Þann fyrsta apríl 2005 héldu 10 flubbar í ferð á Mýrdalsjökul. Í hópnum voru auk fjögurra ingenginna félaga sex hetjur úr B1. Eftir mikil heilabrot og svefnlausar nætur komust þau í B2 að þeirri niðurstöðu að ferðin væri aprílgabb og harðneituðu að láta hafa sig að fíflum með því að mæta.
Markmiðið var að draga nýliðana á skíðum langleiðina yfir jökulinn frá Sólheimaskála yfir á Mælifellssand og láta þau síðan ganga síðasta spölinn í Strútslaug þar sem yrði farið í bað og gist í tjöldum. Farið skyldi á FBSR 2 (Land Cruiser) og FBSR 9 (Leitner snjóbíl).
Að venju var lagt af stað frá félagsheimil FBSR kl. 20:00 á föstudeginum og stefnan tekin austur á Mýrdalsjökul. Gist var í skála Arcanum manna, sem reka þar þjónustu fyrir ferðamenn sem vilja kynnast því að aka snjósleðum. Það var ræst snemma á laugardegi og hópurinn gerði sig kláran.
Færið var þungt og skyggni 40-50 metrar. Það tók því nokkra stund að komast upp á jökulbrúnina, þótt örstutt væri, en þegar þangað var komið létti verulega til. Færið var mjög þungt fyrir Pál á Tvistinum enda hafði kyngt niður lausamjöll alla nóttina. Hann sneri við eftir nokkra stund og endalaust hjakk og moð enda ekki nokkurt færi fyrir jeppa. Átti það eftir að koma okkur í koll síðar í ferðinni því um kl 17 bilaði snjóbíllinn og var þá ákveðið að tjalda og ætluðu Kjartan og Garðar að reyna að gera við snjóbílinn. Fljótlega kom í ljós að erfitt gæti reynst að gera við.
Nú tóku við ýmsar pælingar í sambandi við framhaldið og meðal þess sem var rætt var að skíðafólk kæmi sér sjálft til baka daginn eftir og snjólbílamenn yrðu sóttir. Allar þessar pælingar fengu snöggan endi þegar það kom í ljós að í tvistinum höfðu verið þrjár púlkur og því var ómögulegt fyrir þrjá í hópnum að koma sínu dóti með. Þar sem veðurspáin gerði ráð fyrir versnandi veðri voru þær pælingar slegnar af. Þegar B1 hafði komið sér fyrir í tjöldum og snjóbílamenn gert hvað þeir gátu til að koma apparatinu í gang kvað Kjartan upp þann úrskurð að ekki væri möguleiki fyrir þá að gera við hann að svo komnu. Eftir nokkur símtöl í SAS (sérfræðingana fyrir sunnan) var ákveðið að leita aðstoðar hjá Helluflubbum og aðstoðuðu þeir okkur við það að koma mönnum og búnaði niður af jöklinum á sunnudeginum. Þó svo að ferðin hafi fengið þennan endi voru allir nillarnir mjög sáttir. Verður að segjast að þeir stóðu sig vel við þessar aðstæður og nú kom það sér vel að hafa farið í ferðina við Hvalvatn fyrir nokkrum vikum síðan, þar sem þau fengu að kynnast því að gista í tjöldum að vetrarlagi. Snjóbíllinn var búinn undir dvölina á jöklinum og liðið skellti sér inn í Högglund bíl FBSH, eða "tvíburrann" eins og sumir í vilja kalla þessi tvöföldu og afbragðsgóðu farartæki.
Það voru þakklátir ferðalangar sem kíktu svo við í kaffi á heimleiðinni hjá félögum okkar á Hellu. Komið var aftur í höfuðborgina um kl. 23 og bílarnir strax gerðir klárir í útkall morguninn eftir, til að leita að týndum brasilískum manni austur í Árnessýslu.
Saga og myndir: Matti og Kjartan