Björgun 2010

Þann 22. – 24. október n.k. verður ráðstefnan Björgun 2010 haldin á Grand Hóteli í Reykjavík.

Björgun er nú haldin í 11. skiptið og að þessu sinni verða tæplega 60 fyrirlestrar í boði, fluttir af innlendum sem erlendum sérfræðingum og þegar hefur fjöldi erlendra gesta boðað komu sína. Allir fyrirlestrar sem fluttir verða á ensku verða túlkaðir á íslensku.

Dagana fyrir ráðstefnuna verða einnig tvær sérhæfðar ráðstefnur; Verkfræði, jarðskjálftar, rústabjörgun og Almannavarnir sveitarfélaga. Einnig verða námskeið í notkun jeppa og beltatækja í leit og björgun.

Eftir opnunarfyrirlesturinn, sem fjallar um ferð Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar til Haiti, verður nýr stjórnstöðvarbíll svæðisstjórnar á svæði 1 vígður og munu gestir ráðstefnunnar geta skoðað hann alla helgina.

Eftir að formlegum fyrirlestrum lýkur á föstudag verður sýnd ný sjónvarpsmynd, sem SagaFilm hefur gert fyrir alþjóðlegan markað, um ferð ÍA til Haiti.

Á laugardeginum verður sýning á björgunartækjum og búnaði sem nýst getur viðbragðsaðlilum við störf þeirra. Sýnendur eru fjölmargir, íslenskir sem erlendir.

Á laugardagskvöldið verður hátíðarkvöldverður í Lava, veitingastað Bláa lónsins.

Allir sem fylgjast með björgunarmálum á Íslandi ættu að mæta á ráðstefnuna því af henni má hafa bæði gagn og gaman.

Verðið á ráðstefnuna er 10.000 kr. fyrir félagsmenn.

Verðið í hátíðarkvöldverðinn á Lava veitingastað í Bláa Lóninu er 8.500 kr. sem félagar þurfa að borga sjálfir.

Nánari upplýsingar um dagskránna, skráning og önnur atriði má finna á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar, www.landsbjorg.is