Greinasafn eftir: stjorn

Tröllaskaginn heimsóttur

Um páskahelgina héldu B2-liðar ásamt þremur inngengnum í ferð á Tröllaskaga. Skipulagið var á könnu nýliðahópsins, en slíkt hefur tíðkast með páskaferðir sveitarinnar. Á miðvikudagskvöldið var haldið í Skagafjörð og inn í Hjaltadal. Gist var í tjöldum nálægt bænum Reykjum í fínu veðri. Snjóskortur á láglendinu var þó örlítið áhyggjuefni en skipuleggjendur höfðu gert ráð fyrir aðeins meira snjómagni.

Fyrsta dagleið: Frá Reykjum í Hjaltadal að Tungahrygg

16,7 km, 9,5 kst með stoppum

Á skírdagsmorgni var svo haldið af stað eftir að ábúendur að Reykjum höfðu varað skíðagarpana við hestum sem hefðu tilhneigingu til að borða bíla og því væri fín hugmynd að koma þeim í öruggt skjól. Haldið var af stað inn Hjaltadalinn og fljótlega eftir að sólin knúði fram fatastopp, var haldið inn Héðinsdal til austurs. Þar byrjaði klifrið upp á við, en áður en dagurinn var á enda hafði hópurinn hækkað sig um rúmlega tólf hundruð metra. Þegar komið var í Héðinsskarð (1261 m) kom að erfiðasta hluta leiðarinnar, en það var að koma sér niður austanmegin niður á Barkárdalsjökul. Einhverjar fjallaskíðahetjur hefðu vafalaust kallað þetta æðislega brekku, en fyrir gönguskíðafólk sem ekki er með fastan hæl var um erfiða niðurferð að ræða. Frá Barkárdalsjökli var svo haldið upp að Hólamannaskarði (1210 m) og yfir á Tungnahryggsjökull vestari. Þar beið hópsins skálinn á Tungnahrygg þar sem gist var. Þó ákváðu þrjár öflugar stelpur úr hópnum að tjalda fyrir utan og gista þar. Gangan upp tók nokkuð vel í og var færi þungt á köflum.

Lagt var af stað frá bænum Reykjum í Hjaltadal

Halda áfram að lesa

Skíðaferð á Eyjafjallajökul

Þann 20. apríl (21. apríl til vara) fer FBSR í dagsferð á Eyjafjallajökul og stefnt er að því að toppa jökulinn úr norðvestri og suðri.

Skúli Magg mun fara fyrir hóp sem gengur  á skíðum upp Skerin, á Hámund, niður á Fimmvörðuháls og þaðan í Skóga. Fólki er frjálst að vera á gönguskíðum eða fjallaskíðum en skíðin þurfa helst að vera með skinn. Ef ekki þarf fólk að vera undir það búið að labba upp jökulinn með skíðin á bakinu.

Matti mun leiða gönguhóp upp klassísku leiðina eða frá Seljavöllum og niður aftur.

Skráning og frekar upplýsingar má finna á innra svæði D4H.

Framboð til stjórnar FBSR

Senn líður að aðalfundi Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík en gert er ráð fyrir að hann verði haldinn fyrri hluta maímánaðar. Á aðalfundi verður kosið í embætti formanns, tveggja meðstjórnenda og tveggja varamanna og er hér með auglýst eftir framboðum í þessi embætti. Öllum fullgildum félögum í FBSR er frjálst að gefa kost á sér til stjórnarstarfa. Tengiliður uppstillingarnefndar er Vilberg Sigurjónsson (vilberg.sigurjonsson <hjá> is.aga.com, sími 696 3305) og veitir hann framboðum móttöku og gefur frekari upplýsingar.

Páskaferð FBSR

Sú hefð hefur skapast að nýliðar í B2 skipuleggi páskaferð Flugbjörgunarsveitarinnar. Þetta árið verður haldið norður á Tungnahryggsjökul og gengið á skíðum í hinni stórbrotnu náttúru Tröllaskagans. Ferðin verður þriggja nátta og möguleiki á tveimur nóttum í skála fyrir þá sem fengið hafa nóg af tjaldlegu í vetur. Lagt verður af stað úr húsi FBSR kl. 19:00 miðvikudaginn 27. mars. Þann dag og næsta verður gengið upp á jökulinn. Á föstudeginum verður gengið á tinda í nágrenninu þar sem vonandi fæst útsýni yfir Tröllaskagann. Síðasta daginn verður síðan gengið niður Kolbeinsdal og keyrt í bæinn. Það er næsta víst að þetta verður epísk ferð sem enginn vill missa af enda umhverfið einstakt og félagsskapurinn góður. Skráning fer fram á D4H og frekari upplýsingar fást hjá Ilmi í síma 849 2692.

Á myndinni að ofan er horft yfir jökulinn, eftir Tröllamúrnum til Hólamannaskarðs.

B1 á Heiðinni háu

Helgina 21. – 23. september 2012 var farin fyrsta ferð í nýliðanna í B1. Fyrir ferðina höfðum við fengið fyrirlestra um hvernig við áttum klæða okkur, haga búnaði, hvað skynsamlegt nesti innihélt og hvernig átti að tala í talstöð. Talstöðvarnar voru það fyrsta til að koma mér á óvart, því það að tala í talstöðvar hljómar mjög einfalt en það reyndist hægara sagt en gert að muna hvað átti að segja og hvernig.  „FBSR æfingastjórn, FBSR hópur 2 kallar.“ Ofsalega einfalt en ofsalega auðvelt að klúðra uppi á fjalli í roki. Búnaðarfyrirlestrarnir voru auðveldari að meðtaka en þeim fylgdu líka verslunarferðir í allar útivistarbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu í leit að rétta jakkanum, rétta föðurlandinu og fullkomna matarílátinu.

Við mættum upp í hús FBSR á föstudagskvöldi klukkan 7 eins og venja er fyrir allar ferðir. Þá vorum við búin að skipta okkur niður á tjöld og tjaldfélagarnir búnir að ákveða innbyrðis hver kæmi með prímus og pott. Það var spenningur í hópnum þegar allir voru búnir að koma sér upp í bílana og lagt á stað stundvíslega klukkan átta. Halda áfram að lesa

Útkall vegna ófærðar á höfuðborgarsvæðinu

aFlugbjörgunarsveitin tók þátt í að aðstoða íbúa höfuðborgarsvæðisins í óveðrinu sem gekk yfir í gær. Björgunarmenn sveitarinnar sinntu hinum ýmsu verkefnum þar á meðal að losa fasta bíla og festa niður lausar þakplötur. Aðstæður voru á köflum mjög erfiðar. Á Kjalarnesi fóru hviðurnar á tímabili í 35 m/s og varla sást fram fyrir húddið á bílnum. Brugðið var á það ráð að láta björgunarmann ganga í kantinum með bílnum svo bílstjórinn áttaði sig á því hvar hann var staddur miðað við veginn. Dagurinn gekk að flestu leyti nokkuð vel, vegfarendur voru skilningsríkir og samstarf við Lögreglu, Vegagerðina og aðrar björgunarsveitir mjög gott.

Fjallasvið heimsækir HSSR

aaFimmtudagskvöldið 28/2 2013 heimsótti fjallasvið FBSR klifurvegginn í húsi Hjálparsveitar Skáta í Reykjavík. Þar tók Danni Landnemi á móti okkur og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Í klifurvegg HSSR er hægt að æfa sig í leiðsluklifri og einnig hafa verið settar upp nokkrar „drytool“ leiðir sem klifraðar eru með ísöxum. Einstaklega vel heppnað æfingakvöld hjá Fjallasviði.

Nýliðaraun hjá B2 lokið

Um helgina fóru hetjurnar í B2 í gegnum hina alræmdu Hell Weekend, nýliðaraun Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. Flestir sluppu meira eða minna lifandi. Fleygustu orð helgarinnar eru eignuð Birni Bjartmarssyni: „Ég er mjög stoltur….[dramatísk þögn] af að hafa ekki dáið“.

858677_10151253749407130_1717797021_o

Nýliðakynningar 2012

Nýliðakynningar haustið 2012

Verða haldnar dagana 28. ágúst og 30. ágúst klukkan 20:00 í húsnæði FBSR að flugvallavegi.  Vonumst til að sjá sem flesta á kynningunum.  Endilega látið þá aðila sem hafa áhuga vita og jafnvel koma með þeim á kynninguna.

Getur hver sem er sótt um?

Aldurstakmark er 20 ára eða á 20. aldursári, þó eru undanþágur skoðaðar í hverju tilfelli fyrir sig.  Vera við góða andlega og líkamlega heilsu.  Félagar geta gengið inn í sveitina á aðalfundi í maí, tveimur árum eftir að nýliðanámið hefst.  Reynslan sem árin kenna okkur er vissulega dýrmæt og nýtist mjög vel í björgunarstörfum. Björgunarstörf eiga því alls ekkert síður við fólk sem er á „“besta aldri““.

Kveðja Stjórn FBSR.