Slysavarnarfélagið Landsbjörg gengst fyrir verkefninu Björgunarsveitir
á hálendinu. Flugbjörgunarsveitin tekur þátt í þessu verkefni núna í
næstu viku, 21. til 28. júlí en tililgangurinn er að vera til taks
fyrir ferðamenn.
Á föstudaginn heldur hópur frá okkur upp á hálendið til að vera á vaktinni í verkefninu Björgunarsveitir á hálendinu,
sem Landsbjörg stendur núna fyrir. Tilgangurinn er að vera ferðamönnum
innan handar með neyðaraðstoð, hjálp og upplýsingagjöf þegar á þarf að
halda. Einnig verða settar niður merkingar frá Vegagerðinni samkvæmt
tillögum umferðarfulltrúa Landsbjargar frá í fyrra.
Landsbjörg hefur látið útbúa kassa með búnaði sem við komum til með
að nota og margvíslegum skýrslum og upplýsingum um vegi, skála og
hálendið almennt. Hálendinu hefur verið skipt í fjögur svæði og verður
ein sveit með hvert svæði viku í senn. Okkar svæði mun verða
Fjallabaksleiðirnar en önnur svæði eru Kjalvegur og nágrenni,
Sprengisandsleið og svæðið norðan Vatnajökuls. Vaktirnar standa allt
frá 30. júní til 18. ágúst.
Myndin er tekin að Fjallabaki í fyrra. Hattfell í baksýn.