Undanfarnar vikur hafa okkur borist fjölmargar fyrirspurnir um upphaf og fyrirkomulag á nýliðaþjálfun sveitarinnar í haust. Okkur þykir alltaf gaman að heyra af áhuga á starfinu en þar sem okkar margrómaða nýliðaþjálfun krefst mikillar nándar (t.d. í tjaldferðum og við æfingar á fyrstu hjálp) hefur verið ákveðið að bíða með að hefja nýliðaþjálfun formlega þar til COVID-19 lætur sig hverfa.
Í millitíðinni bjóðum við áhugasömum að hita upp fyrir alvöru þjálfun og kynnast starfinu á röð fjarfunda í haust. Meðal efnis á fjarfundaröðinni verður umfjöllun um ferðamennsku, rötun, alls konar græjur og margt fleira sem tengist björgunarsveitarstarfinu.
Fjarkynning á upphitunarprógramminu verður á morgun, þriðjudaginn 8. september kl. 20. Kynningin fer fram yfir netið og verður hlekkur settur á Facebook viðburðinn þegar nær dregur. Fjarfundaröðin er frábært tækifæri fyrir fólk til að kynnast starfi FBSR án skuldbindinga eða tilkostnaðar og hvetjum við öll áhugasöm að fylgjast með kynningunni á morgun.