Dagskrá vikunnar er þéttskipuð að vanda. Í kvöld, þriðjudaginn 20.11. klukkan 20 verður fyrirlesturinn Björgunarmaður í Aðgerðum haldin í húsnæði Landsbjargar í Skógarhlíð. Það er hann Jónas okkar Guðmundsson sem sér um fræðsluna en einkum er stílað inná B1 og B2.
Þá ætla fjallabjörgunarsinnaðir félagar að hittast og fara yfir fræðin á bakvið kerfin. Upplagt fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér þetta áður að kíkja og sjá hvaða hugsun er á bakvið aðgerðirnar og uppsetningu kerfanna.
Miðvikudaginn 21.11 verður samæfing undanfarahópa á Höfuðborgarsvæðinu en lýsingin að þessu sinni er "Vatnasull".
Fimmtudaginn 22.11 klukkan 18:15 er æfing að venju. Byrjum á að hlaupa í ca. 40 mínutur og tökum svo ýmsar æfingar í hálftíma í viðbót. Allt undir styrkri stjórn Egils en við viljum endilega hvetja alla félaga til að mæta og njóta stemmningarinnar.
Föstudaginn 23.11 klukkan 18:00 byrjar svo Hellweekend hjá B2 en B1 fer í göngu á Hengilsvæðinu klukkan 19. Talsverður fjöldi félaga hefur boðið sig fram í umsjón Hellweekend en eins og allir félagar þekkja þá er þetta hápunktur þjálfunarinnar og mjög gaman að taka þátt í því með nýliðunum.