stjórn áður en komið er að
afleggjaranum í Blágil (35 km) en þangað er 2,5 km spotti og gott að
snæða hádegisverð þar með aðgang að vatni, skála og salerni eftir
þörfum. Eftir hádegismat er aftur farið út á Lakaveg (40 km) og komið
að fjallinu Laka (55 km) en upplagt er að taka útsýnisferð upp á
fjallið, skoða hella og gosmyndanir. Þaðan er stefnan tekin fyrst í
vestur og svo SSV meðfram gígaröðinni, gönguleið á milli gíganna hjóluð
(60 km) og haldið áfram þar til komið er í gangnamannaskálann við
Hrossatungur (80 km) hvar grillað verður og gist.

Dagur 3. Sunnudagur 16.ágúst. (Grænn 25 til 55 km) Frá Hrossatungum er
haldið suður á bóginn, fram hjá gagnamannaskálanum við Leiðólfsfell (95
km) og inn á línuveg og Hellisá vaðin í annað sinn. Fljótlega eftir
Hellisá er beygt suður (100 km) í Skaftárdal á meðan Ford heldur
línuveg áfram og hittir hópinn aftur við hringveg á leiðinni niður í
Skaftárdal.
Hjólreiðamenn koma hins vegar í Skaftárdal (105) og yfir Skaftá og inn
á Fjallabaksleiðir og fylgja þeim niður á Þjóðveg 1 (125 eða 135 km).

Áhugasamir setji sig í sambandi við Bubba í síma 695 5407

Kort af leiðinni

Sykurfall í Húsadal

Sunnudaginn 19.júlí var sveitin kölluð út vegna meðvitundarlauss manns í Húsadal, Þórsmörk. Reyndist þar vera um sykurfall að ræða og hafði sjúklingurinn verið meðvitundarlaus í um klukkustund þegar björgunarsveitina bar að.  Var sjúklingurinn umsvifalaust fluttur útúr mörkinni til móts við Neyðarbíl.  Meira á spjallinu.