Greinasafn eftir: Erla Rún Guðmundsdóttir

Upphitunarprógram FBSR

Eins og fram kom í fjarkynningu um nýliðastarf FBSR fyrir nokkrum vikum var ákveðið að bíða með að hefja nýliðaþjálfunina formlega á meðan COVID-19 er kraumandi í samfélaginu og sóttvarnaraðgerðir síbreytilegar.

Þess í stað bjóðum við áhugasömum að fræðast, kynnast sveitinni og hita upp fyrir alvöru þjálfun á röð fjarfunda. Netprógramið er þannig fyrst og fremst hugsað sem upphitun fyrir verðandi nýliða en það nýtist þó einnig inngegnum félögum í FBSR, t.d. þeim sem hafa dottið út úr starfi og vilja koma aftur.

Þau Ragna Lára Ellertsdóttir, Hjalti Björnsson og Kristjana Ósk Birgisdóttir hafa umsjón með prógraminu en ýmsir gestir munu koma að fundunum sjálfum. Áætlað er að þeir verði á dagskrá annan hvern þriðjudag næstu vikur og mánuði.

Heildarskipulag prógramsins er ekki fullbúið en verið er að vinna með ýmsar hugmyndir, t.d kynningu á störfum flokka innan FBSR, grunnatriði rötunar (GPS og áttaviti) og jeppafræði, auk þess sem vel valdar hetjusögur félaga munu áreiðanlega fá sitt pláss.

Næsti fundur á þriðjudag 6. október

Á fyrsta fundi, þann 22. september sl., var farið í upprifjun og grunnatriði fyrir ferðamennsku. Sveinn Hákon Harðarson verður svo með næsta fund, þann 6. október nk., og ætlar hann þar að fara yfir hlutverk björgunarsveita og störf þeirra. Sjá Facebook viðburð.

Þegar hafa 30 manns skráð sig í prógramið og ennþá hægt að skrá sig hér. Þó flestum fundum verði deilt á opinni Facebook síðu sveitarinnar gætu einhverjir viðburðir orðið lokaðir og því er vissara að skrá sig á listann.

Aðalfundur FBSR 2020

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík var haldinn með pompi, prakt og tveggja metra sætisbili þann 10. september sl. Í venjulegu árferði er aðalfundur sveitarinnar haldinn að vori en vegna sóttvarnaaðgerða síðastliðið vor var ákveðið að fresta honum til hausts.

Aðalfundurinn var haldinn á Hótel Natura, til móts við bækistöðvar FBSR í Öskjuhlíðinni, og þangað mættu ríflega 130 félagar. Að venju var farið yfir skýrslu stjórnar og ársreikninga áður en komið var skemmtilegasta dagskrárliðnum, inntöku nýrra félaga. Árgangurinn var sérstaklega stór og öflugur í ár og inn gengu 28 nýir Flubbar. Hamingjuóskir fá bæði þau nýinngengnu og sveitin öll með frábæra viðbót við hópinn!

Nýinngengir ásamt nýliðaþjálfurum og fráfarandi formanni stjórnar (Mynd: Jón Svavarsson).

Loks voru kjörnir nýir fulltrúar í nokkrar stöður í stjórn, m.a. formannsembættið, og er stjórn FBSR starfsárið 2020-2021 skipuð eftirfarandi:

  • Formaður: Viktor Örn Guðlaugsson
  • Varaformaður: Sveinn Hákon Harðarson
  • Gjaldkeri: Ingvi Stígsson
  • Meðstjórnendur:
    • Andrea Burgherr
    • Ásta Ægisdóttir
    • Leó Gunnar Víðisson
    • Ólafur Magnússon
Stjórn FBSR 2020-2021 (Mynd: Jón Svavarsson)

Um leið og við óskum nýjum stjórnarmeðlimum til hamingju með kjörið viljum við þakka fráfarandi stjórnarfólki fyrir vel unnin störf. Sérstakar þakkir fær Hjalti Björnsson, formaður FBSR 2017-2020, fyrir sitt stóra framlag í þágu sveitarinnar.

Ljósmyndir tók Jón Svavarsson.

Fjarkynning FBSR um nýliðastarf haustið 2020

Undanfarnar vikur hafa okkur borist fjölmargar fyrirspurnir um upphaf og fyrirkomulag á nýliðaþjálfun sveitarinnar í haust. Okkur þykir alltaf gaman að heyra af áhuga á starfinu en þar sem okkar margrómaða nýliðaþjálfun krefst mikillar nándar (t.d. í tjaldferðum og við æfingar á fyrstu hjálp) hefur verið ákveðið að bíða með að hefja nýliðaþjálfun formlega þar til COVID-19 lætur sig hverfa.

Í millitíðinni bjóðum við áhugasömum að hita upp fyrir alvöru þjálfun og kynnast starfinu á röð fjarfunda í haust. Meðal efnis á fjarfundaröðinni verður umfjöllun um ferðamennsku, rötun, alls konar græjur og margt fleira sem tengist björgunarsveitarstarfinu.

Fjarkynning á upphitunarprógramminu verður á morgun, þriðjudaginn 8. september kl. 20. Kynningin fer fram yfir netið og verður hlekkur settur á Facebook viðburðinn þegar nær dregur. Fjarfundaröðin er frábært tækifæri fyrir fólk til að kynnast starfi FBSR án skuldbindinga eða tilkostnaðar og hvetjum við öll áhugasöm að fylgjast með kynningunni á morgun.

Viðbragðsvaktir FBSR í sumar

Í sumar stóð FBSR tvær viðbragðsvaktir. Þá fyrri í Dreka, norðan Vatnajökuls og þá síðari í Skaftafelli. Um er að ræða samvinnuverkefni björgunarsveita á landinu, sem skipta með sér sumrinu. Vakt FBSR sinnti ýmisskonar aðstoð við ferðalanga en tíminn var einnig nýttur til æfinga og landkönnunar.

Meðal verkefna var aðhlynning eftir lítils háttar meiðsli, aðstoð vegna bilaðra bíla á afskekktum stöðum og vegalokun vegna óveðurs. Að auki var unnið að því með landvörðum að kanna og merkja leiðir og leiðbeina ferðalöngum.

Frítíminn var einnig vel nýttur til bæði æfinga og styttri skemmtiferða. Frá Dreka var gengið á Herðubreið og keyrt í Kverkfjöll, auk þess sem straumvatnsbúnaðurinn var prófaður og -tæknin æfð við fossinn Skínandi í Svartá.

Í Skaftafelli var svo gengið á Kristínartinda og farið inn í Núpsstaðaskóga, auk þess sem ísklifur og jöklaganga var æfð á nærliggjandi jöklum.

Þakkir til styrktaraðila

Sveitin leitar árlega til fyrirtækja í matvælaiðnaði til að fá matarstyrki fyrir vaktirnar. Þó ýmsir sjái sér ekki fært að styðja starfið með þessum hætti eru fjölmörg fyrirtæki sem betur fer aflögufær og sum hver hjálpa jafnvel til ár eftir ár. Fyrir það erum við afskaplega þakklát!

Við viljum því formlega þakka eftirtöldum aðilum kærlega fyrir veittan stuðning við að fæða þátttakendur í viðbragðsvöktum FBSR árið 2020:

  • Bæjarins Beztu Pylsur
  • Mjólkursamsalan
  • Ölgerðin
  • Myllan
  • Ó. Johnson og Kaaber
  • Kaupfélag Skagfirðinga (Vogabær)
  • Innnes
  • Grímur kokkur
  • Þykkvabæjar
  • Ásbjörn Ólafsson ehf.
  • Nesbú
  • Flúðasveppir
  • Vilko
  • Olifa
  • Kjarnafæði

Við viljum einnig nota tækifærið til að þakka Björgunarsveitinni Súlum og Björgunarsveitinni Kára fyrir afnot af aðstöðu þeirra á Akureyri og í Skaftafelli.

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík 69 ára

Þann 27. nóvember sl., voru liðin 69 ár síðan hópur góðra manna mætti á framhalds stofnfund Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. Þar var gengið var frá lagamálum og öðru sem fylgdi stofnun félagsins. Þremur dögum áður, eða 24. nóvember, hafði formlegur stofndagur verið en þá mættu 28 menn til að ræða stofnun sveitarinnar auk þess sem stjórn var skipuð, farið var yfir tilgang sveitarinnar og sett í gang lagaskipun sem svo var kláruð á framhaldsfundinum 27. nóvember.

Báðir þessir dagar hafa verið taldir til stofndags/afmælisdags sveitarinnar, en 24. nóvember hefur þó alla jafna verið talinn hinn eini rétti dagur og má meðal annars sjá það á fánum sem sveitin hefur gert sem og visku hinna eldri félaga. Þrátt fyrir að sá dagur sé liðinn finnst mér rétt að segja til hamingju með afmælið!

Á næsta ári verður svo stórt afmælisár, 70 ára afmælið. Afmælisnefnd hefur verið starfandi síðustu mánuði til að skipuleggja heljarinnar dagskrá á afmælisárinu, en hún mun forlega byrja í flugeldakaffinu 29. desember. Frekari dagskrá verður kynnt á næstunni og ættu allir að finna þar eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það eru virkustu félgara sveitarinnar, aðrir sem eru lítið eða ekkert virkir en vilja kynnast starfinu betur á ný, þeir sem eru í besta forminu og vilja hlaupa upp öll fjöll eða þeir sem vilja frekar kynna sér sögu sveitarinnar eða koma á fjölskylduviðburði og kynna sveitarstarfið fyrir fjölskyldunni.

Leitarhundaheimsókn í Vogaskóla

Föstudaginn 22. nóvember hélt hundaflokkur FBSR kynningu fyrir 8. og 9. bekk í útivistartíma í Vogaskóla um störf leitarhunda. Þóra J. Jónasdóttir var fulltrúi flokksins, ásamt leitarhundunum Söru og Syrpu og hinni 12 vikna gömlu Mirru sem er að hefja þjálfun.

Heimsóknin hófst með stuttu erindi frá Þóru en þar á eftir fengu krakkarnir að sjá leitarhundana að störfum. Ein úr nemendahópnum snerti pappírsþurrku áður en hún og vinkona löbbuðu úr skólanum og var pappírsþurrkan svo notuð sem lyktarsýni fyrir FBSR Söru, sporhund í þjálfun. Sara rakti sporin alveg heim til hennar, með 16 börn og einn kennara á hælunum.

Eftir þetta fengu tvö pör af krökkum að fela sig í trjánum í Elliðaárdalnum og FBSR Syrpa víðavangsleitarhundur leitaði þau uppi hvert af öðru. Krakkarnir voru mjög hrifnir af getu leitarhundanna og varð þeim ljóst að það þýðir ekkert að laumast úr skólanum þegar Syrpa og Sara eru á vakt.

Í dag er Syrpa ein með útkallsréttindi í hundaflokki FBSR en fimm hundar til viðbótar eru í þjálfun. Syrpa er fullþjálfuð í snjóflóðaleit og víðavangsleit (A próf) og Rökkvi og Lúna eru í þjálfun á sömu sviðum (C próf). Þá er Sara í þjálfun í sporrakningum og snjóflóðaleit (C próf) og Lindor í sporrakningum. Svo er það Mirra litla sem hóf nýlega þjálfun í víðavangsleit og snjóflóðaleit en þess má geta að það tekur um þrjú ár að fullþjálfa leitarhunda.

Mynd að ofan: Nemendur ásamt leitarhundum og Einari Pétri, kennara og félaga í FBSR (Þóra J. Jónasdóttir).

Myndir að neðan: Nemendur að leik og hundar að störfum (Fanney Björg, 8. bekk í Vogaskóla)

Minningardagur um fórnarlömb umferðaslysa

Fjöldi viðbragðsaðila kom saman til að heiðra minningu fórnarlamba umferðaslysa.

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík tók á sunnudaginn þátt í minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa, ásamt öðrum björgunarsveitum og viðbragðsaðilum. Í Reykjavík fór athöfnin fram við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi og þar kom fjöldi viðbragðsaðila og annara gesta saman til að heiðra minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni. Í ár var sjónum þó beint sérstaklega að aðstandendum.

Sambærilegar athafnir voru haldnar víða um landið á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Á Facebook síðu félagsins kemur fram að  „Þakklæti til viðbragðsaðila, fyrir fórnfýsi og óeigingjarnt starf sitt við björgun og aðhlynningu á vettvangi, [hafi verið] ofarlega í huga þeirra sem fluttu ávörp.“

Guðjón, Ívar og Bergþór, nýliðar í FBSR, sóttu athöfnina ásamt fleiri nýliðum og inngengnum félögum sveitarinnar.

Nýliðafréttir

Um liðna helgi var mikið um að vera hjá FBSR, eins og yfirleitt er um nýliðahelgar. Nýliðar á fyrsta ári, B1, sóttu námskeið í fyrstu hjálp en nýliðar á öðru ári, B2, fóru í vetrarfjallamennskuferð á Botnssúlur.

Fyrsta hjálp hjá B1

Það reyndi örlítið á taugarnar hjá B1 um helgina þegar hópurinn sótti maraþonnámskeið í fyrstu hjálp. Sjúkrasvið FBSR hélt utan um námskeiðið en á því er farið yfir ýmsa misalvarlega kvilla og aðstæður sem komið geta upp og rétt viðbrögð kennd og prófuð í öruggum aðstæðum. Þríhyrningakerfið var þar mikið æft, sem og endurlífgun, líkamsskoðun, meðferð sára og fleira.

B1-liðar stóðu sig með mikilli prýði og ljóst að um krafmikinn og áhugasaman hóp er að ræða.

Vetrarfjallamennska hjá B2

Nýliðahópur B2 ásamt fylgiliði hélt á laugardaginn á Botnssúlur. Hópurinn taldi rúmlega 30 manns sem öll byrjuðu gönguna við Svartagil á Þingvöllum. Um helmingur stefndi á Syðstusúlu en hinn helmingurinn á Miðsúlu og náðu báðir hópar að toppa, þó skyggni væri lítið sem ekkert og færið erfitt á köflum.

Á toppnum var ekkert útsýni en stemningin var engu að síður afar góð. Það birti svo til á niðurleiðinni og blöstu Þingvellir þá við hópnum í allri sinni dýrð. Í myndbandinu hér fyrir neðan má upplifa stemninguna hjá Miðsúluhópnum og þar á eftir koma myndir úfrá báðum hópum.