Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík tók á sunnudaginn þátt í minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa, ásamt öðrum björgunarsveitum og viðbragðsaðilum. Í Reykjavík fór athöfnin fram við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi og þar kom fjöldi viðbragðsaðila og annara gesta saman til að heiðra minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni. Í ár var sjónum þó beint sérstaklega að aðstandendum.
Sambærilegar athafnir voru haldnar víða um landið á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Á Facebook síðu félagsins kemur fram að „Þakklæti til viðbragðsaðila, fyrir fórnfýsi og óeigingjarnt starf sitt við björgun og aðhlynningu á vettvangi, [hafi verið] ofarlega í huga þeirra sem fluttu ávörp.“