Greinasafn eftir: stjorn

Sjúkraæfing

Stór og mikil sjúkraæfing er nú í gangi á Hengilssvæðinu. 8 Fallhlífastökkvarar stukku úr þristinum ásamt cargo. TF-Líf þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með 4 undanfara á staðinn og fluttu björgunarmenn og sjúklinga á milli staða í rúmlega tvær klukkustundir. Við þökkum TF- Líf og sjúklingum frá HSSR, HSSG og læknanemum kærlega fyrir þátttöku sína.

Nýliðakynningar

Hefur þú hugleitt að snjór geti verið eitthvað annað en það sem er
fyrir manni í umferðinni? Gætir þú hugsað þér að stunda fjallamennsku,
jeppamennsku, vélsleða eða jafnvel fallhlífastökk? Ert þú þessi týpa sem
gætir hugsað þér að vera til taks þegar aðrir eru í neyð? Ert þú 18 ára
á árinu eða eldri? Kannski áttu þá erindi til okkar!

Nýliðakynningar Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík verða
haldnar þriðjudaginn 30. ágúst og fimmtudaginn 1. september kl. 20.00 í
húsnæði sveitarinnar við Flugvallarveg.

 

Verkefni við Múlakvísl

Stjórnstöðvarbíllinn af svæði 1 (Björninn) hefur verið í verkefni síðan 14. júlí við Múlakvísl sem vettvangsstjórnstöð. Hann verður þar eins lengi og lögreglan/almannavarnir óska eftir. Samkvæmt upplýsingum af staðnum er óhætt að segja að bíllinn hafi virkað vel og sé mikill stuðningur við alla stjórnun á staðnum.

Kynning á sviðum sveitarinnar

Þann 20. júní klukkan 19:00 er öllum sem vilja boðið á kynningu sviðsstjóra í sal FBSR.

Sviðsstjóri/fulltrúi hvers sviðs mun kynna starf sinnar einingar og bjóða þá sem vilja koma til starfa velkomna.

Kynningin er fyrir alla meðlimi FBSR hvort sem um er að ræða nýinngengna félaga eða eldri kempur sem vilja koma aftur til starfa eða þá sem vilja bæta við sig sviðum til að starfa á. Kynningin hefst klukkan 19:00 og við hendum einhverju á grillið á eftir.

Endilega komdu og sjáðu hvaða fjölbreyttu starfssemi FBSR hefur upp á að bjóða handa þér. 

 

Ferð á Snæfellsnes

Nokkrir nýgerðir Flubbar stefna á Snæfellsnesið á morgun laugardag 28. maí. Áætluð mæting í hús er 8.00 þaðan sem við brunum að Snæfellsjökli, töltum upp og rennum okkur niður (stiga sleðar og skíði velkomin). Þaðan verður stefnan tekin að Kirkjufelli við Grundarfjörð, brölt upp og niður (fínt að taka hjálma með). Farið verður á Strumpastrætó og einkabílum. Allir skemmtilegir Flubbar velkomnir.

Ný stjórn

Aðaflundur FBSR var haldinn í gærkvöldi og urðu þar nokkrar breytingar á stjórn félagsins.

Ottó Eðvarð Guðjónsson tekur við af Elsu Gunnarsdóttur sem formaður sveitarinnar.
Þráinn Fannar Gunnarsson, Gunnar Atli Hafsteinsson og Arnar Már Bergmann koma nýjir inn í stjórn en út fara Stefán Þór Þórsson, Elsa S. Helgadóttir og Magnús Þór Karlsson.
Af fráfarandi stjórn sitja áfram þau Agnes Svansdóttir, Marteinn Sigurðsson og Jón Svavarsson.

Fráfarandi stjórnarmönnum og konum eru þökkuð störfin og nýrri stjórn óskað velfarnaðar í starfi.

Aðstoð á Kirkjubæjarklaustri

Í dag, 24. maí, er sveitin að störfum á Kirkjubæjarklaustri. Tveir hópar lögðu af stað í nótt til þess að aðstoða heimamenn eftir þörfum.

Uppfært:

Hópar frá Ársæli og Flugbjörgunarsveitinni eru að störfum á svæðinu við Kirkjubæjarklaustur, samtals þrír hópar af svæði 1 sem verða að störfum frammá kvöld en einnig eru þar hópar af fleiri svæðum. Einnig fer fjarskiptahópur úr Hafnarfjarðarsveitinni austur til að aðstoða við fjarskiptamál.

Varðandi framhaldið þá er mikil óvissa um verkefni næstu daga en við gerum ráð fyrir að fara aftur í lok vikunnar.

Útkall í Suðursveit

Í gærkvöld var hópur frá FBSR sem staddur var á Hnappavöllum um helgina kallaður út til að aðstoða sveitir í Suðursveit við að athuga ástand á bæjum í sveitinni. Luku þau verkefnum um fjögurleitið og lögðu þá af stað norður fyrir í átt til Reykjavíkur.

Nú um klukkan þrjú voru þau stödd á Egilsstöðum svo búast má við að þau verði komin til borgarinnar seinni hluta kvölds.

 

Eldgos í Grímsvötnum

Vélsleðamenn FBSR voru í gær fengnir til þess að aðstoða jarðvísindamenn til að komast nærri gosinu í Grímsvötnum. Lögðu þeir af stað í nótt og er búist við að þeir verði komnir að gosinu um hádegisbil 22.maí.

Uppfært: Ekki var fært á jökulinn á vélsleðum þar sem að færið er of hart og því ekki lagt af stað. Stefnt er að því að notast við snjóbíla þess í stað.