Nýliðafréttir

Um liðna helgi var mikið um að vera hjá FBSR, eins og yfirleitt er um nýliðahelgar. Nýliðar á fyrsta ári, B1, sóttu námskeið í fyrstu hjálp en nýliðar á öðru ári, B2, fóru í vetrarfjallamennskuferð á Botnssúlur.

Fyrsta hjálp hjá B1

Það reyndi örlítið á taugarnar hjá B1 um helgina þegar hópurinn sótti maraþonnámskeið í fyrstu hjálp. Sjúkrasvið FBSR hélt utan um námskeiðið en á því er farið yfir ýmsa misalvarlega kvilla og aðstæður sem komið geta upp og rétt viðbrögð kennd og prófuð í öruggum aðstæðum. Þríhyrningakerfið var þar mikið æft, sem og endurlífgun, líkamsskoðun, meðferð sára og fleira.

B1-liðar stóðu sig með mikilli prýði og ljóst að um krafmikinn og áhugasaman hóp er að ræða.

Vetrarfjallamennska hjá B2

Nýliðahópur B2 ásamt fylgiliði hélt á laugardaginn á Botnssúlur. Hópurinn taldi rúmlega 30 manns sem öll byrjuðu gönguna við Svartagil á Þingvöllum. Um helmingur stefndi á Syðstusúlu en hinn helmingurinn á Miðsúlu og náðu báðir hópar að toppa, þó skyggni væri lítið sem ekkert og færið erfitt á köflum.

Á toppnum var ekkert útsýni en stemningin var engu að síður afar góð. Það birti svo til á niðurleiðinni og blöstu Þingvellir þá við hópnum í allri sinni dýrð. Í myndbandinu hér fyrir neðan má upplifa stemninguna hjá Miðsúluhópnum og þar á eftir koma myndir úfrá báðum hópum.

Skildu eftir svar