Á
laugardaginn voru allar sveitir á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi
kallaðar út á hæsta forgangi vegna Boeing 777 þotu frá British Airways
sem var að koma inn til nauðlendingar á Keflavíkurflugvelli. Ástæðan
var sögð eldur laus í farþegarými, en um borð voru 268 farþegar.
Samstundis var viðbragð sett af stað samkvæmt Viðbragðsáætlun fyrir
Keflavíkurflugvöll undir skilgreiningunni "F1-Raður – Neyðarstig2". Það
viðbragð er sett í gang ef mikil hætta er talin vera á ferðum og fleiri
en 54 farþegar eru um borð.
Svo vildi til menn voru í húsi hjá okkur vegna vinnu við breytinga á
húsinu þegar útkallið barst og var viðbragðstíminn því aðeins u.þ.b.
ein mínúta. Stjórnstöðvarbíllinn fór strax af stað ásamt fulltrúa í
svæðisstjórn. Tveir bílar frá okkur voru strax mannaðir með 15 manns.
Þeir voru rétt lagðir af stað þegar útkallið var afturkallað, en
stjórnstöðvarbíllinn var þá kominn í Garðabæ. Þotan hafði verið stödd
einungis 70 mílur suðvestur af Reykjanesi þegar ákveðið var að
nauðlenda henni og því var hún lent mjög fljótt eftir að neyðarkall frá
henni hafði borist. Í ljós kom að ekki var laus eldur um borð heldur
hafði myndast mikill reykur þegar brauðofn aftast í vélinni brann yfir.
Þegar það var ljóst var útkallið afturkallað.
Meðfylgjandi mynd er af sams konar eða sömu vél og er á vef www.airchive.com