Afmælishátíð FBSR – 75 ára

Kæru félagar!
Við ætlum að halda stórglæsilega afmælisveislu til að fagna 75 ára afmæli FBSR þann 22. nóvember 2025!

Veislan verður í Gamla bíó, Ingólfsstræði 2a, makar eru hjartanlega velkomnir. Kvöldið verður fullt af gleði, góðum vinum, ljúffengum mat og skemmtilegri dagskrá.

Matseðillinn er ekki í verri kantinum, boðið verður upp á þriggja rétta veislumat.

Miðaverð er aðeins 8.000 kr og lýkur skráningu fimmtudaginn 6. nóvember!

Skráning fer fram hér: https://forms.gle/xyyJuCcmynd1zkVV9
Reikningsupplýsingar fyrir millifærslu:
Reikningur: 0513-14-404619
Kennitala: 550169-6149
Staðfesting á: ritari[hja]fbsr.is

Þetta verður kvöld til að muna – taktu daginn frá, hnipptu í gömlu félagana og njótum saman!
Við hlökkum til að sjá sem flesta og fagna þessum tímamótum saman!

Tónleikar í húsi FBSR 8. okt 2025

Annað kvöld tónlistarhátíðarinnar State of the Art fer fram í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík þar sem Tríó Sól stígur á stokk ásamt Halldóri Eldjárn.

Tríó Sól hóf samstarf sitt í Kaupmannahöfn árið 2020 þar sem fiðluleikararnir Emma Garðarsdóttir og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir stunduðu tónlistarnám með víóluleikaranum Þórhildi Magnúsdóttur. Þær eru óhefðbundinn kammerhópur sem leggur áherslu á samtíma- og þjóðlagatónlist. Þar sem tónverkarófið fyrir þessa hljóðfærasamsetningu er heldur takmarkað hefur hópurinn orðið að vettvangi fyrir nýsmíðar. Gjarnan með tilraunakenndu samstarfi við tónskáld frá ýmsum löndum. Tríóið hefur einnig vakið athygli fyrir skapandi sviðsframkomu þar sem stapp, bogahreyfingar, söngur, tal og fleira hefur verið fléttað inn í hljóðfæraleikinn.

Á tónleikunum mun tríóið frumflytja verk eftir Halldór Eldjárn og Svetlana Veschagina og leika fleiri nýleg verk sem hafa verið samin sérstaklega fyrir tríóið. Halldór Eldjárn er tónskáld og listamaður sem vinnur á mörkum tónlistar og tækni. Hann hefur skapað verk þar sem hljóðheimar, vísindi og forritun fléttast saman, allt frá sinfónískum verkum yfir í gagnadrifna tónlist. Í verki hans á tónleikunum mun tónskáldið sjálft stíga á stokk með tríóinu og spila á hljóðgervil og fundin hljóð. Það byggir á eðlisfræðilegum eiginleikum sólarinnar í stjörnukerfi okkar. Norðurljósin eru bein afleiðing sólargosa þar sem segulmagnaðar eindir strjúkast við jónahvolfið á jörðinni okkar. Útkoman er sjónarspil sem á sér engan líka en hreyfingar norðurljósanna eru túlkaðar með bogahreyfingum strengjaleikaranna í gegnum grafíska nótnaskrift.

Tónleikarnir fara fram 8. október í Flugbjörgunarsvetinni í Reykjavík við Flugvallarveg og hefjast kl 20. Miðasala er á tix.is, miðaverð er 4.990 kr og húsið opnar hálftíma fyrir tónleika. Einnig er hægt að næla sér í hátíðarpassa State of the Art sem veitir aðgang að öllum viðburðum hátíðarinnar.

Nýliðakynning 2025

Kynning á nýliðaþjálfun Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík verður haldin kl. 20:00 þann 25. ágúst og endurtekin kl. 20:00 þann 26. ágúst.

Kynningin verður í húsnæði FBSR að Flugvallarvegi 7.

Þau sem hyggjast skrá sig í nýliðaþjálfun eru hvött til að mæta í Esjugöngu föstudaginn 29. ágúst klukkan 19:00 eða laugardaginn 30. ágúst klukkan 14:00.
Þar er hægt að hitta þjálfara og fá tilfinningu fyrir því sem koma skal.
Mæting er við Esjustofu 15 mínútum fyrir tímann, lagt verður stundvíslega af stað.

Þjálfunin tekur tvo vetur, september-maí 2025-2027. Nýliðar læra á þeim tíma að bjarga sjálfum sér og öðrum við ýmsar aðstæður. Meðal námsgreina eru ferðamennska, rötun, GPS, fyrsta hjálp, fjarskipti, fjallamennska, fjallabjörgun, snjóflóð, straumvatnsbjörgun, leitartækni og fleira. Að auki taka nýliðar virkan þátt í ýmsu öðru starfi sveitarinnar, svo sem fjáröflunum.

Kíkið í heimsókn ef þið hafið áhuga á fjölbreyttu og gefandi starfi með björgunarsveit!

Aldurstakmark er 18 ár.

Menningardagur opið hús

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík verður með opið hús frá klukkan 12:00-15:00 í húsnæði sínu við Flugvallarveg 7.

Þar geta gestir og gangandi fengið að kynnast starfi og sögu björgunarsveitarinnar og meðal annars skoðað aðstöðuna, tæki, bíla og búnað sveitarinnar.

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík var stofnuð árið 1950 í kjölfar Geysis slyssins og í dag starfa fjölmargir sérhæfðir flokkar innan sveitarinnar.

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík 2025

Aðalfundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík verður haldinn þriðjudaginn 27. maí á Flugvallarvegi 7 og hefst fundurinn kl. 20:00. 

Fráfarandi stjórnarfólk munu grilla pylsur frá kl. 19:00. Kaffi og með því í hléinu.

Samkvæmt lögum FBSR skal á þessum fundi kjósa formann, varaformann og tvo meðstjórnendur auk eins félaga í siðanefnd, tveggja til skoðunarmanna reikninga, tveggja í uppstillingarnefnd og tvo trúnaðarmenn nú í ár.
Hægt er að hafa samband við uppstillingarnefnd FBSR vilji fólk bjóða sig fram í embætti en einnig má bjóða sig fram á fundinum sjálfum. Í uppstillingarnefnd eru Þorsteinn Ásgrímsson og Ragna Lára Ellertsdóttir. 

Dagskrá aðalfundar, sbr. lög FBSR:

1. Formaður setur fundinn, en fundurinn kýs sér fundarstjóra og fundarritara.

2. Fundarritari fer yfir helstu mál frá síðasta aðalfundi og athugasemdir ef einhverjar eru.

3. Skýrsla stjórnar.

4. Ársreikningur lagður fram til samþykktar.

5. Inntaka nýrra félaga.

Hlé.

6. Lagabreytingar. Sjá endurskoðuð lög skv. tillögum sem borist hafa hér: http://bit.ly/431bnNA
Til samanburðar eru hér núgildandi lög: https://www.fbsr.is/wp-content/uploads/2022/11/Log-FBSR-2022.pdf

7. Tillögur sem borist hafa kynntar og bornar undir atkvæði

8. Kosning stjórnar.

9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.

10. Kosning tveggja í uppstillingarnefnd.

11. Kosning tveggja trúnaðarmanna sem starfa skulu sjálfstætt.

12. Kosning eins félaga í siðanefnd til tveggja ára og stjórn kynnir val sitt á oddamanni (félagi eða utan sveitar). 13. Önnur mál.

Æfingahelgi í blíðskaparveðri

Það var nóg um að vera hjá FBSR um helgina og við ansi heppin með þetta blíðskaparveður sem sótti um land allt. 

Nýliðahóparnir okkar fóru í gönguskíðaferð um Holtavörðuheiði og nýttu ferðina í rötunaræfingar. Á sama tíma skellti sleðaflokkur sér í ferð á Mýrdalsjökul. 

Meðlimir úr Hundahóp voru einnig til æfinga við Bláfjöll og æfðu snjóflóðaleit.

Ljósmyndir: Arianne Gäwiler, Ásta Ægisdóttir, Björn J. Gunnarsson og Inga Hrönn.

Nýliðar í gönguskíðaferð og rötunaræfingum

Sleðaflokkur á Mýrdalsjökli

Dróttskátar í heimsókn til FBSR

Við fengum skemmtilega heimsókn í vikunni þegar Dróttskátar frá skátafélaginu Landnemar kíktu til okkar að kynnast björgunarsveitarstarfi FBSR. Dróttskátar eru krakkar á aldrinum 13-15 ára en þau fengu einnig að prófa að síga, júmma og fara í dobblunar reipitog undir dyggri leiðsögn félaga okkar þeirra Sölva, Andreas og Arianne.

Við þökkum þessum flottu krökkum kærlega fyrir heimsóknina!

Ljósmyndir: Arianne Gäwiler

Æfingaferðir á Langjökul og í Bláfjöllum

Um liðna helgi var farið í æfingaferð með B2 nýliðahópin á Langjökul þar sem gönguskíðaárinu var startað. Tjaldað var við skálann í Jaka á föstudagskvöldinu áður en haldið var á jökulinn á laugardeginum. Þó áhersla hafi verið á gönguskíði var engu að síður fríður flokkur tækja með í för þar sem nýliðar m.a. fengu að fræðast um umgengni tækja sveitarinnar. Bílaflokkur sló svo upp í grillveislu á laugardagskvöldinu fyrir alla.

B1 Nýliðahópurinn fór á sama tíma í gönguskíðaferð í Bláfjöllum.

Vel heppnaðar æfingaferðir og nægur snjór eins og sést á meðfylgjandi ljósmyndum.

Ljósmyndir: Inga Hrönn og Steinar Sigurðsson.

Gleðilegt ár!

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík óskar ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þökkum við innilega fyrir stuðninginn á fyrri árum!

Nýliðastarfið fór af stað á ný eftir mikla fjáraflanavertíð í desember en FBSR heldur úti jólatrjáasölu og flugeldasölu yfir desember mánuð. Það er með ólíkindum að sjá tvö slík stór verkefni verða að veruleika ár eftir ár við uppsetningu sölustaða flugelda strax eftir tiltekt á jólatrjáasölunni.

Fyrsta mál á dagskrá um nýliðna helgi var Snjóflóð 1 og 2 þar sem báðir nýliðahóparnir okkar æfðu réttu handtökin í leit í snjóflóði og eins að kunna að lesa vel í aðstæður, en öryggi björgunarmanns er alltaf númer 1, 2 og 3.

Meðfylgjandi mynd er af hópnum ásamt frábærum leiðbeinendum.

Flugeldasala 2024

Flugeldasala Flugbjörgunarsveitarinnar 2024 fer fram 28. desember – 31. desember.

Flugbjörgunarsveitin þakkar öllum sem styrkja starf sveitarinnar.

Sölustaðir eru á Flugvallarvegi 7, við Kringlu, í Mjódd á mót við Frumherja og við Norðlingabraut í Norðlingaholti.

Opnunartímar eru 28.-30. desember frá kl. 10 til kl. 22 og 31. desember frá kl. 10 til kl. 16.

Vefverslun með flugelda er opin frá 27. desember til 31. desember og er hægt að sækja á sölustaði í Mjódd og á Flugvallarvegi frá og með 28. desember.

Mesta aðsóknin er upp úr hádegi á gamlársdag og eru kaupendur hvattir til að koma snemma til að geta gefið sér tíma í næði til að velja sér skotelda.

Að venju eru til sölu blys, stjörnuljós, fjölskyldupakkar, rakettur, kökur, víg og gos.

Flugeldamarkaður björgunarsveitanna
Flugeldamarkaður björgunarsveitanna

Flugeldamarkaðir er ein mikilvægasta fjáröflun björgunarsveita og hjálparsveita.