Merki frá neyðarsendi fóru að berast snemma á laugardagsmorgun frá togara sem staddur var í Reykjavíkurhöfn. Við eftirgrenslan kom í ljós að um var að ræða togaran Qavak frá Grænlandi en hann var dregin vélarvana af miðunum af varskipinu Ægi fyrir um mánuði síðan.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunar ræsti út viðeigandi aðila til að finna sendinn en hann var ekki fastur á brúarhandriði skipsins eins og vera ber.
Fyrir skömmu var farið ófrjálsri hendi um skipið og sprengdur upp gúmmbjörgunarbátur, sennilega í leit að lyfjum og líklegast hefur neyðarsendirinn þá verið fjarlægður úr hulstrinu og hent á milli skips og bryggju. Þar hefur hann lent inni í hjólbarða sem notaðir eru sem fríholt við bryggjuna og á flóðinu á laugardagsmorgun náð að komast á flot – en við það fer hann sjálfvirkt í gang. Félagi úr Flugbjörgunarsveitinni var fenginn til að miða út sendinn á staðnum því hann var hvergi í sjónmáli en allar vísbendingar og miðanir bentu til að hann væri undir bryggjunni á Ægisgarði. Þar fannst hann skömmu síðar eftir að togarinn hafði verið færður til og Færeyski dráttarbáturinn Thor Goliath kom þar að – þá sá skipstjóri hans ljósmerki frá sendinum undir bryggjunni og sótti hann. Félagar úr Flugbjörgunarsveitinni tóku við sendinum og slökktu á útsendingum hans. Neyðasendar af þessari gerð senda frá sér merki sem gefur til kynna um hvaða skip sé að ræða og eiga þeir einnig að gefa nokkuð nákvæma staðrákvörðun, aðvörun frá þeim koma upp á öllum vakstöðvum sem fylgjast með merkjum frá slíkum sendum og þurfti því að finna sendinn og slökkva á neyðarsendingunni.