Flugbjörgunarsveitin þakkar öllum þeim sem keyptu jólatré kærlega fyrir stuðninginn.
Jólatrjáasala Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík (FBSR) var opin frá 2. desember fram að jólum í vefverslun, á Flugvallarvegi 7 við Öskjuhlíð og við Byko Breidd.
Opnunartímar á Flugvallarvegi 7 voru:
Helgar kl. 10-22
Virkir dagar kl. 12-22
Opnunartímar við Byko Breidd voru:
Helgar kl. 10-18
Virkir dagar kl. 12-19
Hægt er að kaupa vörur í vefverslun Flugbjörgunarsveitarinnar og sækja þær á Flugvallarveg 7 eða fá heimsent í Reykjavík, á Seltjarnarnes og í Kópavogi gegn vægu gjaldi.
Í jólatréssölu Flugbjörgunarsveitarinnar er boðið upp á nordmannsþin (normannsþin), stafafuru, blágreni og rauðgreni. Nordmannsþinurinn kemur frá Danmörku en íslensku jólatrén, þ.e. grenið og furan, koma frá Skógræktarfélagi Íslands.
Að auki er boðið upp á greinar, jólatrésfætur, pallafuru og kerti.
Hægt er að fá frekari upplýsingar í síma 551 2300 eða á facebook síðu FBSR.
Á höfuðborgarsvæðinu er einnig hægt að kaupa jólatré hjá Hjálparsveit skáta Garðabæ og Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Víða um land eru björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar að selja jólatré.
Flugbjörgunarsveitin þakkar öllum þeim sem keyptu jólatré kærlega fyrir stuðninginn.
Leiðbeiningar um meðhöndlun jólatrjáa
Normannsþinur er allur innfluttur frá Danmörku, þar sem hann er ræktaður til að vera jólatré. Hann er afar barrheldinn og heldur barri og lit þótt ekki sé vatn í jólatrésfætinum.
Stafafura vex á Íslandi og vinnur sífellt á. Furan heldur barrinu, hvað sem á dynur, út öll jólin og jafnvel lengur. Það er ágætt að setja vatn í fótinn en er ekki bráðnauðsynlegt, hún þornar bara fallega. Stafafuran angar langar leiðir og fyllir húsið jólailmi.
Umhirða þar til tré er sett í fót. Best er að geyma trén í netinu á skjólgóðum stað utanhúss og oftast borgar sig að spúla þau nokkrum sinnum með kröftugri vatnsbunu úr garðslöngunni, einkum ef frostvindur er og líka svo sem tveimur tímum áður en þau eru tekin inn, þá sígur vel af þeim og þau koma frísk og hress í hús. Ef frost er úti þegar það stendur til, er ráðlegast að láta þau þiðna hægt, t.d. í frostlausum bílskúr. Ef tréð er frosið má einnig leggja það í kalt vatn í baðkeri eða láta vatn renna á það. Auðveldara er að setja tréð í jólatrésfótinn ef það er enn í netinu meðan verið er að festa það.
Tré sett í fót. Gott er að saga aðeins, smá á ská, neðan af trénu áður en það er sett í jólatrésfótinn og hella svo sjóðandi heitu vatni ofan í fótinn. Þannig opnast æðarnar í trénu og dásamlegur greniilmur berst um allt. Eftir það er ráðlegt að fylla á með köldu eða volgu vatni þannig að alltaf sé nóg vatn í fætinum. Tréð drekkur mest fyrstu dagana og þá þarf að fylgjast með að nóg vatn sé í fætinum. Aldrei má vanta vatn í fótinn því þá lokast vatnsæðar trésins aftur.
Fjárframlög einstaklinga til Flugbjörgunarsveitarinnar eru frádráttabær frá skatti (Sbr. 7. tölul. A-liður 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.) Á það við hvort sem um er að ræða einstakar gjafir til félagsins eða reglulegan stuðning Traustra félaga.
Styrktaraðilinn þarf ekkert að aðhafast. Flugbjörgunarsveitin kemur upplýsingum um frádráttabæra styrki (kaup á vöru og þjónustu skapa ekki rétt til frádráttar) til Skattsins og við það lækkar skattstofn styrktaraðilans á viðkomandi almanaksári. Afslátturinn nemur tekjuskatthlutfalli þess sem veitir styrkinn en hlutfallið er breytilegt eftir tekjum. Styrkveitingar koma því fram á skattframtali hvers og eins.
Einstaklingar geta fengið skattaafsláttinn þegar samanlögð styrkupphæð til félaga á almannaheillaskrá Skattsins er á bilinu 10.000 (lágmark) til 350.000 krónur (hámark) á almanaksári. Nánari upplýsingar má finna á skatturinn.is.
Neyðarkall björgunarsveitana er að öllu jöfnu seldur í upphafi nóvember ár hvert. Vegna sóttvarna var sölu litla neyðarkallsins 2020 (lyklakippan) frestað fram. Mun salan fara fram 4.-6. febrúar 2021.
Stóri kallinn var seldur fyrirtækjum í nóvember 2020.
Frá í mars hefur húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar við Flugvallarveg verið bráðabirgðastöð Slökkviliðs höfuborgarsvæðisins. Áhafnir sjúkrabíls hafa haft þar aðsetur til að hindra smit á milli áhafna sjúkrabifreiða.
Í gær kvaddi slökkviliðið og þakkaði kærlega fyrir sig. Er ánægjulegt að hafa getað lagt lið með þessum hætti.